Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:36:06 (4056)

2003-02-26 11:36:06# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þurfti ekki að vita meira. Er hann með þeim orðum að segja að meðferð Skipulagsstofnunar sé undirorpin einhverjum vafa? Þarf hv. þm. að fá heila þingnefnd til þess að segja sér að Skipulagsstofnun fari að lögum? Og má ég benda hv. þm. á að Skipulagsstofnun mat Kárahnjúkavirkjun ótæka út frá umhverfisforsendum. Má ég minna hv. þm. á að það var pólitískt handafl Framsfl. sem sneri þeim úrskurði við og ég get þess vegna fullyrt að það hafi ekki verið farið að lögum. Nú hefur úrskurður Skipulagsstofnunar um álverið verið kærður. Það þýðir að umhverfismatsferli álversins stendur enn þá yfir, því er ekki lokið og sannleikurinn er sá að Umhverfisstofnun var ekki heimilt samkvæmt reglugerðum að auglýsa starfsleyfið opið til umsagnar fyrr en eftir að umhverfismatsferli álversins væri lokið. Umhverfismatinu er ekki lokið. Það er búið að auglýsa starfsleyfi í heimildarleysi þannig að ég fullyrði það hér við hv. þm. að ekki hefur verið farið að lögum.