Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:25:02 (4033)

2003-02-19 15:25:02# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég held að það sem fram kom í svari mínu staðfesti að enginn hefur sofið á verðinum. Við verðum hins vegar að hafa í huga að nú er skelvertíðinni um það bil að ljúka og næsta skelvertíð mun ekki hefjast aftur fyrr en næsta haust. Við reyndar vitum ekki í dag hvort ástand stofnsins mun geta staðið undir henni og það munum við væntanlega ekki vita fyrr en við fáum ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar næsta vor.

Það sem fram hefur komið er að tekið hefur verið tillit til þessa ástands í þeim úthlutunum sem fram hafa farið og ef það verður breyting á mun auðvitað verða tekið tillit til þeirra breytinga þegar næst verður úthlutað.

Hvort til einhverra frekari ráðstafana þurfi að grípa er erfitt að segja til um á þessari stundu, en þau tæki og tól í þessum efnum sem sjútvrn. hefur snúa nú eingöngu að fiskveiðiheimildum.

Varðandi spurningu hv. þm. Katrínar Fjeldsted um hvort ég telji að þetta sé mengun eða hitastig þá hefur ekkert enn þá komið fram um að þarna geti verið um mengun af mannavöldum að ræða. En það mun væntanlega skýrast þegar niðurstöður kanadíska skelsjúkdómafræðingsins og sjúkdómafræðinga á Keldum liggja fyrir. Þær niðurstöður munu einnig gefa okkur bendingar um það hvert eigi að halda frekar í þessum rannsóknum. Þess vegna er erfitt að segja til um það nú í bili hvað frekar verður gert í þessum efnum.

Ég hef ekki vitneskju um að vantað hafi neinn búnað til rannsókna en ég mun að sjálfsögðu athuga það. Þetta verðum við auðvitað að skoða í samhengi við það sem við höfum verið að gera annars staðar undir svipuðum kringumstæðum, herra forseti.