Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 21:19:27 (4109)

2003-02-26 21:19:27# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[21:19]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að hv. þm. talaði ekki um starfsmenn ríkisins en það er bitamunur en ekki fjár á því hvort menn eru starfsmenn ríkisins, ráðnir hjá ríkinu eða hvort þeir eru að vinna fyrir ríkið, verkefnaráðnir eða í nefndum eða starfshópum. Ég verð að segja að mér finnst óvarlegt að tala svona um heila stétt manna. Ég held að hv. þm. hafi talað um að menn misstu ráð og rænu, kannski hefur hann orðað það öðruvísi og ekki eins vel og ég. Þá bið ég hann forláts á því en ég ítreka að mér finnst heldur óvarlegt að tala svona um þessa stétt manna, hagfræðinga. Ég held að þetta séu menn sem leggja sig fram um að vinna störf sín vel og eigi ekki skilið þessa einkunn.