Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:14:35 (4075)

2003-02-26 14:14:35# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að vandasamasti hluti þessa verkefnis, uppbyggingu á álveri og stóriðju, sé einmitt að búa þannig um hnútana að sem minnst áhrif verði á sjávarútveginn af framkvæmdunum og því sem af þeim leiðir, því við megum ekki láta uppbyggingu í nýrri atvinnugrein eins og stóriðju leiða til þess að draga úr störfum og fækka þeim í sjávarútvegi. Þá væru áhrif af þessum framkvæmdum ekki að öllu leyti jákvæð. Mér finnst að stjórnvöldum beri að stjórna þessu þannig að sem minnstar líkur séu á að þetta gerist og hvað varðar það úrræði sem hv. þm. nefndi að hefði verið varpað upp, mér finnst það koma til greina eins og öll önnur sem eru til þess fallin að tryggja stöðugleika á genginu á þessum tíma.