Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:15:43 (4103)

2003-02-26 18:15:43# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:15]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég hef í fórum mínum þessar umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Þær eru síðan 7. febr. Hér er umsögn sem iðnn. barst frá Alþýðusambandi Íslands og ég vitnaði til í ræðu minni, hún er síðan 10. febr. Þetta eru glænýjar umsagnir og forsendur hafa ekkert breyst frá því að þessar umsagnir lágu fyrir.

Hv. þm. segir að framkvæmdin fyrir austan sé ekki sambærileg við aðrar virkjanir vegna þess að þar sé einn kaupandi. Það má vel vera en það er hins vegar mjög mikið atriði í þessu, eins og ég gat um í ræðu minni, að þarna hefur Alcoa kaupskyldu. Alcoa er með 29 álver um allan heim og einungis fimm þeirra bera kaupskyldu. Ég tel því ekki mikla hættu á að þessi kaupandi hrökklist frá.

Hatrammar deilur um arðsemi og bókhaldslegt tap, segir hv. þm. Það er alveg rétt að einn og einn hagfræðingur hefur aðra skoðun á þessu en þeir sérfræðingar sem fjallað hafa um málið fyrir hönd eigenda. Ég minnti á það áðan að ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, sem eru eigendur Landsvirkjunar, létu sérfræðinga sína fara ofan í útreikninga Landsvirkjunar og Orkustofnun fór ofan í þá útreikninga. Hver hagfræðingurinn á fætur öðrum (Gripið fram í.) fór ofan í dæmið eins og Landsvirkjun leggur það upp (ÖJ: Já, eins og Landsvirkjun leggur það upp.) --- má ég fá að tala, hæstv. forseti --- og þeir voru sammála um að þessar forsendur væru skotheldar. Það hefur alltaf legið fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar að í þessa framkvæmd yrði ekki farið nema hún yrði arðsöm og hagkvæm. Auðvitað er enginn vafi á því að þeir útreikningar eru rökum studdir.

Hv. þm. segir ekki rétt að gera þungaiðnaðinn að kjölfestu. Ég held að það sé mjög gott fyrir okkur að vera ekki eins háð sjávarútvegi og við erum í dag. Yfir 60% af útflutningi okkar eru sjávarafurðir. Þarna fáum við aðra kjölfestu inn í atvinnulífið.

Meiri fjölbreytni, segir hv. þm. og félagi hans, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sagði í ræðu sinni fyrr í dag, að fólkið ætti sjálft að fá að ráða hvað það gerði en ekki taka við því frá ríkinu. Austfirðingar hafa sjálfir fengið að ráða. Hver hefur afleiðingin verið? Stanslaus fækkun á hverju ári í 30 ár.