Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:43:02 (4060)

2003-02-26 11:43:02# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Vissulega eru heitar og miklar tilfinningar í þessu máli. Þó það nú væri. Við stöndum frammi fyrir og erum núna að afgreiða mál sem mun skipta okkur öll máli til allrar framtíðar. Við erum að eyðileggja til framtíðar verðmætt land, land sem er einstætt á jörðinni og okkur ber að virða.

Mér þóttu svörin vera mjög þunn. Það er ekki hægt að bera saman þau mannanna verk sem er hægt að þurrka út eins og við gætum núna með því að leggja niður Sogsvirkjun. Við höfum betri þekkingu á náttúru landsins en er við stóðum að eyðileggingu lífríkisins í Þingvallavatni á sínum tíma. Við vissum ekki betur á þeim tíma. Við vitum betur í dag og við eigum ekki að ana svona fram með framkvæmdir sem við vitum að eru óafturkræfar.