Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:22:50 (4032)

2003-02-19 15:22:50# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í svörum hæstv. ráðherra að nokkuð hefur verið gefið í varðandi rannsóknarþáttinn. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að þörf sé á því að gera meira, styrkja meira starfsemina í Ólafsvík og fjármagna nauðsynlegan búnað sem fram hefur komið á fundum að ekki hefur fengist til verksins.

En þá staldrar maður við aðra spurninguna aftur og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, ef horfurnar eru eins slæmar og menn álíta að þær séu, tilefni til þess að taka þetta mál upp á breiðum grunni og grípa til viðeigandi aðgerða, því hvað Stykkishólm varðar þá er hér um heilt byggðarlag að ræða þar sem tilverugrunnurinn er raunar mjög valtur eða í uppnámi. Þetta varðar útgerðina. Þetta varðar vinnsluna og þetta varðar náttúrlega sjómenn og landverkafólk og þetta varðar sveitarfélagið allt. Þegar svona kemur upp á þá tel ég að að beita eigi víðtækum lausnum, kannski með auknum aflaheimildum skv. 9. gr. En þá verða menn líka að horfast í augu við það hvaða magn menn telja að muni verða fáanlegt úr firðinum í næstu framtíð.

Ég held að þetta sé svo mikið mál fyrir þessi samfélög að þetta þoli ekki mikla bið, það verði að taka heildstætt á þessum málum fyrir fyrirtækin og fyrir fólkið á bara allra næstu vikum. Við megum ekki haga okkur þannig að horfa bara fram á erfiðleika sem leiða til flótta og hruns ef við höfum tæki til þess að taka á málunum, og auðvitað höfum við þau tæki. Til margra lausna er hægt að grípa. Við megum ekki sofa á verðinum varðandi þetta mál.

Þess vegna lýsi ég eftir tillögum eða því hvað hæstv. sjútvrh. hyggst gera í þessum málum til þess að lina erfiðleika samfélaganna.