Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:24:42 (4084)

2003-02-26 14:24:42# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get skilið það að Alcoa vilji ekki eitt stóriðjufyrirtækja sæta umhverfisgjaldi. En ég skil hins vegar ekki að hæstv. umhvrh. eða stjórnvöld túlki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með þeim hætti að það sé ekki hægt að taka stórnotendur út úr og láta þá þurfa að greiða tiltekið umhverfisgjald en ekki smánotendur. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og fráleitt er ég þeirrar skoðunar.

Ég skil hins vegar algjörlega að Alcoa hafi viljað fá ákvæði þess efnis að það eitt stóriðjufyrirtækja yrði ekki látið greiða slíkt umhverfisgjald. En mér finnst að þetta komi í veg fyrir að Alcoa verði nokkru sinni látið greiða umhverfisgjald nema því aðeins að öll fyrirtæki í landinu verði látin greiða það. Þá þykir mér hins vegar að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir að þetta verði almennt lagt á alla stóriðju, því að ef ekki er hægt að gera það við Alcoa þá fara menn ekki og setja það á hin fyrirtækin líka.

Mér finnst því þetta ákvæði undanþiggja alla stóriðju. Ég er algjörlega á móti þessari túlkun á jafnræðisreglunni.