Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:19:14 (4079)

2003-02-26 14:19:14# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þá eru ljós sjónarmið hv. þm. í þessum efnum hvað varðar friðlandið í Kringilsárrana.

Hin spurning mín lýtur að umhverfisgjöldum á stórnotendur orku sem hv. þm. var tíðrætt um í ræðu sinni. Hann talaði um að hann teldi að í framtíðinni yrði að öllum líkindum beitt markaðslausnum í þessu sambandi, að sett yrði gjald á losunarkvóta. Orð þingmannsins mátti skilja þannig að hann væri því hlynntur að í framtíðinni yrði slíkt gert.

En ég vil spyrja hv. þm.: Hvað kemur í veg fyrir að hv. þm., formaður Samfylkingarinnar, og Samfylkingin öll styðji losunargjöld, umhverfisskatta á losunarkvóta núna? Hvers vegna ætlar Samfylkingin eingöngu að styðja þetta í framtíðinni en ekki núna þegar váin vofir yfir okkur hér og nú?