Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:44:32 (4098)

2003-02-26 15:44:32# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Með samþykkt þessa frv. er iðnrh. heimilað að semja fyrir hönd ríkisins við Alcoa og Fjarðaál um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi og framleiða allt að 322 þús. tonn af áli árlega í verksmiðju við Reyðarfjörð.

[15:45]

Iðnn. fjallaði ítarlega um þetta mál. Við fengum til okkar fjölmarga gesti og margar umsagnir sem flestar eru mjög jákvæðar. Ég ætla að grípa niður í nokkrar þessara umsagna og vitna í helstu niðurstöður þeirra.

Í ræðu minni við 1. umr. um þetta mál minnti ég á nauðsyn þess að við Íslendingar nýttum auðlindir okkar til lands og sjávar innan skynsamlegra marka til að auka útflutningsverðmæti okkar og styrkja efnahagslífið. Undir þetta er tekið í umsögn Alþýðusambands Íslands 10. febrúar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur að forsendur aukins hagvaxtar og bættra lífskjara á næstu árum sé stöðug og viðvarandi aukning útflutningstekna. Til þess að svo megi vera telur miðstjórn ASÍ mikilvægt að nýta allar auðlindir til lands og sjávar með skynsamlegum hætti. Í samræmi við þessa grundvallarskoðun er mikilvægt að nýta þá orku sem landsmenn búa að til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi.

Miðstjórn ASÍ lýsir því stuðningi sínum við áform um byggingu álvers við Reyðarfjörð og virkjunarframkvæmdir á Austurlandi. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á, að þessi framkvæmd er afar mikilvæg fyrir uppbyggingu atvinnu og lífskjara launafólks bæði á Austurlandi og um land allt.``

Við 1. umr. minnti ég einnig á mikilvægi þessara framkvæmda fyrir Austurland. Í umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 10. febrúar er vakin áthygli á jákvæðum áhrifum virkjunar og álvers á austfirskt samfélag og íslenskt efnahagslíf. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Lýst er yfir mikilli ánægju með það samstarf sem framkvæmdaaðilar Kárahnjúkavirkjunar og álvers ásamt stjórnvöldum hafa átt við SSA, hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga á Austurlandi.``

Í umsögn bæjarstjórnar Fjarðabyggðar er lýst eindregnum stuðningi við frv. Þá segir í umsögn Byggðarannsóknastofnunar Íslands, með leyfi forseta:

,,Það er álit Byggðarannsóknastofnunar að almennt séð megi taka undir það að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi muni hafa veruleg áhrif og að þau birtist ekki síst í fjölgun atvinnutækifæra og eflingu byggðar á Miðausturlandi.``

Í skýrslu hagdeildar ASÍ segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í dag er á sjötta þúsund manns án atvinnu og hefur atvinnuleysi ekki verið jafnmikið síðan 1998. Langtímaatvinnuleysi, þ.e. þeim sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur, hefur samhliða fjölgað mikið eða úr 410 í desember 2001 í 1.021 í desember.``

Það má því öllum vera ljóst að þessi starfsemi á Reyðarfirði er mjög mikilvæg. Hún mun skapa 750 störf við álverið og afleidd störf. Það kemur sér vel í því atvinnuleysi sem við búum við núna. Einnig má minna á að nú hillir sem betur fer loksins undir stækkun álversins á Grundartanga og þar munu verða til um 350 störf. Alls hillir því undir 1.100 ný varanleg störf vegna þessara tveggja framkvæmda auk þúsunda ársverka við framkvæmdir, bæði við virkjanir og byggingu álvera. Það er því með ólíkindum að andstaða skuli vera við þessar framkvæmdir, en sem betur fer er sú andstaða mjög lítil á Alþingi. Það skiptir miklu máli varðandi þær miklu virkjunarframkvæmdir sem fram undan eru og eru náttúrlega forsendan fyrir álversframkvæmdum að Landsvirkjun hefur sama lánsmat á alþjóðlegum vettvangi og ríkissjóður, en sem kunnugt er hefur ríkissjóður eða íslenska ríkið gríðarlegt traust á þessu sviði og alþjóðlegar stofnanir sem meta lánshæfi setja Ísland í efsta flokk. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur og fyrir Landsvirkjun í því stóra verkefni sem er fram undan og gerir verkefnið miklu hagstæðara en ella.

Alcoa sem hyggst reisa álverið á Reyðarfirði rekur 29 álver og framleiðir 4,2 millj. tonna af áli á ári. Því hefur verið haldið fram að það geti skapað okkur vandræði að þetta fyrirtæki verði eini kaupandinn að raforku frá Kárahnjúkavirkjun. Hvað það varðar þá skiptir það miklu að aðeins fimm af 29 álverum fyrirtækisins hafa kaupskyldu á orku. Verði samdráttur á álmörkuðum þannig að draga verður úr álframleiðslu eins og svartsýnisraddir hafa bent á þá loka þeir að sjálfsögðu síðast þeim álverum sem eru með kaupskyldu á orku, en eitt þessara álvera verður einmitt Fjarðaál. Þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur í þessum samningi sem hér er til umræðu.

Árleg álframleiðsla í heiminum er um 25 millj. tonna og aukningin er svona 3,5% á ári að meðaltali eða 875 þús. tonn. Framleiðsla Fjarðaáls verður 322 þús. tonn eða innan við 40% af árlegri aukningu á heimsmarkaði og einungis 1,3% af árlegri heimsframleiðslu. Það kemur stundum upp í umræðuna að við Íslendingar séum að verða allt of stórir á þessum markaði sem geti verið hættulegt. Staðreyndin er sú að í dag framleiðir Ísal 170 þús. tonn á ári og Norðurál 90 þús. tonn eða samtals 260 þús. tonn sem er liðlega 1% af heimsframleiðslunni.

Nú hillir undir stækkun Norðuráls um 90 þús. tonn og Ísal hefur rætt um 260 þús. tonna stækkun. Gangi þetta allt eftir, þ.e. bygging Fjarðaáls, stækkun Ísals og stækkun Norðuráls þá verður álframleiðsla á Íslandi 932 þús. tonn eða innan við 4% þess áls sem notað er í heiminum árlega.

Bæjarstjórinn í Fjarðabyggð, Guðmundur Bjarnason, var einn þeirra sem komu á fund iðnn. til að ræða þetta frv. Þar kom fram í máli hans að fasteignagjöld af þessu fyrirtæki munu skipta Fjarðabyggð mjög miklu máli. Þau verða um 200 millj. á ári, 1% fasteignagjald af þessu eina fyrirtæki mun gera um 200 millj. á ári. Fasteignagjöld í Fjarðabyggð eru í dag um 1,65% á fyrirtækjum og bæjarstjórnin þar hefur ákveðið að þegar Fjarðaál tekur til starfa og býr við 1% fasteignagjald þá verði það lækkað á öðrum fyrirtækjum í sveitarfélaginu í 1% sem skiptir auðvitað miklu máli fyrir atvinnulífið fyrir austan. Þá verða heildarfasteignagjöld í Fjarðabyggð 100 millj. plús 200 millj. af þessu eina nýja fyrirtæki, Fjarðaáli. Þetta er auðvitað aðeins eitt dæmi um hversu gífurlega jákvæð áhrif þetta álver mun hafa á samfélagið fyrir austan. Það var einmmitt skemmtilegt að heyra bæjarstjórann segja frá því að þeir mundu laga gjöld annarra fyrirtækja að því gjaldi sem verður á álverinu.

Líka má minna á að áætluð áhrif á sveitarfélögin frá árinu 2009 eru auknar útsvarstekjur á ári um 335 millj. kr., aukin fasteignagjöld vegna íbúðar- og atvinnuhúsnæðis 74 millj. kr., aukinn fasteignaskattur vegna álvers 200 millj. og aukinn fasteignaskattur vegna Kárahnjúkavirkjunar 60 millj. kr. á ári. Á móti koma svo aukin rekstrargjöld sveitarfélaganna á ári upp á 352 millj. kr. Bætt rekstrarstaða sveitarfélaganna á svæðinu verður því 317 millj. kr. á ári.

Það er ljóst að álverið og sú íbúafjölgun sem því fylgir kallar á stóraukið húsnæði á Miðausturlandi og mikla uppbyggingu hvað það varðar. Reiknað er með að þörf verði fyrir 567 nýjar íbúðir, tæplega 8 þús. fermetra í atvinnuhúsnæði, hátt í 600 fermetra í leikskólahúsnæði, 2.300 fermetra í grunnskólahúsnæði, um 900 fermetra í framhaldsskólahúsnæði, 2.200 fermetra í húsnæði fyrir heilbrigðisstofnanir og tæpa 6 þús. fermetra í húsnæði fyrir aðrar opinberar byggingar. Það var því ekki að undra þó að létt væri yfir bæjarstjóranum í Fjarðabyggð þegar hann kom á fund iðnn. enda lá vel á honum, blessuðum karlinum.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins sem sendu sameiginlega umsögn til iðnn. segir, með leyfi forseta:

,,Það er samtökunum fagnaðarefni að bygging álvers í Reyðarfirði og stórvirkjunar á Austurlandi sé að verða að veruleika. Framkvæmdirnar verða lyftistöng fyrir atvinnulíf á landinu öllu og munu stuðla að bættum hag landsmanna og fjölbreyttari samsetningu atvinnulífs. Fyrirhugaðar framkvæmdir verða þær stærstu í Íslandssögunni og munu þar af leiðandi krefjast virkrar hagstjórnar, einkum þegar þær standa hæst á árabilinu 2005 og 2006, en á móti kemur að tímasetning þeirra er afar heppileg þar sem vaxandi slaka gætir í hagkerfinu í aðdraganda þeirra.``

Það var því merkilegt að heyra hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur halda því fram að það væru mótmæli við þessar framkvæmdir frá útflutningsfyrirtækjunum. Þessi samtök sem ég er að vitna í hér eru samtök flestra útflutningsfyrirtækja á Íslandi og ég minni líka á að stóru útflutningsfyrirtækin á Austurlandi, þ.e. útgerðarfyrirtækin, fiskvinnslufyrirtækin, hafa eindregið mælt með þessari framkvæmd og fagnað komu þessa fyrirtækis á svæðið.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins er einnig fjallað nokkuð um skattamál. Það eru vissar undanþágur í frv. varðandi skattamál þessa nýja fyrirtækis og þar segir, með leyfi forseta:

,,Samtökin gera ekki efnislegar athugasemdir við það. Eðlilegt er að gerður sé samningur við erlenda aðila sem hyggjast festa mikla fjármuni hér á landi til margra áratuga sem veita festu og öryggi á líftíma fjárfestingarinnar.``

Jafnframt er bent á að lagfæra þurfi skattalöggjöfina fyrir íslensk fyrirtæki og bent á að eignarskattar á fyrirtæki þekkist vart annars staðar en hér á landi. Náttúrlega má minna á að þessir eignarskattar hafa verið lækkaðir um helming bæði á einstaklinga og fyrirtæki og það kemur í fyrsta sinn til framkvæmda við álagningu nú í sumar. Það hefur líka verið talað um það af stjórnarflokkunum og boðað að stefnan sé nú sú að afnema að fullu eignarskatta, bæði af einstaklingum og fyrirtækjum, enda má segja að eignarskatturinn sé ósanngjarnari flestum öðrum sköttum vegna þess að eignir manna verða yfirleitt til af tekjum sem þeir hafa borgað fulla skatta af áður.

Í umsögn frá Alcan sem er eigandi Ísals er fjallað nokkuð um skattamál einnig og þar segir m.a. að Ísal hafi í rúmt ár átt í viðræðum við iðnrn. um lagfæringar á aðalsamningi Alcan og ríkisstjórnarinnar í kjölfar breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem tóku gildi 1. janúar 2002 og að þessum viðræðum hafi nýlega verið hafnað af hálfu ráðuneytisins. Þeir benda á að ljóst sé að skattkerfið sem Ísal eigi kost á sé fyrirtækinu til verulegra muna óhagstæðara en þeir kostir sem Norðurál og eigendur Fjarðaáls bjóðast. Það var fjallað talsvert um þetta í iðnn. og sýndist sitt hverjum og menn voru ekkert endilega á því að fara að taka upp samninga sem gerðir hafa verið en á það var bent og reyndar tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans að eðlilegt sé að mótuð verði stefna um að álver og fyrirtæki í sambærilegum rekstri búi við sem líkust rekstrarskilyrði og hvatt til þess að í tengslum við fyrirhugaða stækkun Ísals og Norðuráls verði teknar upp viðræður við fyrirtækin um endurskoðun á þessum samningum við hið opinbera, ekki síst í skattamálum og varðandi orkuverð, þ.e. að þetta verði samræmt. En menn eru ekki á því að taka þetta upp fyrr en þá í tengslum við stækkun og nýjan samning við fyrirtækin. En benda má á það í leiðinni að þegar Ísal kvartar undan því að tekjuskatturinn sé hærri á þeim en öðrum þá búa þeir að sumu leyti við hagstæðari skattakjör en önnur stóriðjufyrirtæki. Það kemur fram í fylgiskjali sem fylgir með þessu að þeir eru t.d. undanþegnir gjaldi vegna öryggis raforkuvirkja sem bæði Norðurál og önnur fyrirtæki á Íslandi borga. Þeir eru undanþegnir fasteignagjöldum, eina stóriðjufyrirtækið. Þeir eru í hagstæðasta kanti og hagstæðari en önnur stóriðjufyrirtæki varðandi frádrátt vegna afskrifta og þeir falla ekki undir almennt skatteftirlit og íslenska dómstóla þannig að það er ekki alveg á einn veg að það sé allt þeim í óhag. En meiri hluti nefndarinnar bendir á að þetta verði tekið til endurskoðunar þegar og ef kemur að samningum við þessi fyrirtæki um stækkun þeirra.

Reynt hefur verið að gera væntanlegar framkvæmdir fyrir austan tortryggilegar, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð. Talað hefur verið um umhverfisáhrif, talað hefur verið um að þetta sé ekki hagstæð framkvæmd og síðasti ræðumaður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, taldi að ekki væri mikill ávinningur af þessu og talaði um litlar upphæðir. Því er rétt að vitna í það að í samræmi við 11. gr. orkulaga tók Orkustofnun að sér að kynna sér útreikninga Landsvirkjunar á kostnaði við ráðgerða virkjun og rekstraráætlun hennar. Í umsögn Orkustofnunar segir, með leyfi forseta:

,,Öllum slíkum verkefnum fylgir áhætta. Því er mikilvægt að aðferðafræði við hagkvæmnismatið taki tillit til áhættuþátta og hugsanlegra breytinga á forsendum um leið og mat sé lagt á líkindi allra breytinga. Af þessum sökum hefur Orkustofnun kynnt sér sérstaklega hvernig Landsvirkjun stendur að verki í þeim efnum. Stofnunin telur aðferðafræðina vandaða og ítarlega og því séu allar forsendur fyrir hendi til þess að niðurstaða Landsvirkjunar um það hvort í verkefnið skuli ráðist byggi á traustum grunni og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við tilvitnað lagaákvæði.``

Það skiptir auðvitað miklu máli að stofnun sem samkvæmt lögum ber að fara ofan í þessa útreikninga skuli komast að þessari niðurstöðu.

Það má minna á það líka að það hefur alltaf legið skýrt fyrir af hálfu stjórnvalda og forsvarsmanna Landsvirkjunar að orkuverðið þurfi að vera hagstætt og hafa jákvæð áhrif á afkomu og starfsemi fyrirtækisins. Það er rétt að vitna í greinargerð forstjóra Landsvirkjunar sem er fylgiskjal með frv. um rammasamninginn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Arðsemismat Landsvirkjunar, sem byggir á núvirtu fjárstreymi vegna kostnaðar og tekna, tekur til áranna 2002--2070, þ.e. rúmlega 60 ára frá upphafi rekstrar. Er virkjunin metin verðlaus í lok tímabilsins, þótt það sé mun skemmra en væntanlegur líftími hennar. Samkvæmt niðurstöðum matsins má vænta þess, að núvirtur hagnaður af orkusölu samkvæmt rafmagnssamningnum verði um 6,6 milljarðar króna, sem svarar til þess, að afkastavextir af fjárfestingu í verkefninu verði um 7,3% að nafngildi og 5,5% að raungildi. Á sama grundvelli má gera ráð fyrir, að arðgjöf eigin fjár vegna verkefnisins verði um 12,8% að nafngildi og 11% að raungildi. Er það talið mjög sambærilegt við þær kröfur um arðsemi eigin fjár, sem almennt eru gerðar meðal orkufyrirtækja í nálægum löndum.``

Þessir útreikningar Landsvirkjunar hafa verið gerðir tortryggilegir af ýmsum. Ég verð þá að minna á að eigendur Landsvirkjunar, þ.e. Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og ríkið, fólu sérfræðingum sínum að meta forsendur Landsvirkjunar varðandi rafmagnssamninginn, þ.e. hvort þeir teldu þessar forsendur raunhæfar. Niðurstaðan varð sú að sérfræðinganefndin gerði ekki athugasemdir við forsendurnar.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en vill inna hann eftir því hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því að nú er sú stund runnin upp að komið er að hefðbundum þingflokkstíma.)

Það er sjálfsagt, herra forseti, að taka til máls að loknum þingflokksfundum og ljúka ræðunni.

(Forseti (GÁS): Forseti þakkar hv. þm. liðlegheitin. Gerir nú hv. þm. hlé á ræðu sinni og forseti hlé á þessum fundi. Honum verður fram haldið kl. 18.)