Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:12:25 (4027)

2003-02-19 15:12:25# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina.

Um ástand stofnsins er það að segja að meðalafli skelbáta var að jafnaði 1.600 kg á veiðistund árin 1996--1999 en hefur síðan farið ört minnkandi niður í aðeins um 885 kg síðari hluta ársins 2002, sem er samdráttur um 45%. Hefur afli á sóknareiningu á öllu veiðisvæðinu dregist saman á þessu tímabili. Vísitala veiðistofns í Breiðafirði mældist einnig 43% minni í apríl 2002 en að jafnaði á sama tíma árin 1996--2000, eða sú lægsta frá upphafi sambærilegra stofnmælinga.

Af ofangreindum ástæðum lagði Hafrannsóknastofnun til verulegan samdrátt í leyfilegum hámarksafla af hörpudiski fyrir fiskveiðiárið 2002/2003, þ.e. að leyfðar yrðu veiðar á allt að 4.000 tonnum miðað við 6.500 og 8.000 tonn á fiskveiðiárunum 2001/2002 og 2000/2001.

Vegna lélegs ástands miðanna og dræmra aflabragða í upphafi þessa fiskveiðiárs, var farið í stofnmælingu í Breiðafirði dagana 19.--21. október sl. Niðurstöður voru þær að stofninn mældist um 40% minni í þyngd en sex mánuðum áður, í apríl 2002. Stofnstærðin nú er því aðeins 35% af meðaltali áranna 1996--2000 þegar stofninn virtist í nokkurri jafnstöðu. Magn hörpudisks hefur því farið jafnt og þétt minnkandi fram til október 2002 miðað við meðaltal áranna 1996--2000.

Athuganir á nýlegum, dauðum skeljum samhangandi á hjör, sýna fram á hæstu dauðsföllin hjá stærstu einstaklingunum, enda fækkaði skeljum í 90--95 millimetra stærðarflokkum um 75--100%. Í stærðarflokkum 60--85 millimetrum hefur skeljum í stofninum einnig fækkað í auknum mæli miðað við stærð, eða um 20--50%.

Í heild hefur skeljum í veiðistofninum því fækkað um 35% á aðeins sex mánuðum sem samsvarar um 40% miðað við þyngd. Engin áberandi dauðsföll voru hins vegar sjáanleg hjá yngri skel og vöxtur og nýliðun hjá yngri árgöngum virðist í meðallagi. Því er ljóst að hrun stofnsins síðan árið 2000 á einkum rætur að rekja til aukinna dauðsfalla hjá stærri og eldri skeljum.

Hörpudiskur er kaldsjávartegund og takmarkast útbreiðsla hennar við um eða rúmlega 10 gráður á Celsíus hámarkshita. Sjávarhiti við landið er hærri um þessar mundir en um langt árabil og þarf að fara allt aftur til áranna fyrir 1965 til að finna sambærilegt árferði í sjó, þ.e. til þess tímabils sem hörpudiskveiðar voru enn ekki ekki stundaðar við landið og lítið var vitað um útbreiðslu og magn tegundarinnar. Hugsanlega hafa skilyrði því farið batnandi fyrir hörpudisk þegar sjór fór kólnandi á sjöunda áratugnum en versnað aftur við hlýnun síðustu árin.

[15:15]

Með þetta í huga setti Hafrannsóknastofnunin á laggirnar árið 2001 nýtt vöktunarverkefni við útibúið í Ólafsvík þar sem tekin eru reglubundið sýni til að fylgjast með fisknýtingu, kynkirtlaþroska o.fl., auk þess sem settir voru niður síritandi botnhitamælar á tveimur stöðum í firðinum.

Á árinu 2002 hóf einnig nemandi við Háskóla Íslands meistaranámsverkefni sem m.a. er fólgið í því að kanna hitaþol hörpudisks eftir stærð. Fyrstu niðurstöður benda til þess að tegundin sé viðkvæm fyrir sjávarhita yfir u.þ.b. 11 gráðum á Celsíus. Talsverðar líkur eru því taldar á því að hækkandi sjávarhiti kunni að vera meginástæðan fyrir stórauknum dauðsföllum og þar af leiðandi minnkun stofnsins síðan árið 2000, enda eru undanfarin ár talin þau hlýjustu á þessum slóðum frá upphafi skelveiða 1970.

Áhrif aukins sjávarhita kunna þó að vera óbein þannig að aukinn hiti hafi orsakað uppgang í einhverjum lífverum sem herja á eldri einstaklinga hörpudisksstofnsins en dæmi eru um slíkt meðal skeldýrastofna erlendis. Með þetta í huga voru send sýni af lifandi hörpudiski til tilraunastöðvarinnar á Keldum í árslok 2002. Niðurstaða þeirrar rannsóknar sem unnin hefur verið í samráði við kanadíska skeldýrasjúkdómafræðinga mun liggja fyrir á næstunni.

Að lokum skal þess getið að samkvæmt skipaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar er áætlað að fara í tvo hörpudisksleiðangra á Dröfn á þessu ári, þ.e. í apríl og september. Með þessu móti fæst samanburður á ástandi stofnsins fyrir og eftir helsta vaxtar- og nýliðunartímabil ársins.

Varðandi vanda fiskvinnslufyrirtækja má minna á að gripið hefur verið til heimildar í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða og skelbátum bætt að hluta sú skerðing sem þeir hafa orðið fyrir í skelveiðum með botnfiski. Hefur þar verið miðað við að þeir bæru óbætta 30% skerðingu í skelfisksheimildum en skerðing umfram það væri bætt með botnfisksheimildum. Hefur þannig skelbátum verið úthlutað 400 þorskígildistonnum á yfirstandandi fiskveiðiári. Er þetta í samræmi við það hvernig innfjarðarrækjubátum hefur verið bættur niðurskurður í innfjarðarrækju.

Þá má bæta við, herra forseti, að við úthlutun byggðakvóta lágu fyrir þær tölur um kvóta í skelfiski sem vitnað var til fyrr og þannig var tekið tillit til þess ástands í þeirri úthlutun. Ef hins vegar þarf að koma til frekari niðurskurðar þá verður tekið tillit til þess í úthlutun skv. 9. gr. á þessu ári.