Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:08:53 (4070)

2003-02-26 14:08:53# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Frá því er skemmst að segja að ég tel að þau sjónarmið séu virðingarverð og ég tel að þau eigi rétt á sér. Þau voru umfjöllunarefni þriðjungs ræðu minnar. Þriðjungur af ræðu minni fjallaði um að ákveðin hætta væri á því að skammtímaáhrif þessara framkvæmda yrðu með þeim hætti að störfum og fyrirtækjum með minni framleiðni yrði rutt úr vegi. Ég gat þess sérstaklega að ég teldi að ef það gerðist of hratt og þær afleiðingar yrðu of djúpar mundi það hafa slæm áhrif sérstaklega á landsbyggðina.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar ef maður skoðar sögu síðustu ára, sjáum stækkunina á Grundartanga, stækkun Ísals, þá sjáum við að framkvæmdir af þessu tagi verka sem eins konar dráttarkláfar á efnahagslífið allt. Og þó ég skilji áhyggjur hv. þm. þá er ég þeirrar skoðunar að bjartsýnin og verðmætin sem verða til í kjölfar þessa muni vega upp á móti þeim áhrifum sem hann er að tala um, en ég skil áhyggjur hans.