Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:10:01 (4071)

2003-02-26 14:10:01# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Bjartsýni þarf að byggjast á raunsæi. Það er ekki um það að tefla að mínum dómi að fyrirtækjum með minni framleiðni verði rutt úr vegi. Hættan er sú að fyrirtækjum og efnahagsstarfsemi með meiri framleiðni verði rutt úr vegi vegna stuðnings og niðurgreiðslna ríkisvaldsins við þessar stóriðjuframkvæmdir.

En það sem þeir segja í fyrrnefndri grein, efnahagssérfræðingarnir, hagfræðingarnir, um þetta aukna vægi álframleiðslunnar í efnahagsstarfseminni, og hér vitna ég orðrétt, með leyfi herra forseta:

,,Sú spurning blasir því við hvort Íslendingar séu að endurtaka leik fortíðar með því að leggja of mikið undir á eina atvinnugrein. Þetta er áhættan við álið.``

Hér eru menn ekki að tala um skammtímaáhrif heldur langtímaáhrif á efnahagslíf Íslendinga og það er varað við því.