Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:31:41 (4054)

2003-02-26 11:31:41# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kemur í því lagafrv. sem hér er til umræðu, heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, er Kárahnjúkavirkjun forsenda fyrir álverinu. Kárahnjúkavirkjun er nefnd í lagatextanum og er grundvallarforsenda fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið. Þess vegna er auðvitað ekki hægt að gera neinar athugasemdir við það að rætt sé um þau náttúruspjöll í heild sem fylgja þessum framkvæmdum.

Ég kem í andsvar við hv. formann iðnn. vegna þess að ég þarf að leiðrétta ákveðna hluti sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það að hér sé um eitthvert meirihlutaálit frá umhvn. að ræða. Það er ekkert meirihlutaálit frá umhvn. vegna þess að það var ekki nægur meiri hluti á fundi umhvn. sem afgreiddi málið til að það gæti myndast meiri hluti. Þar voru aðeins tveir stjórnarþingmenn viðstaddir þannig að það er rangt hjá hv. þingmanni að hér sé um að ræða meirihlutaálit frá umhvn. enda mál lesa í þinggögnum að umsögnin sem barst frá umhvn. var í fyrsta lagi frá 1. minni hluta og í öðru lagi frá 2. minni hluta umhvn.

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. formann iðnn.: Hvers vegna var spurningin sem lögð var fyrir umhvn. Alþingis jafnþröng og raun bar vitni? Hvers vegna var umhvn. þingsins í þessu máli eingöngu gert að svara því hvort farið hefði verið að lögum við mat á umhverfisáhrifum? Hvers vegna var umhvn. ekki falið að líta heildstætt á umhverfisþáttinn eins og látið er í veðri vaka í nál. hv. iðnn. sem segir raunar beinum orðum að það hafi verið fjallað um umhverfisþáttinn í umhvn.? Herra forseti. Það var ekki gert. Ástæðan var sú að iðnn. bað umhvn. ekki um að líta á neitt annað en það hvort farið hefði verið að lögum við afgreiðslu málsins.