Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:39:51 (4045)

2003-02-26 10:39:51# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var ekki heimiluð utandagskrárumræða vegna þess að hér lágu fyrir fyrirspurnir um málið. En vegna þess að málið er svo grafalvarlegt, og vegna umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið um skort á þjónustu við geðsjúk börn, er full ástæða til þess að við ræðum það aðeins í upphafi þings.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að hæstv. ráðherra hafi verið með tillögur til úrbóta allt síðasta kjörtímabil án þess að nokkuð hafi verið brugðist við vegna ástandsins á barna- og unglingageðdeildinni. Þar eru níu pláss fyrir unglinga og í þessum níu plássum eru yfirleitt 12--14 börn, og það er engin framhaldsmeðferð fyrir þessi börn til staðar. Um þetta hefur verið vitneskja allt kjörtímabilið, frá því að nefnd skilaði tillögum til úrbóta fyrir fjórum árum. Ég verð því að kalla ríkisstjórnina til ábyrgðar á því hvernig ástandið er. Kerfið er gjörsamlega að bregðast geðsjúkum börnum. 40--50 börn bíða eftir þjónustu og þar af eru 10--15 unglingar alvarlega sjúkir, jafnvel í lífshættu, og ekkert minni lífshættu en börn með aðra bráðasjúkdóma.

Ég minni á það að þjónusta við þessi börn hefur verið minnkuð á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar því að sálfræðiþjónustu í skólum var hætt í valdatíð Björns Bjarnasonar, hæstv. fyrrv. menntmrh. Þar er aðeins um greiningu að ræða. Það er einnig ljóst að þótt sjálfræðisaldur hafi verið hækkaður hefur ekki verið brugðist við með aukinni þjónustu.

Foreldrar hafa verið í sambandi við okkur. Þeir eru í miklum vanda. Börnin eru bráðveik heima. Foreldrarnir missa vinnuna og missa ofan af sér húsnæðið. Ég vil, herra forseti, vegna ástandsins sem ríkir í málefnum geðsjúkra barna fara fram á það hér að hv. heilbr.- og trn. komi saman og ræði það ástand sem ríkir í þjónustu við geðsjúk börn (Forseti hringir.) og ég fer fram á að það verði gert sem fyrst.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)