Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:20:11 (4080)

2003-02-26 14:20:11# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Enn verð ég að vísa til vafasamrar fortíðar minnar sem umhverfisráðherra. Ég var sá umhverfisráðherra sem lagði í fyrsta skipti fram frv. um spilliefni og um ýmis umhverfisgjöld. Árið 1995 lýsti ég þeirri skoðun minni t.d., við litlar undirtektir m.a. þáverandi starfsmanna minna í umhvrn., að ég væri þeirrar skoðunar að markaðslausnir yrðu það sem dygði helst varðandi losun skaðlegra lofttegunda. Ég er þeirrar skoðunar enn þá. Ég tel að eins og málin hafi þróast þá sé það farsælasta leiðin.

Það getur vel verið að eitthvað hafi farið fram hjá mér sem hv. þm. hefur verið að gera hér í þinginu. Ég veit ekki hvort hún er að vísa til einhverra frv. sem hún hefur lagt fram sjálf. Almennt er það þannig að við höfum markað þá stefnu að það eigi að beita umhverfisgjöldum sem hagrænum stjórntækjum og í framtíðinni að taka þau upp í stað almennra skatta. (KolH: Af hverju ekki núna?) Ég segi það hins vegar að í þessum efnum vil ég vera í takt við hina alþjóðlegu þróun og vil að Ísland fylgi öðrum ríkjum.