Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:15:37 (4076)

2003-02-26 14:15:37# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við umfjöllun þessa mál í efh.- og viðskn. stóð ég uppi með þá tilfinningu að það sem við þyrftum að gera væri að skjóta framkvæmdum á frest um kannski tveggja ára skeið til þess að draga úr þensluhvetjandi aðgerðum af völdum ríkisins. Ég taldi líka eftir þá umfjöllun að hugsanlegt væri að fara þá leið sem við erum að ræða hér, þ.e. útgáfu ríkisskuldabréfa og andvirði þeirra yrði síðan varið til þess að kaupa upp gjaldeyri.

Nú situr Seðlabankinn, ef ég man rétt, uppi með tveggja, þriggja mánaða varaforða af gjaldeyri. Hvers vegna ekki að margfalda það? Hvers vegna fer Seðlabankinn ekki í það að eiga gjaldeyrisvaraforða upp á eitt ár eða jafnvel tvö ár? Þetta er möguleiki.

Hv. þm. man kannski eftir því að við spurðumst fyrir um þetta í efh.- og viðskn. þegar fulltrúar Seðlabankans komu til fundar við okkur. Þá var okkur sagt að svona aðgerðir gætu aldrei haft varanleg áhrif, þau gætu haft áhrif sem dygðu kannski í eitt til eitt og hálft ár. En það er kannski það sem við þurfum. Við þurfum kannski ekki varanleg áhrif.