Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:40:45 (4096)

2003-02-26 15:40:45# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari röksemdafærslu. Kyoto-bókunin sem Vinstri grænir styðja gengur út á lofthjúpinn. Ég heyrði ekki betur heldur en hv. þm. vildi vernda lofthjúpinn fyrir ofan okkur. Þess vegna skil ég ekki að Vinstri grænir skuli ekki vera með hörðustu stuðningsmönnum íslenska ákvæðisins. Það gengur út á að nota þessa grænu orku sem við höfum í stað þess að nota kol og olíu.

Álframleiðsla er að aukast í heiminum. Notkun á kolum og olíu er að aukast í þeim bransa. Það er þannig gott fyrir lofthjúpinn að nota frekar okkar orku til að framleiða álið þannig að röksemdafærslan er að mínu mati ekki nógu öflug hjá Vinstri grænum að þessu leyti, að þeir geti ekki skilið þarna á milli.

Það er hægt að rífast um einstaka virkjun, það er allt í lagi með það. Ég skil það alveg. En ég skil ekki að Vinstri grænir geti ekki hrósað stjórnvöldum fyrir að hafa náð íslenska ákvæðinu í gegn, af því að það er gott fyrir lofthjúpinn. Þetta skildu allir umhverfisráðherrar annarra landa.