Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:43:21 (4039)

2003-02-19 15:43:21# 128. lþ. 83.9 fundur 562. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn þessi lýtur að því hvort ráðherra hafi beitt sér fyrir kynningu á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð í samræmi við ályktun Alþingis um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar frá 13. maí 1997.

Í tilefni af fyrirspurninni vil ég benda á að ályktun Alþingis tók einungis til sambúðarfólks en ekki til hjóna eins og fram kemur í 5. lið II. kafla ályktunarinnar. Svar mitt mun engu að síður einnig taka til hjóna.

Það er líka ástæða til að rifja það upp að það atriði sem hér er tilefni fyrirspurnar var aðeins lítill hluti af stærra máli sem m.a. fólst í ályktun um að ráðast í tilteknar aðgerðir, þar á meðal breytingar á reglum um fæðingarorlof feðra, en einnig stofnun fjölskylduráðs, sem fer með fjölskyldumálefni og heyrir undir félmrn.

Engu að síður er þetta góð fyrirspurn hjá hv. þm. til þess að vekja athygli á þessu máli. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að fólki sé kunnugt um réttarstöðu sína á þessu sviði. Ríkisstjórnin hefur einmitt lagt áherslu á bætta stöðu fjölskyldunnar á margvíslegan hátt, t.d. með nýrri veglegri löggjöf um fæðingarorlof.

Í upphafi er rétt að benda á að krafa um sérstakar lagareglur um réttarstöðu sambúðarfólks hefur fyrst og fremst tengst þeim einstaklingum sem velja sér að búa í því sem kölluð hefur verið óvígð sambúð og hefur löggjafinn mætt kröfunum með ýmsum hætti. Þessi sjónarmið tengjast breyttum viðhorfum til hjúskapar á síðustu öld, fjölgun þeirra sem kjósa að búa í nánu lífsambandi án þess að stofna til hjúskapar og tilhneigingu til að draga úr mun á réttarstöðu fólks sem býr við sambærilegar aðstæður.

[15:45]

Vissar lágmarkskröfur verður að gera til sambúðar til þess að hún falli undir hugtakið óvígð sambúð. Í þeim laga\-ákvæðum sem binda réttaráhrif við óvígða sambúð hefur verið miðað við sameiginlegan bústað, fjárhagslega samstöðu, tímalengd sambúðar, sameiginleg börn og tilkynningu eða skráningu sambúðar.

Í stuttu máli má ganga út frá því að með hugtakinu óvígð sambúð hafi almennt verið átt við sambúð karls og konu sem ættu sameiginlegt heimili án þess að vera í hjúskap og vissa fjárhagslega samstöðu.

Segja má að stefnan hafi verið að setja ekki heildarlög um óvígða sambúð heldur sérstök lagaákvæði á afmörkuðum sviðum þar sem sett eru tiltekin skilyrði fyrir því að aðilar njóti ákveðinna réttinda eða beri vissar skyldur. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum, einkum ef aðilar eiga barn saman.

Rökin fyrir því að ganga ekki lengra í þessum efnum en gert hefur verið eru fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar hefur þótt ástæða til þess að marka hjúskap skýra sérstöðu í lagalegu tilliti og að nokkru hvetja til hjúskaparstofnunar en hjúskapur hefur þótt æskilegt og eftirsóknarvert lífsform. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á að munur á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð sé eðlilegur með tilliti til þess að fólk eigi að hafa raunverulega valkosti um hvernig það vilji haga nánu lífsambandi sínu. Þróunin hefur auk þess verið sú að ýmis réttindi hafa verið tengd skráningu sambúðar. Skráningin hefur því verið nokkuð mikil og stöðug síðasta áratuginn, en var áður minni. Má það rekja til breyttra reglna og að almenningur er nokkuð meðvitaðri um þá réttarstöðu sem fylgir skráningu í sambúð.

Svo að ég víki aftur beint að efni fyrirspurnarinnar er því til að svara að sérstök kynning á þeim lagabálkum sem heyra undir dómsmrn. og varða réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð hafði enn ekki farið fram þegar beiðni var borin fram hér á Alþingi á 126. löggjafarþingi um að dómsmrh. flytti Alþingi skýrslu um réttarstöðu sambúðarfólks. Beiðnin var samþykkt þann 11. okt. 2000 og í framhaldi af því lagði ég fram ítarlega skýrslu um þetta efni á sama þingi.

Eðli málsins samkvæmt er gerður samanburður í skýrslunni á fjölmörgum sviðum sem varða réttarstöðu sambúðarfólks annars vegar og réttarstöðu hjóna hins vegar. Þannig er fjallað um helstu réttarsvið þar sem sérreglur gilda um fólk í hjúskap og gerð grein fyrir því hvort á þeim sviðum hafi verið settar sérstakar reglur sem veiti sambúðarfólki sama rétt eða leggi á sömu skyldur. Í skýrslunni er bæði fjallað um reglur sem eru einkaréttarlegs eðlis en einnig um réttarstöðu sambúðarfólks gagnvart hinu opinbera. Skýrslan er öllum aðgengileg á heimasíðu Alþingis og heimasíðu ráðuneytisins. Starfsmenn ráðuneytisins senda einnig skýrsluna til þeirra sem þess óska og hafa ekki aðgang að vefsíðum.

Þess ber einnig að geta að lögfræðingar í ráðuneytinu veita upplýsingar um réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð þegar eftir því er leitað og er sérstakur símaviðtalstími á hverjum degi til að unnt sé að veita slíkar upplýsingar. Einnig er rétt að benda á að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra munu annast þess háttar upplýsingagjöf.

Ég sé að tími minn er búinn en mun bæta við upplýsingum í seinni ræðu minni. En ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn.