Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:50:50 (4041)

2003-02-19 15:50:50# 128. lþ. 83.9 fundur 562. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það atriði úr þál. sem hv. þm. tiltekur sérstaklega er meðal þess sem þar er nefnt meðal almennra markmiða stjórnvalda. Þessum markmiðum er framfylgt með ýmsum hætti.

Ég nefndi hér áðan mjög ítarlega skýrslu sem ráðuneytið vann og kynnt er á heimasíðu ráðuneytisins. Ég veit ekki hvernig undirbúningi að þessum bæklingi sem hv. þm. nefndi var háttað. Hún vitnaði í svar fyrirrennara míns en ég geri alveg eins ráð fyrir því að þessi skýrsla hafi þótt fela í sér það miklar og aðgengilegar upplýsingar að hún hafi verið talin nægileg kynning. Þá má nefna aftur upplýsingagjöf stjórnvalda svo sem sýslumanna, skattstjóra og annarra sem eiga samskipti við borgarana.

Einnig ber að geta þess að í ráðuneytinu er unnið að gerð upplýsinga og leiðbeininga fyrir fólk um efni sem frv. til nýrra barnalaga tekur til. Það frumvarp er nú til meðferðar í hv. allshn. eins og kunnugt er. En stefnt er að því að þessar upplýsingar og leiðbeiningar verði komnar á heimasíðu ráðuneytisins á hausti komanda.

Ég vil að lokum þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þál. og ég tek undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að kynna réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð á aðgengilegan og einfaldan hátt. Þetta er málefni sem krefst töluverðs undirbúnings og heyrir undir flest ráðuneytin. Ég ítreka að ég tel þess konar kynningu mjög mikilvæga. Ég tel hins vegar að sú skýrsla sem ég benti á að er almenningi mjög aðgengileg feli jafnframt í sér mikilvæga kynningu.