Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:44:15 (4061)

2003-02-26 11:44:15# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:44]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að segja frekar um tilfinningar og virðingu fyrir íslenskri náttúru. Ég mótmæli því að það sé eitthvert einkamál vinstri grænna. Ég tel sjálfan mig eins og alla aðra þingmenn, og hef áður sagt það, bera mikla virðingu fyrir íslenskri náttúru. En við berum líka virðingu fyrir íslenskri þjóð og því fólki sem hér býr. Það er óhjákvæmilegt að við þurfum að skaða náttúruna, illu heilli, af því að við gerum kröfur um atvinnu og hátt velferðarferðarstig.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. að umhverfisskaðinn hér sunnan lands og í kringum höfuðborgina sé óafturkræfur. Það sem við höfum lagt undir öll mannanna verk á einu stykki höfuðborgarsvæði er ekkert smáflæmi. Það er sama hversu margar jarðýtur færu á öll þau mannvirki, við náum aldrei að byggja það upp eins og það var, en við höfum orðið sammála um það sem þjóð af því að það er óhjákvæmilegt. Einhvers staðar þurfa vondir að vera, einhvers staðar þarf fólkið að búa.