Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:28:42 (4089)

2003-02-26 15:28:42# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er reikningurinn sendur á framtíðarkynslóðir. Eða hvers vegna verðleggur ríkisstjórnin ekki landið? Hvers vegna á ekki að vera neitt afgjald af þessu landi? (Gripið fram í: Á ekki að borga bændum?) Hvers vegna á ekki að borga neitt fyrir losunarkvóta?

Þetta dæmi er ekki reiknað til fulls og meðgjöfin er svo gífurleg, herra forseti, og það er auðvitað þess vegna sem ég bað um þessar upplýsingar frá ESA. Ég vil fá að vita hvernig ríkisstjórnin reiknar þetta dæmi. Við höfum ekki fengið að sjá það reikningsdæmi, það er ekki uppi á borðinu. Við vitum ekki hvernig ríkisstjórnin reiknar þetta. Við vitum bara að hagfræðingarnir sem við höfum til ráðleggingar segja okkur að þetta sé óðs manns æði og komi ekki til með að skila neinum arði.

Ég lýsi vonbrigðum mínum, herra forseti, með að hæstv. iðnrh. skyldi ekki í andsvari sínu hafa komið inn á skýrslu Stefáns Benediktssonar sem sýnir fram á að af því sé mikil þjóðhagsleg arðsemi að stofna þjóðgarð á svæðinu norðan Vatnajökuls. Ég lýsi vonbrigðum mínum með að sú skýrsla skuli ekki vera gerð opinber og ég held að hæstv. ráðherra verði að koma að því í ræðu sinni síðar í dag hvað skýrslan hefur að geyma og hvers vegna sá kostur að stofna þjóðgarð hefur aldrei verið borinn saman við þann kost að nýta landið til raforkuframleiðslu.