Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:18:21 (4104)

2003-02-26 18:18:21# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, EMS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:18]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í dag höfum við enn á ný rætt um álver við Reyðarfjörð. Í 1. umr. um frv. sem hér er til umræðu fór ég yfir meginþætti málsins og þarf í raun ekki miklu við að bæta.

Fyrir nokkrum árum var haldin ræða úr þessum stól, að vísu tengd öðru álveri. Það er talin ein stysta ræða sem hér hefur verið haldin, en hún hljóðaði að því er mér skilst eingöngu þannig:

,,Álverið rísi.``

Herra forseti. Ég gæti út af fyrir sig látið það duga í þessu máli en tel þó rétt að víkja að örfáum atriðum til að hnykkja á varðandi þetta mál.

Það hefur komið skilmerkilega fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem hér hafa talað fyrr í dag, þ.e. hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að Samfylkingin styður frv. sem hér liggur fyrir og hefur sá þingflokkur stutt málið. Í því sambandi er hægt að minna á atkvæðagreiðslu varðandi Kárahnjúkavirkjun sem er hluti af öllu þessu máli. Þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með því að undanskildum tveimur. Sú staða er áfram í þingflokknum þannig að þingflokkurinn stendur nær allur að baki þessu.

Það að reisa álver við Reyðarfjörð hefur auðvitað verið draumur mjög margra Austfirðinga um mjög langa hríð, að vísu ekki endilega álver heldur stóriðjuver sem gæti nýst við að skapa fjölbreyttara mannlíf í fjórðungnum. Það kom fram í ágætri ræðu Guðjóns Guðmundssonar að sannarlega mundi álver við Reyðarfjörð auka fjölbreytni í atvinnulífi Austurlands. Ég þarf ekki að bæta miklu við orð hv. þm. um þau mál. Hv. þm. minntist einnig á að hér væri sannarlega um byggðaaðgerð að ræða og líklega þá stærstu sem farið hefur verið í á Íslandi. Ég vil taka undir það að sannarlega er þetta byggðaaðgerð. Hún er vissulega mjög stór en hún hefur þann ótvíræða bónus, sem við skulum ekki gleyma, að nýtast þjóðfélaginu í heild sinni. Það er auðvitað afskaplega ánægjulegt. Byggðaaðgerðir hafa því miður ekki allar skilað sér jafnaugljóslega í arði til samfélagsins alls. Það þarf auðvitað að halda þessu til haga. Svo virðist sem sumir ákafir andstæðingar þessarar framkvæmdar leggi megináherslu á að þetta sé nær eingöngu hugsanlega til góða fyrir lítinn hluta landsins og hafa jafnvel uppi efasemdir um það að það muni skila sér á þeim hluta landsins.

Hins vegar er ljóst að miðað við samsetningu samfélags okkar skilar svo stórt verkefni sem þetta sér ekki síður á höfuðborgarsvæðinu en á Austurlandi. Auðvitað mun þetta ekki eingöngu skila sér á Austurlandi hvað varðar landsbyggðina. Áhrifin munu einnig ná til Norðurlands. Það sést m.a. á því að ýmsir á Norðurlandi eru í viðbragðsstöðu og hafa sett sig í stellingar. Þeir ætla sér svo sannarlega að hafa gagn af þessum framkvæmdum.

Það sem snýr kannski fyrst og fremst að okkur núna, herra forseti, er hvernig við ætlum að tryggja að við nýtum þessar framkvæmdir sem allra best fyrir landið í heild, þann landshluta sem álverið og virkjunin verða reist í og aðra hluta landsins. Í raun ættum við fyrst og fremst að ræða um það nú hvernig við getum gert þetta sem allra best. Málið er komið í höfn og við eigum að fara að snúa okkur að því að skila þessu sem allra best af okkur þannig að allir þættir málins nýtist sem best og við nýtum þau tækifæri sem þetta verkefni skapar okkur.

Það er mjög ánægjulegt sem fram kom hjá meiri hluta iðnn., sérstaklega hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem mælti fyrir áliti meiri hlutans. Nefndin hefur tekið undir till. til þál. sem hér hefur verið lögð fram um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Hér er um mjög mikilvæga þáltill. að ræða. Það sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar hlýtur að vekja þá von að sú tillaga verði samþykkt fyrir þinglok í vor. Það teldi ég afskaplega mikilvægt vegna þess að stærsta verkefni okkar er að tryggja að við nýtum þetta tækifæri sem allra best. Til að það megi verða þurfum við að sjálfsögðu að fylgjast með þeim áhrifum sem þessar framkvæmdir hafa svo við getum gripið til þeirra aðgerða sem til þarf til að allt fari á sem bestan veg. Þannig verðum við einnig vör við þau tækifæri sem skapast og getum nýtt þau um leið og þau gefast.

Herra forseti. Áðurnefnd tillaga er nú í meðförum Alþingis og við væntum þess að hún komi hér fljótlega til afgreiðslu þannig að hún nýtist sem allra best til að hægt sé að grípa þau tækifæri sem þarna eru á ferðinni.

Herra forseti. Því miður hafa ýmsir barist mjög hatrammlega gegn þessu máli allt frá upphafi. Sú andstaða óx nokkuð á tímabili en nú virðist hafa dregið verulega úr henni og má segja að það sé auðvitað eðlilegt þegar mál er svo langt fram gengið sem þetta. Menn eiga auðvitað að reyna að gæta hófs í málflutningi og reyna að taka undir með þeim sem hvetja til þess að við reynum að nýta orku okkar og atgervi til að gera sem best úr þessu máli, þá ekki eingöngu á þeim sviðum sem ég hef verið að tilgreina, þ.e. gagnvart atvinnulífi og samfélagsáhrifum eystra og á landinu öllu, heldur einnig gagnvart náttúrunni. Þannig ættu allir að geta sest niður og leitt málið áfram í þeim farvegi. Ég trúi því að þegar fram líða stundir muni verða samstaða um þetta mál eins og orðið hefur um flest stóriðjuverin sem hér hafa verið reist, eftir að þau hafa tekið til starfa. Öll sú svartnættisspá sem yfirleitt hefur verið viðhöfð um þau mál hefur hljóðnað og sem betur fer er ljóst að svartnættið hefur ekki náð fram að ganga. Ég tel fullvíst að svo verði einnig um þetta verkefni.

Herra forseti. Ég tilkynnti í byrjun að ég teldi ekki þörf á að hafa hér langa ræðu. Ég einsetti mér að hafa þessa ræðu mjög stutta. Ég vil þó bæta örlitlu við. Því miður hefur iðulega verið talað um það að Austfirðingar hafi um langt skeið setið, beðið og ekkert gert á meðan þeir voru að bíða eftir álveri. Þetta er fjarstæða. Á Austurlandi hefur, eins og mjög víða um land, verið unnið að því að auka fjölbreytni í atvinnulífi, bæta kjörin og nota öll þau tækifæri sem gefist hafa. En því miður hefur það ekki dugað vegna þess að samfélag okkar er í raun of lítið til að geta boðið upp á alla þá fjölbreytni sem fólk leitar eftir. Þess vegna þarf stórátak sem þetta.

Ég fór yfir það í ræðu minni við 1. umr. hvernig margir okkar Austfirðinga komumst á þá skoðun að þetta væri verkefni sem við þyrftum að fara í. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. Ég vil nefna tvennt sem menn hafa á undanförnum missirum og árum byggt upp á Austurlandi sem hefur sem betur fer vaxið og dafnað og mun væntanlega halda því áfram um ókomin ár og verða enn stærri hluti af atvinnulífinu. Þar vil ég fyrst nefna fiskeldi sem hefur rutt sér til rúms á seinni missirum og er vaxandi atvinnugrein í fjórðungnum og á augljóslega mjög bjarta framtíð fyrir sér. Fiskeldi verður hins ekki í beinni samkeppni, í þeirri merkingu sem við venjulega leggjum í það orð, við álverið en er hluti af því að skapa fjölbreyttara atvinnulíf og að styrkja stoðir samfélagsins.

Ferðaþjónusta hefur einnig farið vaxandi í þessum landshluta. Þar ræður ekki einungis það að þessi landshluti býður upp á gífurlega náttúrufegurð sem dregur að sér ferðamenn. Einnig hefur tækifærum ferðamanna til að koma til landshlutans verið fjölgað. Hafið er beint flug milli Þýskalands og Egilsstaðaflugvallar. Það skapar auðvitað mikla möguleika. Á vordögum mun ný Norræna hefja siglingar til Seyðisfjarðar, sem einnig mun að sjálfsögðu styrkja ferðaþjónustuna. Þannig gætum við haldið áfram. Við gætum í raun og veru farið í gegnum sjávarútveginn sem slíkan. Hann hefur eflst og fjölbreytni þar aukist og mörg fyrirtækjanna verið að styrkjast.

En auðvitað er það þannig að ýmis byggðarlög hafa verið að veikjast vegna þess að þar hefur dregið þar úr sjávarútvegi. Við höfum sannarlega ekki farið varhluta af því að mjög hefur fækkað í ýmsum byggðum. Þannig eru t.d. færð rök fyrir því í ýmsum skýrslum sem gerðar hafa verið varðandi álverið að innviðir samfélagsins geti í raun að stórum hluta staðið undir þeirri þjónustu sem þarf að koma til. Við höfum t.d. skólana suma hverja tilbúna til að taka við fleiri nemendum, leikskóla og þannig gætum við haldið áfram.

Það þarf að vinna að ýmsu fleiru í framhaldi af þessari framkvæmd. Ég ætla í lok ræðu minnar að minnast örlítið á það sem ég tel hvað stærst, litið til framtíðar, varðandi önnur verkefni. Á næstunni munum við hefja jarðgangagerð milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, afskaplega mikilvægt mannvirki sem hins vegar vekur athygli á því að við þurfum að halda áfram við slík verkefni. Það er alveg ljóst að stærsti byggðakjarninn í Fjarðabyggð, Neskaupstaður, þarf sannarlega að tengjast til Eskifjarðar með nýjum jarðgöngum þannig að Neskaupstaður sé á jafnréttisgrundvelli við aðra byggðakjarna Fjarðabyggðar gagnvart þessu stóra verkefni. Þetta er verkefni sem bíður okkar á næstunni sem hlýtur að vera fyrsta skrefið í að tengja áfram leiðir norður á Seyðisfjörð og svo við Hérað.

[18:30]

En við skulum ekki gleyma því að við þurfum einnig að huga að fleiri jarðgöngum í fjórðungnum vegna þess að í jarðgangaáætlun er gert ráð fyrir því að könnuð verði jafnhliða þeim jarðgöngum sem verður farið í næst, jarðgöng annars vegar milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og hins vegar milli Vopnafjarðar og Héraðs. Ljóst er að ef tengja á norðausturhornið inn á Miðausturland þurfa jarðgöngin milli Vopnafjarðar og Hérðas einnig að verða framkvæmd fyrr en síðar.

Þetta eru að minni hyggju þau stóru verkefni sem bíða okkar nú í framhaldi af þessu stórverkefni sem svo ánægjulegt er að er nú til lokaafgreiðslu í þingsölum. (Iðnrh.: Og ríkisstjórn.) Já, hæstv. iðnrh. Það er alveg óhætt að segja að þetta sé eitt af betri málum sem þessi ríkisstjórn hefur unnið að. Ég ætla hins vegar ekki, hæstv. ráðherra, að fara að rifja upp alla sögu þessa máls því að ég tel mig hafa gert það nokkuð þokkalega við 1. umr. og ég ætla ekki að fara að draga upp einhver atvik sem hugsanlega væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir í málinu. Það finnst mér á þessari stundu vera algert aukaatriði. Ég ætla ekki að rifja upp þann tíma sem ég held að ég deili með hæstv. iðnrh. að okkur hafi ekki liðið allt of vel þegar Norsk Hydro var að draga okkur á ýmsu fyrir nokkrum missirum, en sem betur fer kom Alcoa til sögunnar, áttaði sig á því hversu gott þetta verkefni er og þess vegna er Alcoa komið inn í þessa mynd. Ég tel sem sagt, herra forseti, að þrátt fyrir ríkisstjórnina höfum við náð þessu markmiði og ég endurtek það að ríkisstjórnin hefur að minni hyggju staðið sig býsna vel í þessum málum.

En ég tel ástæðu til að menn gleymi því ekki að miklu fleiri hafa komið að málinu en bara hæstv. ríkisstjórn. Ég þori að fullyrða um það, herra forseti, að heimamenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja í þessu máli og ég trúi að það hafi skipt töluvert miklu í því hvernig málið hefur fram gengið vegna þess að svona mál vinnast að sjálfsögðu ekki nema tryggð sé býsna góð samstaða meðal heimamanna um málið.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að endurtaka það sem ég hef áður sagt. Það er afskaplega ánægjulegt að við skulum vera komin svo langt með þetta mál að það styttist óðum í að við getum fagnað því að fyrsta skóflustungan verði tekin að byggingu álvers í Reyðarfirði.