Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:41:58 (4097)

2003-02-26 15:41:58# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Allir umhverfisráðherrar annarra landa vissu það og skildu að Ísland er afar smátt samfélag. Ísland er örsamfélag og það skiptir auðvitað umhverfisráðherra annarra þjóða sáralitlu máli að gefa eftir þetta sem laut að því sem íslenska ákvæðið fól í sér. (Umhvrh.: Er þetta ekki gott fyrir lofthjúpinn?) Það er auðvitað sannleikur málsins. Það er kannski gott fyrir lofthjúpinn í huga hæstv. ráðherra að blása út eimyrju álverksmiðjanna hlutfallslega réttlátlega um veröldina.

Herra forseti. Þær auðlindir sem við höfum að verja eru meira virði en svo að við getum stefnt þeim í voða á sama tíma og við þykjumst ætla að vernda þær og stæra okkur af því. Við getum ekki blásið út eimyrjunni sem fylgir álverksmiðjunum. Á meðan allar siðaðar þjóðir eru að reyna að losna við álverksmiðjurnar úr bakgarðinum hjá sér erum við að taka við þeim. Þriðji heimurinn er neyddur til að fá álverksmiðjunar til að reyna að bjarga efnahagsástandinu í löndum sínum. Við eigum auðvitað að leggja okkar orku í að búa til vistvænni aðferðir við að bræða þessa málma eða búa til annað en málma og fá á okkur önnur efni en ál til að leysa það af hólmi.