Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:41:03 (4059)

2003-02-26 11:41:03# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:41]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski erfitt að rökstyðja tilfinningar. Tilfinningar eru tilfinningar og þegar við erum að fjalla um umhverfismál og rask á náttúru erum við auðvitað að fjalla um tilfinningar. Ekki eitt augnablik efa ég það að hver einasti þingmaður elskar og dáir náttúruna. Það er samt erfitt að bera saman, er skaðinn meiri hér fyrir sunnan eða fyrir austan? Ég hygg að þegar Ingólfur Arnarson kom hér hafi litið öðruvísi út á höfuðborgarsvæðinu í dag en þegar Ingólfur og þrælar hans fundu súlurnar. (Gripið fram í.) Það hefur mikið breyst hér. Hér hefur mikið land verið eyðilagt. Land hefur verið lagt undir vegi, ár brúaðar, flugvellir lagðir, hús byggð o.s.frv. Þetta er bara óhjákvæmilegt þar sem maðurinn ætlar sér að lifa og lifa eftir nokkuð háum kröfum um lífsstandard eins og við Íslendingar gerum. Til þess neyðumst við til að brjóta undir okkur land, illu heilli.

Það væri auðvitað miklu fallegri sýn að geta verið með algjörlega ósnortið Ísland en ég er hræddur um að velferðarstig okkar væri ekki jafnhátt. Ég er hræddur um að atvinnustig okkar væri ekki jafnhátt. Hvers vegna ætli það séu svona margir íbúar í kringum álverin á Grundartanga og í Hafnarfirði? Það er kannski m.a. vegna þess að þar er atvinna.

Og um ruðningsáhrif, það má mikið deila um þau. En hvaða störf ætli fari fyrst? Ætli það séu ekki veikustu störfin þar sem launin eru lægst --- og hvað kemur í staðinn? Hærri laun fyrir vinnufúsar hendur.