Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 12:22:28 (4063)

2003-02-26 12:22:28# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[12:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér umdeildustu stóriðjuáform Íslandssögunnar. Þau eru umdeild vegna hinna gríðarlegu náttúruspjalla sem þessar framkvæmdir kæmu til með að valda ef af yrði. Einnig eru þau efnahagslegu áhrif sem framkvæmdirnar kynnu að leiða af sér mjög umdeild.

Samfylkingin styður stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, þessi stóriðjuáform á Austurlandi, en rökstuðningurinn kemur mér nokkuð á óvart. Hér segir í nál., með leyfi forseta:

,,Til að glöggva sig á áhrifum álversframkvæmdanna sérstaklega og af starfrækslu álversins í framtíðinni hafa verið samdar nokkrar skýrslur sem hafa verið hluti af mati á umhverfisáhrifum, bæði um áhrif á umhverfi og hugsanleg samfélagsleg áhrif og síðan einnig um efnahagsleg áhrif, bæði til skemmri og lengri tíma. Í ljósi niðurstaðna þeirra styður Samfylkingin þessar framkvæmdir.``

Nú er það svo að fjöldinn allur af skýrslum hefur verið gerður um þessar framkvæmdir, bæði með og á móti. Sumir hafa ekki látið sitja við það eitt að semja skýrslur heldur efnt til funda, mótmæla og varðstöðu í þágu náttúrunnar, m.a. hér á Austurvelli. Í dag var fjöldi fólks á Austurvelli til að mótmæla stefnu ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar í þessum málum. Einnig hafa hagfræðingar, sérfróðir menn og leikmenn, skrifað skýrslur og sent greinar í blöð þar sem dregið hefur verið í efa hve hagstæð þessi framkvæmd yrði fyrir þjóðarbúið. Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hafa þingmenn Samfylkingarinnar ekki gaumgæft þau gagnrýnu viðhorf sem fram hafa komið hjá hagfræðingum sem hafa gagnrýnt þessi áform, þá sérstaklega, svo að ég þrengi spurninguna, þær ábendingar hagfræðinga um að þetta muni draga úr stöðugleika í efnahagslífinu þegar til lengri tíma er litið?