Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:49:55 (4049)

2003-02-26 10:49:55# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:49]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta iðnn. um frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Að áliti meiri hlutans standa, auk þess sem hér stendur, hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Kjartan Ólafsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Ég tel, herra forseti, að iðnn. hafi lagt verulega vinnu í þetta mál enda má segja að málið sjálft og ýmsir angar þess hafi verið til umfjöllunar beint og óbeint í iðnn. um nokkurra ára skeið, eins og kunnugt er. Nefndin sendi að vanda málið til umsagnar til fjölmargra aðila og fékk auk þess marga á sinn fund og er greint frá því í þskj. 985 og tel ég óþarfa að lesa það upp hér en vísa í þingskjalið. Ég vil þó geta þess í upphafi, herra forseti, að það hafa orðið örlítil mistök við frágang á nál. Þar eru tveir gestanna rangfeðraðir. Þar stendur Garðar Kristjánsson frá markaðsskrifstofu iðnrn., Garðar mun vera Ingvarsson. Sama er með þann sem sagður er Þorvaldur Jónsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, hann er Jóhannsson eftir því sem best er vitað og vil ég hér í upphafi koma þeirri leiðréttingu á framfæri.

Nefndin ákvað jafnframt að senda málið til umsagnar hjá tveimur öðrum nefndum þingsins, annars vegar hv. umhvn. til að skoða sérstaklega þá hlið sem lýtur að umhverfisþáttum málsins og fylgir nál. umhvn. sem fylgiskjal. Þá vísaði iðnn. málinu til umsagnar hjá efh.- og viðskn., þ.e. þeim hluta málsins sem snýr að efnahagsáhrifum og hinum skattalegu þáttum frv. og fylgja umsagnir 1. meiri hluta og 1. og 2. minni hluta efh.- og viðskn. sem fylgiskjöl. Vil ég nota þetta tækifæri fyrir hönd iðnn. og þakka þessum tveimur nefndum fyrir vel unnin störf.

Herra forseti. Um hvað snýst þetta mál? Textinn er ekki flókinn en það snýst um að hæstv. iðnrh. fái heimild til samninga við Alcoa um framleiðslu á áli allt að 322.000 tonnum á ári. Samningar við Alcoa, eitt af stærri fyrirtækjum veraldar, sem rekur 29 álver en vinnur þar að auki mikið úr þeirri framleiðslu sem úr álverum kemur, er nokkuð stórtækt á sviði áls til flugvélaframleiðslu, til bílaframleiðslu, vegna umbúða og þar fram eftir götunum, enda er þessi léttmálmur afskaplega eftirsóttur um allan heim í nútímaviðskiptum.

Einnig er rétt að draga það fram, herra forseti, að þetta mál tengist öðru stóru máli sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi en Alþingi þegar afgreitt frá sér, þ.e. lögum um Kárahnjúkavirkjun, enda byggir frv. á samningi Landsvirkjunar við fyrirtækið. Þetta er ekki ýkjalöng saga en óhætt er að segja að mikið hafi gengið á. Ég minni á að upphaflegar hugmyndir um álver við Reyðarfjörð snerust um Fljótsdalsvirkjun þar sem ætlunin var að framleiða orkuna, Fljótsdalsvirkjun þar sem Eyjabakkar tengdust og var hér mikil og hörð umræða á hv. Alþingi. Í þeirri umræðu komu m.a. fram ábendingar um að svæðið við Kárahnjúka væri út frá umhverfissjónarmiði að mörgu leyti heppilegra til raforkuframleiðslu og gæti jafnvel talist hagkvæmara. Nú höfum við einmitt staðið frammi fyrir því og var fallið frá virkjunum við Eyjabakka og lög um Kárahnjúka þegar orðin að veruleika.

Þá er rétt, herra forseti, að minna á að upphaflega kom að þessu máli fyrirtækið Norsk Hydro, sem hafði sýnt mikinn áhuga og hafði verið gerður samningur um viðræðuferli við Norsk Hydro vegna álvers við Reyðarfjörð. Af ýmsum ástæðum óskaði það fyrirtæki eftir því að frestur til ákvarðanatöku yrði framlengdur. Eins og kunnugt er varð að samkomulagi milli stjórnvalda og Norsk Hydro að framlengja ekki þann frest en í kjölfarið kom þetta stóra fyrirtæki, Alcoa, að málinu og má segja að samningar hafi gengið nokkuð hratt og vel fyrir sig, og á grundvelli þess samkomulags byggir síðan þetta frv.

Óhætt er að segja að niðurstaða meiri hluta iðnn. er sú að mæla með samþykkt frv. og veita heimild til hæstv. iðnrh. um að gera samninga við fyrirtækið Alcoa um álverksmiðju við Reyðarfjörð, með örsmáum, smávægilegum brtt. sem raktar eru á þskj. 986, en eru ekki efnislegar, heldur fyrst og fremst spurningar um orðalag, og vísa ég í þskj. 986 hvað það varðar.

Ég vil, herra forseti, vekja athygli á nokkrum atriðum sem fram koma m.a. í nál. meiri hluta iðnn. Í fyrsta lagi vil ég nefna að eins og fram kemur hjá meiri hluta umhvn. var við þetta ferli, sem snýr að álverksmiðju við Reyðarfjörð, farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum, og er það auðvitað grundvallaratriði enda hefur Alþingi sett lög um mat á umhverfisáhrifum sem nokkurs konar verkfæri til þess að beina framkvæmdum á borð við þessa í tiltekinn farveg þar sem umhverfisþættir eru skoðaðir.

Það er líka rétt, herra forseti, í sambandi við þetta að upplýsa að fram kom hjá fulltrúa Umhverfisstofnunar að samhliða umhverfismatinu var unnið að gerð starfsleyfis og farið í vinnu við það. Fram kom hjá fulltrúa Umhverfisstofnunar að í rauninni væri ekkert í lögum sem kæmi í veg fyrir að starfsleyfi væri veitt. Einnig er rétt að draga fram í þessu sambandi að Alcoa mun notast við dálítið aðra tækni en upphaflega stóð til meðan Norsk Hydro var inni í myndinni og má segja að út frá umhverfissjónarmiðum séu þau atriði til bóta. Ég vil þar sérstaklega nefna að fallið er frá urðun kerbrota, enda verða þau flutt úr landi, rafskautaverksmiðja mun ekki rísa, fyrirtækið mun flytja inn sín eigin rafskaut, og síðast en ekki síst er fallið frá svo kallaðri vothreinsum, þ.e. að beina útblæstrinum til sjávar, enda sú aðferð óvíða notuð annars staðar en í Noregi. Fram kom hjá fulltrúa Umhverfisstofnunar að með því að beina útblæstri í sjó í gegnum svokallaðan vothreinsibúnað sé hætta á að svokölluð PAH-efni safnist saman á of afmörkuðum stað og fari yfir eðlileg mörk og skapi hættu, verulega hættu, en með þeirri aðferð sem m.a. byggir á tveimur risastórum reykháfum dreifist útblásturinn og eru minni líkur á að hann fari yfir hættumörk. Þá kom einnig fram að í starfsleyfinu er gert ráð fyrir vöktun á umhverfisþáttum og heimild til þess að grípa inn í ef útblástur fer yfir tiltekin mörk.

Í annan stað er hjá efh.- og viðskn. fjallað sérstaklega mikið um hugsanlegar aðgerðir gegn þenslu í efnahagslífinu þegar framkvæmdir verða í hámarki, og kom það auðvitað til umræðu í iðnn. einnig. Árin 2005 og 2006 er talið að framkvæmdatíminn vegna virkjunar við Kárahnjúka og álverksmiðju í Reyðarfirði nái hámarki og er rétt að draga það fram hér að þegar báðar þessar framkvæmdir eru lagðar saman er verið að ræða um fjárfestingu upp á u.þ.b. 165 milljarða kr. á nokkrum árum. Auðvitað mun það hafa veruleg áhrif og umræður urðu verulegar um það í efh.- og viðskn. og iðnn. og hafa orðið svo sem hér á Alþingi og í fjölmiðlum um viðbrögð við þeim efnahagsáhrifum sem hin mikla fjárfesting kann að hafa.

[11:00]

Þó að hér kunni að vera um eina mestu fjárfestingu í sögu þjóðarinnar að ræða þá er rétt að minna á að fjárfestingin sem hlutfall af landsframleiðslu er samt ekki miklu meiri en var á sjötta áratugnum þegar fjárfest var í Búrfellsvirkjun og álver í Straumsvík reis. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu er þessi fjárfesting í raun ekki miklu meiri og segir það auðvitað til um hversu mikil framþróun hefur orðið í íslensku efnahagslífi á tiltölulega skömmum tíma.

Það er mat nefndarinnar, þ.e. meiri hluti iðnn. tekur undir það mat meiri hluta efh.- og viðskn., að stjórnvöld, fjármálastofnanir og sveitarfélög þurfi að vera mjög á varðbergi hvað varðar hugsanleg þensluáhrif þegar framkvæmdirnar rísa sem hæst. Má í því sambandi benda á aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú nýlega þar sem verið er að færa til verkefni af samgönguáætlun einmitt til þess að draga úr opinberum framkvæmdum á tímabilinu 2005--2006 þegar framkvæmdir munu verða í hámarki. Hins vegar er eðlilegt og rétt að árétta það að í dag er auðvitað ekkert vitað hver staða efnahagslífsins verður 2005--2006. Við vitum ekki hvernig staða fiskstofna verður á þeim tíma. Við vitum ekki hvernig staðan í ferðaþjónustunni verður á þeim tíma og öðrum þeim greinum sem atvinnulíf okkar byggir á. Því er eðlilegra að bregðast við þegar á reynir og þegar vitað er nákvæmlega hver staðan í efnahagslífinu verður á þessu tímabili, 2005--2006, enda hefur það komið fram m.a. hjá hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. að það sé skylda ríkisstjórnar að fylgjast með því enda getur enginn sagt um það í dag hver staða efnahagslífsins verður eftir þrjú, fjögur, fimm ár.

Herra forseti. Í annan stað vil ég nefna að í iðnn. kom fram það álit í umræðum nefndarinnar og kemur það fram í áliti meiri hlutans að nefndin hvetur þá sem að verkinu standa til þess að skipuleggja vel hinn félagslega þátt við uppbyggingu álversins og auðvitað í tengslum við virkjunina líka. Ekki síst var verið að horfa á álverið sem mun væntanlega skapa hundruðum einstaklinga störf til lengri tíma. Því er það dálítið spennandi verkefni að skipuleggja hinn félagslega þátt, ekki síst með hliðsjón af búsetu og út frá kyni. Nú hefur komið fram að í álverum víðast um heim vinna ekki síður konur en karlar. En einhverra hluta vegna hefur það gengið verr í þeim tveimur álverum sem starfandi eru á Íslandi að laða kvenfólk til starfanna þrátt fyrir yfirlýstan vilja forsvarsmanna þessara fyrirtækja. Nægir þar m.a. að nefna Rannveigu Rist, konuna í forstjórastóli Alcan, sem hefur haldið þessu sjónarmiði vel á lofti.

Gera má ráð fyrir því að starfsmenn þessa fyrirtækis búi í sveitarfélögum sem ná yfir nokkuð stórt svæði og var nokkur umræða um það í nefndinni að það gæti einmitt verið ögrandi og skemmtilegt verkefni í byrjun, strax frá upphafi, að skipuleggja vaktir og annað með hliðsjón af þessum þáttum.

Nokkuð var fjallað um hina skattalegu stöðu fyrirtækisins og kemur það fram bæði í áliti meiri hluta og 1. minni hluta að í svona grófum dráttum má segja, eins og kemur m.a. fram í ágætu yfirliti í einu fylgiskjalanna, að skattalegt umhverfi Norðuráls annars vegar og álverksmiðju í Reyðarfirði hins vegar er mjög sambærilegt. Það skeikar í einhverjum atriðum til eða frá en í það heila tekið má segja að þau undanþáguákvæði sem veitt eru þessum tveimur fyrirtækjum séu mjög sambærileg. Ef hins vegar litið er á sambærilega þætti hvað varðar Alcan þá eru þeir samningar byggðir upp allt öðruvísi og má um sumt segja að Alcan gjaldi fyrir það að hafa verið fyrstir á vettvang fyrir nokkrum áratugum. Samningar milli stjórnvalda og Alcan og sveitarfélaga byggja á svokölluðu framleiðslugjaldi og rennur hluti þess til sveitarfélaga, til ríkis og þar fram eftir götunum á meðan samningarnir við Norðurál og Alcoa eru byggðir upp með allt öðrum hætti. Það kemur fram í nál. meiri hluta og 1. minni hluta iðnn. --- væntanlega munu talsmenn 1. minni hluta gera grein fyrir sínum sjónarmiðum --- en talsmenn meiri hluta iðnn. leggja áherslu á að stjórnvöld gangi sem fyrst til þess verks að skapa sambærileg skilyrði fyrir þau fyrirtæki sem vinna á sambærilegu sviði, þ.e. nú stefnir í að þriðja álverksmiðjan rísi hér en hins vegar eru samningar við þessi fyrirtæki ólíkir og meiri hlutinn telur mjög eðlilegt að gengið verði til samninga við Norðurál og Alcan og reynt að skapa sem líkast umhverfi fyrir þessi sambærilegu fyrirtæki og hvetur meiri hlutinn til þess að svo verði gert sem fyrst.

Þá er vakin athygli á því að hér kann að vera mjög spennandi tækifæri fyrir félagsfræðinga og stjórnmálamenn framtíðarinnar til að fylgjast með þeim áhrifum sem jafnstór fjárfesting og jafnstórt fyrirtæki og raun ber vitni hefur á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það er mikið tækifæri að fylgjast með þeirri þróun, hinum félagslegu áhrifum og kannski efnahagslegu áhrifum af þessu fyrirtæki strax frá upphafi og hvetur meiri hlutinn til þess að slíkt verði gert og tekur með því undir sjónarmið sem fram koma í þáltill. þar að lútandi sem nokkrir þingmenn flytja en 1. flm. hennar er hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir.

Herra forseti. Segja má að vissulega séu færðar fórnir með þessum gjörningi, þ.e. álverksmiðju við Reyðarfjörð og síðan orkuframleiðslu í tengslum við hana. Óhjákvæmilega fylgir röskun á umhverfi eins og við öll önnur mannanna verk. Hvar sem mannskepnan kemur sér fyrir og vill skapa sér tilverugrundvöll fylgir röskun á náttúru. Ekki þarf annað en horfa á svæðið í kringum höfuðborgina, vegi, hús, bryggjur, flugvelli og öll önnur mannanna verk. Hins vegar er rétt að hafa í huga að þó að hér sé um ákveðna umhverfisröskun að ræða þá er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að hér er verið að tala um að framleiða ál sem byggir á raforkuframleiðslu með vistvænum orkugjöfum. Þeir eru afskaplega verðmætir. Benda má á að meiri hluti álvera í heiminum framleiðir ál með rafmagni sem er gert með kolum og olíu. Útblástur frá slíkum raforkuverum og slíkri rafmagnsframleiðslu er 8--15 sinnum meiri en af því rafmagni sem framleitt er með okkar vistvænu orkugjöfum. Þó það hafi vissulega komið fram hjá vissum aðilum þá er einfaldlega ekki rétt að líta fram hjá þeim hluta því á umhverfismál þarf að horfa hnattrænt. Það er alveg ljóst, herra forseti, að ef heimsmarkaðurinn þarf á áli að halda þá munu álverksmiðjur rísa einhvers staðar í heiminum. Þess vegna er afskaplega mikilvægt í því skyni að nýta þá vistvænu orkugjafa sem við Íslendingar til allrar hamingju erum nokkuð auðug af. Það er ein af okkar sterku auðlindum. Ég vil leyfa mér að halda því blákalt fram að þetta sé jákvætt framlag Íslendinga hvað varðar útblástur á heimsvísu þó að vissulega valdi það einhverri staðbundinni aukningu hér. Verður fróðlegt að sjá skriflegt svar við fyrirspurn frá hv. þm. Pétri Blöndal sem hefur einmitt lagt fram fyrirspurn um samanburð á raforkuframleiðslu annars vegar með vatni og jarðgufu og hins vegar kolum og olíu, en munurinn mun vera á bilinu 8--15 faldur.

Það er mikilvægt að hugleiða hvers vegna verið er að flytja frv. á borð við þetta, hvers vegna menn taka pólitískan slag um mál á borð við þetta. Að mínu mati, herra forseti, lýtur það að atvinnustefnu, spurningunni um að halda hér uppi atvinnustefnu. Það lýtur að verðmætasköpun. Það lýtur að því að treysta stoðir velferðarkerfisins og það snýr að því að þjóðir hafi sjálfsákvörðunarrétt til að nýta auðlindir sínar skynsamlega. Má þar minna á, og væri svo sem ekki vanþörf á því, að nú um þessar mundir er atvinnuleysi meira en verið hefur í langan tíma. Á sumum svæðum, m.a. á Suðurnesjum, er atvinnuleysið komið í kringum 5% og veldur það auðvitað miklum áhyggjum. Vissulega hefur margt verið reynt á síðustu árum til þess að auka fjölbreytileika í atvinnulífi okkar og margt verið gert til að draga úr atvinnuleysi. Ég hygg hins vegar að menn muni eftir því að þegar hjól atvinnulífsins fóru að snúast hressilega aftur eftir hina miklu kyrrstöðu í lok níunda áratugarins og ég hygg að það hagvaxtarskeið sem við upplifum núna muni verða kennt við þá ákvörðun að stækka álverið í Straumsvík. Þar með fóru hjól atvinnulífsins að snúast aftur vegna þess að þá var m.a. staðið að erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu og skilaboðin --- í kjölfarið fylgdi mikil bjartsýni í íslensku atvinnu- og efnahagslífi sem skiptir gífurlega miklu máli.

Fjölmargt annað hefur verið reynt víða um land, eiginlega um allt land má segja. Sums staðar hafa menn náð árangri. Ferðaþjónustan heldur áfram að vaxa og dafna en því miður er ástand ferðaþjónustunnar slíkt að fæst fyrirtæki þar eru rekin með hagnaði. Flest fyrirtæki í ferðaþjónustu standa á brauðfótum m.a. vegna þess að ferðatíminn er svo skammur. Við erum að tala um að meginferðamannatíminn á Íslandi sé þrír til fjórir mánuðir. Vissulega skiptir ferðaþjónustan miklu máli í gjaldeyrisöflun okkar Íslendinga. Við höfum náð ágætum árangri í lyfjaiðnaði. Við höfum náð ágætum árangri í kvikmyndum og þannig má áfram halda. En það breytir ekki þeirri staðreynd að atvinnuleysi fer vaxandi og talið er að skapa þurfi u.þ.b. 1.500 ný störf á hverju ári til þess að sporna við því að hér myndist atvinnuleysi.

Þrátt fyrir góðan vilja og aðgerðir til þess að ná slíkum atvinnutækifærum með ýmsum öðrum hætti hefur það ekki tekist. Þess vegna hljóta menn að fagna því að skapa atvinnu, fjölbreytilega atvinnu þar sem krafist er fyrst og fremst menntaðs fólks, háskólamenntaðs fólk, fólks með tæknimenntun, í þau 500 störf sem verða beinlínis til í álverinu og vissulega er ánægjulegt að sjá hvernig skólar bæði fyrir austan og norður á Akureyri hafa brugðist við til þess að stuðla að menntun og skapa námsbrautir fyrir fólk sem vill vinna þarna.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á að reynslan bæði frá Norðuráli og álverinu í Straumsvík er sú að í hvert skipti sem laust starf er auglýst til umsóknar sækja hundruð einstaklinga um og hvergi í nokkrum fyrirtækjum er starfsaldur jafnhár og í álverunum, enda greiða þau tiltölulega há laun, jafnvel hærri en gengur og gerist á hinum almenna markaði. Þau eru með öðrum orðum eftirsóttir vinnustaðir fyrir fólk með fjölbreytilega menntun og greiða tiltölulega há laun. Það er gífurlega mikið atriði að skapa hér verðmæti og tækifæri fyrir vinnufúsar hendur.

[11:15]

Herra forseti. Ég hef nefnt 500 bein störf. Þá eru ónefnd margfeldisáhrif sem fylgja alltaf verksmiðjum á borð við álver. Starfsemin í álveri er fjölbreytileg en ég held að það sé líka rétt að draga fram margfeldisáhrifin, ýmiss konar þjónustu, beina og óbeina þjónustu sem fylgir starfsemi í álveri. Þar þarf í rauninni ekki annað en að benda á reynsluna sem Hafnfirðingar og nágrannar Hafnfirðinga hafa af álverinu við Straumsvík. Ég vil draga fram ágætt yfirlit sem Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, veitti iðnn. þegar hún heimsótti fyrirtækin á Grundartanga. Bæjarstjórinn lýsti þar áhrifunum sem stóriðja á Grundartanga hefur haft á Akranes og nágrannabyggðir. Það var ákveðin niðursveifla í atvinnulífi á Akranesi, lítið að gerast og vonleysi, en þar hefur orðið algjör umsnúningur eftir að stóriðja var byggð á Akranesi. Það felst ekki aðeins í beinum störfum fólks sem þar vinnur heldur alls konar þjónustu í kringum álverið.

Þá eru ónefnd margfeldisáhrif þeirra aðila sem sækja fram í skjóli álversins ef svo má segja. Ég vil nefna fyrirtæki og framtak manna eins og Jóns Hjaltalíns Magnússonar sem selur hugbúnað og róbóta, hugbúnað í slíka róbóta í álver um allan heim. Mörg sambærileg fyrirtæki má nefna sem hafa orðið til í samstarfi við álverin og vegna þess að álverin eru hér. Þau hafa skapað vel menntuðu fólki sóknarfæri sem það hefur nýtt sér. Það verður auðvitað seint metið til fulls.

Ég tel mikilvægt að benda á, herra forseti, að verði álver reist við Reyðarfjörð, sem allt stefnir í, mun álframleiðsla aukast allverulega hér og kunna að skapast skilyrði þess að við getum farið að hasla okkur völl við úrvinnslu á áli, sem ekki hefur verið nema í óverulegum mæli hér á landi. Magnið sem hér er framleitt hefur verið það lítið að það hefur ekki verið talið svara kostnaði að hefja úrvinnslu þess. (Gripið fram í.) --- Hv. þm. fær tækifæri til þess að tjá sig á eftir. --- Það eru miklir möguleikar í að vinna úr áli í stað þess að senda það sem óunna afurð úr landi.

Ég hygg að með álveri við Reyðarfjörð kunni að skapast sambærileg skilyrði og við höfum byggt upp í sjávarútvegi. Við erum annars vegar að tala um veiðar, sem auðvitað skapa hráefni. Lengi vel vorum við mikil hráefnisþjóð en lítil úrvinnsluþjóð í fiskvinnslunni. En þær forsendur hafa breyst og þannig höfum við skapað verðmæti í sjávarútvegi okkar. Ég hygg að með álveri við Reyðarfjörð geti skapast einmitt þessar forsendur að úrvinnsluiðnaður í áli, hvort heldur er að framleiða hér hluta í bíla, hluta í flugvélar, framleiða á umbúðamarkaðinn eða hvað það nú heitir. Þær forsendur kunna að skapast. Það krefst enn frekari tæknikunnáttu, enn frekari orku og enn frekari mannafla. Það gæti skapað enn frekari verðmæti fyrir okkar ágætu þjóð.

Það var gleðilegt að heyra í fréttum frá því í fyrradag hvernig margfeldiáhrifin eru þegar farin að koma fram. Flugfélag Íslands hefur ákveðið að ráða fimm nýja flugmenn á sínar leiðir, fyrst og fremst vegna áhrifanna frá væntanlegu álveri og framkvæmdum við Kárahnjúka á leiðinni á Egilsstaði og Akureyri. Þar sjáum við hvernig margfeldisáhrifin eru þegar farin að gera vart við sig. Þau ná ekki einungis yfir Austurland heldur teygja sig yfir á Norðurlandið einnig. Við erum rétt að sjá byrjunina á því.

Herra forseti. Verði þessar framkvæmdir að veruleika mun hlutfall sjávarútvegs í íslensku efnahagslífi í fyrsta sinn fara niður fyrir 50%, og þar með má segja að skapast hafi forsendur fyrir enn frekari stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Vitað er að fiskstofnar sveiflast af ýmsum ástæðum upp og niður og þannig hefur efnahagslíf okkar farið í ... (Gripið fram í.) Já, eins og fylgi stjórnmálaflokka, segir formaður ónefnds stjórnmálaflokks. Efnahagslíf okkar hefur auðvitað fylgt þeim sveiflum og því meira sem við erum háðari fiskveiðum. En ef hlutfall sjávarútvegs fer niður fyrir 50% segir sig sjálft að við höfum fjölgað eggjunum í efnahagskörfu okkar. Forsendur fyrir enn frekari stöðugleika eiga að hafa skapast. Ekki þarf að fara mörgum orðum um gildi þess að hafa stöðugleika í efnahagslífi okkar. Það hefur áhrif á vexti og allan efnahag okkar.

Í raun lýsir þetta sér í þeirri spá að með framleiðslu Alcoa í álverksmiðju í Reyðarfirði eigi landsframleiðsla að aukast um allt einu prósenti. Fleiri orð þarf í rauninni ekki að hafa um það. Það að auka landsframleiðslu um 1% er náttúrlega gífurlegur árangur og segir að við erum að stækka þjóðarkökuna sem því nemur, eða um 40 milljarða kr. árlega í útflutningsverðmætum. Þar með er auðvitað verið að leggja grunninn að velferðarkerfinu til framtíðar. Með því kunnum við einmitt að vera að skapa grunn að frekari skattalækkunum en umfram allt betri kjörum fyrir íslenskt efnahagslíf og fyrir íslenska þjóð. Það er væntanlega á þeim forsendum, herra forseti, sem fram kemur í umsögn og fram kom í heimsóknum til iðnn. að fulltrúar atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og fleiri slíkra aðila eindreginn stuðningur við að þetta frv. verði gert að lögum. Hvers vegna skyldi það vera? Það er jú vegna þess að menn hvetja til að auka verðmæti í íslensku efnahagslífi, hvetja til að við fjölgum atvinnutækifærum hér á Íslandi og þess vegna sýna Samtök atvinnulífsins mikinn stuðning við að frv. þetta verði að lögum.

Gleðin hefur þó líklega hvergi komið jafn vel fram og í viðbrögðum Austfirðinga þegar samningar náðust við Alcoa. Það var innileg og sannkölluð gleði sem hefur væntanlega eitthvað smitast yfir á suðvesturhornið, gleði yfir tækifærum til að fá vinnu, skapa verðmæti og byggja upp blómlegt mannlíf fyrir austan (Gripið fram í.) en þjóðin nýtur góðs af og hlýtur að gleðjast (Gripið fram í.) með því.

Herra forseti. Nú hefur hv. og virðulegur formaður Vinstri grænna gengið í salinn og þráir eflaust að komast að. Ég held að ég láti þetta duga og ítreka það að að nál. meiri hluta iðnn. standa Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Kjartan Ólafsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.