Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:10:54 (4072)

2003-02-26 14:10:54# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var líka í ræðu minni að vara við því. Ég talaði um nauðsyn þess að grípa til réttra mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég er að vísu ekki alveg sammála því sjónarmiði sem þarna kemur fram. Hv. þm. má ekki gleyma því að við fengum til okkar í efh.- og viðskn. ýmsa sérfræðinga sem voru allt annarrar skoðunar. Ég virði samt þessi sjónarmið og ég geri mér grein fyrir því að þetta er ákveðin hætta. Það þarf að bregðast við henni.

Ég rakti hér nokkur dæmi um hugsanleg viðbrögð. Það sem við þurfum auðvitað að forðast eru í fyrsta lagi þær skammtímabreytingar sem kunna að verða vegna of hás gengis og væntanlega of hárra vaxta í kjölfarið. En það sem hv. þm. er að tala um er að grunngerð atvinnulífsins breytist í reynd.

Nú verð ég að segja hv. þm. það að ég er ekki á móti því t.d. að hlutfall sjávarútvegs í útflutningi minnki ef það gerist með þeim hætti að hlutfall stóriðju aukist. En ég tel að í kjölfarið muni margvíslegur smágróður spretta ef við pössum upp á gengi og vexti.