Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 12:24:54 (4064)

2003-02-26 12:24:54# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[12:24]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þegar um er að ræða umdeild mál eins og þetta --- sem ég vil þó ekki taka undir með hv. þingmanni að sé umdeildasta mál sem komið hafi upp, ég man ekki hvort hann sagði Íslandssögunnar en því fór nærri --- er ekki einfalt fyrir stjórnandstöðuflokk að hoppa á vagninn með ríkisstjórninni. Það er miklu einfaldara að vera á móti. Það er auðvitað valkostur, að vera bara á móti. Það varð hins vegar niðurstaða okkar að ábyrgur stjórnmálaflokkur yrði að setjast yfir mál, gaumgæfa öll rök og upplýsingar, lesa þær skýrslur sem liggja fyrir og hlusta á mál manna, hvort sem þeir eru með eða á móti. Þetta gerðum við. Þetta gerðum við og heildarniðurstaða okkar varð sú að við styðjum málið.

Það er ekki auðvelt fyrir alla. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það er ekki fullkominn einhugur í okkar liði, það liggur líka alveg fyrir. En þetta er niðurstaða Samfylkingarinnar þótt frá henni kunni að vera frávik meðal einstakra flokksmanna eða þingmanna.

Hér er talað um umhverfisáhrif, efnahagsáhrif og samfélagsleg áhrif. Auðvitað er það svo þegar fjöldi sérfræðinga kemur að málum og er kallaður að málum að fram koma mismunandi sjóanrmið og niðurstöður. Menn gefa sér einfaldlega mismunandi forsendur fyrir mat sitt eða útreikninga. Þetta verðum við líka að hafa bak við eyrað þegar við lesum pappíra. Við verðum að skoða út frá hvaða forsendum menn hafa gengið, hver hin efnislegu rök eru og hvaða rannsóknir liggja að baki.

Niðurstaðan varð sem sagt þessi, herra forseti, við styðjum þetta mál eins og fram kom í framsögu minni áðan.