Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:38:41 (4058)

2003-02-26 11:38:41# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:38]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Framsöguræða hv. formanns iðnn. var um margt áhugaverð. Ekki þarf að taka fram að við höfum mjög svo ólíka sýn til framtíðar varðandi möguleika okkar til atvinnuuppbyggingar hér á landi, mjög svo ólíka. Við höfum mismunandi fyrirmyndir og ég vil taka þær þjóðir til fyrirmyndar sem vilja byggja á fjölbreytni og hugkvæmni, leggja stóriðjudraumana til hliðar og efla annað.

Ég óska eftir því við hv. þm. að hann rökstyðji frekar það sem hann sagði hér um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á umhverfið, að auðvitað hafi virkjunin einhver áhrif á umhverfið, eins og öll mannanna verk. Þar nefndi hann sem dæmi mannanna verk í kringum höfuðborgarsvæðið, byggingar, brýr og vegi. Ég vil spyrja hv. þm. og biðja hann um að rökstyðja það frekar hvort honum þyki það sem hann nefndi hér sem rök sambærilegt við þessa stóru og miklu framkvæmd sem hefur óafturkræf áhrif á náttúruna. Ef við förum í þetta verður ekki aftur snúið, við getum ekki þurrkað þetta út.

Ég vil biðja hann að rökstyðja líka hvort honum þyki það sambærilegt að bera saman jákvæð áhrif álveranna á Grundartanga og áhrif upp á Akranes og eins hvað varðar áhrif álversins í Straumsvík á íbúaþróun í Hafnarfirði, hvort honum þyki það sambærilegt að bera saman þessi atvinnusvæði sem eru þetta fjölmenn, þetta sterk með þetta mikla flóru í atvinnulífinu sem að mínu mati hefur miklu meiri möguleika til þess að standast ruðningsáhrif virkjunar.