Þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:34:55 (4036)

2003-02-19 15:34:55# 128. lþ. 83.8 fundur 560. mál: #A þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þetta svar og fyrir yfirlitið sem hann gaf um þá starfsemi sem er í gangi og sem á ýmsan hátt snertir fjölskyldur þeirra sem lenda í fíkniefnaneyslu. En það sem er athyglisvert, og kemur mér þó ekki á óvart, er að upplýsingamiðstöðin sem var svo mikilvæg komst aldrei á laggirnar. Það var alveg ljóst að barna- og unglingageðdeild gæti ekki ráðið við þetta verkefni til viðbótar við það mikilvæga starf sem barna- og unglingageðdeildin sinnir.

Þetta er allt gott og blessað og Fjölskyldumiðstöðin er gott mál og það samstarf sem ráðuneytin hafa með sér. En við erum að tala um síma og miðstöð þar sem fólk í örvæntingu getur hringt og spurt: ,,Hvað á ég að gera?`` Og þá hlýt ég að nefna það sem kemur fram hjá foreldraráðgjöf og foreldrahúsi Vímulausrar æsku, að á meðan Fjölskyldumiðstöðin, sem er samstarf ráðuneyta, hefur aðstoðað 209 fjölskyldur og tekið 791 viðtal þá hefur foreldrasíminn sem er opinn allan sólarhringinn í Foreldrahúsinu tekið á móti 2.600 símtölum á árinu. Viðtöl sem ekki eru í síma eru 1.350 og foreldrahópar ná til 70 foreldra þar sem eru námskeið og starfsemi.

Þrátt fyrir að það sé mjög gott að þarna hefur ríkissjóður farið þá leið að styðja þessa starfsemi með framlögum, og það er mikilvægt í stöðunni, þá býr Foreldrahúsið við mjög óstöðuga fjármögnun og brýnt er að heilbrrh. skoði það með öðrum ráðuneytum hvort ekki eigi að koma á þjónustusamningi við Foreldrahúsið.