Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 21:22:18 (4111)

2003-02-26 21:22:18# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[21:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. er hér til staðar. Ég vona og vænti að helstu aðstandendur málsins aðrir, hæstv. iðn.- og viðskrh., formaður iðnn. og umhvrh. séu hér á næstu grösum. Í raun og veru væri æskilegt að meira og minna öll ríkisstjórnin, formenn stjórnarflokkanna létu svo lítið að vera viðstaddir þessa umræðu. Mér finnst eiginlega að menn verði að taka sjálfa sig það alvarlega, þeir sem hafa rætt um og fullyrt að hér sé á ferðinni stærsta mál Íslandssögunnar, sinnar tegundar, mesta byggðaaðgerð allra tíma, stærsta framkvæmd og fjárfesting allra tíma o.s.frv., fylgi þá þessu óskabarni sínu á endastöð, t.d. hæstv. utanrrh. sem hefur lítið látið sjá sig við þessa umræðu. Reyndar hefur hann mest lítið haft fyrir því að rökstyðja framgöngu sína í þessu máli innan þingsalar.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þegar líður kannski að lokum umfjöllunar Alþingis um þessi stóru mál, virkjana- og stóriðjuáformin austan lands eða norðan Vatnajökuls þá saknar maður þess, þegar maður lítur yfir þær umræður og þau átök sem hér hafa orðið, hve sjaldan hefur gefist færi á því að ræða þetta við einn helsta upphafsmann málsins, hæstv. utanrrh.

Það væri einnig fróðlegt, herra forseti, að fara aðeins yfir sögu stóriðjuuppbyggingarinnar og stórvirkjana í landinu. Þar hefði t.d., í undirbúningi þessa mikla máls, gjarnan mátt vinna ákveðna grundvallarvinnu, kortlagningarvinnu. Nú er það svo að það væri tiltölulega auðvelt að greina, t.d. í ljósi reynslunnar, margvísleg áhrif svona framkvæmda, ef menn hefðu viljað það viðhafa upp á að læra eitthvað af því gagnvart samningum um framhald slíkra stórframkvæmda, sýnist mönnum þörf á að ráðast í það. Það hefur að vísu verið umdeilt og er enn hversu hagstætt hafi í raun reynst þjóðinni að ráðast t.d. í Búrfellsvirkjun og byggingu álvers í Straumsvík á sínum tíma. Engin deilir um að álverið í Straumsvík er myndarlegt fyrirtæki í dag. Þegar búið er að afskrifa virkjanirnar sem framleiða ofan í það rafmagn er þjóðhagslegur ávinningur af þeirri starfsemi. En hver er fórnarkostnaðurinn orðinn? Hversu mikið hafa t.d. almennir raforkunotendur í landinu og skattgreiðendur þurft að leggja af mörkum til að koma málum í þá stöðu? Hversu mikil er meðgjöfin með járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga? Talið er að það fyrirtæki hafi ekki borgað ýkjahátt rafmagnsverð í gegnum tíðina og það hefur þurft að endurfjármagna það ítrekað til þess að halda því gangandi. Um þessa hluti er lítið rætt, herra forseti, en þá mætt gjarnan skoða.

Að sjálfsögðu segja menn þá: Já, en sjáið þið alla starfsmennina sem vinna í þessum ágætu fyrirtækjum? Eru þeir ekki mikilvægir? Jú, auðvitað eru þeir það. Það er gott að menn hafi vinnu og vel launaða vinnu. En við megum ekki gera þau grundvallarmistök í samanburði kosta af þessu tagi að gefa okkur að engin önnur störf hefðu skapast og þetta fólk væri ekki í vinnu við annað ef þróun atvinnulífsins í landinu hefði orðið önnur. Hver veit nema þau störf væru þess vegna eins hagkvæm eða gæfu jafnvel meira af sér. Er endilega víst að af hverju starfi í þungaiðnaði sem kostar á milli 300 og 400 millj. kr., þó það skili þessu eina sæmilega launaða starfi, sé þjóðhagslega meiri ávinningur en t.d. ef okkur tækist með markvissri stefnu um nýsköpun í atvinnulífi að stýra þessum störfum, t.d. í hátækni- og þekkingargreinar sem að flestra dómi eru arðvænlegustu störfin í dag þó þar hafi gengið á ýmsu? Svíar hafa t.d. náð býsna langt í að byggja upp slíkan iðnað, þekkingariðnað, hafa nánast náð að byggja sinn kísildal norður af Stokkhólmi. Á vesturströnd Finnlands dregur stórfyrirtækið Nokia vagninn og skapar mörg verðmæt störf í þessum efnum.

Það gaf tilefni til þess, herra forseti, að rifja aðeins upp sögu Búrfellsvirkjunar og raforkuverðsins þegar hv. formaður iðnn. fór mikinn um ágæti þess fyrirtækis í umræðum um mál hér á síðasta þingi. Hann hneykslaðist upp úr skónum á þeim mönnum sem hefðu haft þau viðhorf á sínum tíma að þetta væri kannski ekki mjög fýsilegur pakki, sá samningur sem gerður var við fyrirtækið Alusuisse á sínum tíma. Ég tók þá að mér að rifja upp söguna fyrir þennan framsóknarmann og benda honum m.a. á það að flokksbræður hans á þeim tíma í Framsfl. lögðust gegn samningnum og gerðu það alveg sérstaklega með þeim rökum að raforkuverðið væri allt of lágt og það var sannarlega allt of lágt.

Man einhver hvert upphafsverðið á raforku til Alusuisse var, af því að okkur er svo töm mælieiningin mill, þúsundasti úr dollar? Það voru 3,5 mill. Það var samið um 3,5 mill við Alusuisse og það var óverðtryggður samningur til 25 ára. Vita menn hver rökin voru? Rökin voru m.a. þau að kjarnorkan væri að verða svo hagkvæm að menn væru á síðasta snúningi með að koma raforkunni á Íslandi í verð. Talið var að hún yrði ekki samkeppnisfær innan fárra ára og þess vegna væri gullgæsin að fljúga fram hjá og því yrði að stökkva á hana. Til hvers leiddi þetta? Þetta leiddi til þess að Landsvirkjun var nærri komin á hausinn, að Landsvirkjun varð að hækka raforkuverðið aftur og aftur á almenning í landinu til að halda í horfinu.

Það tókst að vísu að mjaka verðinu upp í ein 6--7 mill í tengslum við stækkun álversins á árinu 1974--1975. En það var þó þannig, það er óumdeilt, að hækkanir á raforkuverði fram undir árið 1980 stöfuðu meira og minna og beint og óbeint af því að Landavirkjun var að kikna undan þessum óhagkvæma samningi. Það var ekki fyrr en fyrirtækið var staðið að svindli --- hækkun í hafi --- og því stefnt fyrir dómstóla, að íslenska ríkið komst í aðstöðu til að knýja upp raforkuverðið. Það náðist fram á því hækkun, þá loks að málið var fyrir gerðardómi í New York. Það var reyndar tekið út úr honum illu heilli. Væntanlega hefði ríkið komið miklu betur út úr því að láta einfaldlega dæma fyrirtækið fyrir þau brot sem það var sannanlega bert að. En þá náðist hækkun sem síðan hefur gefið, eftir því hvernig álverð sveiflast, á bilinu 12,5--18,5 mill og veitir ekki af. Þessi hækkun er búin að skila Landsvirkjun tugum milljarða, örugglega a.m.k. 15--25 milljörðum kr. og munar um minna.

[21:30]

Hefði nú ekki verið ágætt, herra forseti, að fara aðeins yfir þessa sögu og t.d. hafa í höndunum vandaða greiningu á þessu og þeim lærdómum sem við gætum dregið af fyrri fjárfestingum af þessu tagi og fyrri samningum, a.m.k. til að reyna að falla ekki ofan í sömu gryfjurnar aftur? Eigum við ekki að reyna að nýta reynsluna frá þróuninni í Straumsvík þar sem menn gerðu grundvallarmistök í samningum, þar sem menn bjuggu sér í raun og veru til nauðhyggjuröksemdir af þessu tagi, að kjarnorkan væri að ýta vatnsaflinu út af borðinu og yfirtæki það og yrði miklu hagkvæmari, að menn a.m.k. gangi þá hægt um gleðinnar dyr þegar þeir eru að byggja hlutina á mjög sambærilegum hlutum, óljósum spám um þróun mála inn í framtíðina sem menn hafa ákaflega veikar forsendur til að gera og standa á? En hér er enn verið að gera sömu hlutina.

Þessi spilaborg gæti hrunið til grunna á því einu að menn feilreiknuðu líklega þróun álverðs til framtíðar um 20--30%, ofmatið væri sem sagt af þeirri stærðargráðu. Þá er þetta búið. Annað sem gæti ósköp einfaldlega gerst er að eftirspurn eftir þessum málmi yrði önnur og minni en menn eru að veðja á. Sú þróun er á fullri ferð að hráálsframleiðsla er öll að hverfa frá Vesturlöndum til þróunarríkja svipað og textíliðnaður eða annað því um líkt og siglir hraðbyri í að verða láglaunaiðnaður sem verði alls ekki samkeppnisfær um vinnuafl og passi ekkert inn í það verðlag sem í framtíðinni verður á Vesturlöndum.

Umhverfismálin, herra forseti, eru auðvitað í raun hið stóra mál í þessum pakka. Í mínum huga er það svo þó að ég geri síður en svo lítið úr hinni efnahagslegu áhættu sem er mikil vegna þess að þar er um alveg sérstakar aðstæður að ræða. Og það helgast af því að menn eru að taka ákvörðun um óafturkræfar breytingar á náttúru landsins. Það yrði auðvitað mikið kjaftshögg ef efnahagshliðin á þessu dæmi riði öllu á slig. En við mundum auðvitað klóra okkur fram úr því, Íslendingar, við mundum standa það af okkur. Og við mundum jafna okkur á þeim áföllum eins og við höfum nú yfirleitt gert þegar síldin hefur horfið eða eitthvað annað í þeim dúr hefur verið mikið reiðarslag fyrir þjóðarbúið. Það hefur verið erfitt og sárt og tekið í á meðan á því hefur staðið en síðan hafa menn jafnað sig á því. En það kemur ekki til með að eiga við um umhverfisáhrifin af þessu fyrirbæri ef í verður ráðist.

Þar eru hlutirnir ekki beint félegir, herra forseti, eins og hér hefur svo oft og rækilega verið farið yfir. Þessi framkvæmd ef hún er tekin í heild sinni, virkjunin og álverið, fékk sem sagt falleinkunn hjá matsstofnuninni sem vinnur við það að safna upplýsingum og meta umhverfisáhrif framkvæmda. Og það er algerlega borðleggjandi að hér er um að ræða langmestu röskun á íslenskri náttúru sem nokkurn tímann hefur staðið til að verði af völdum einnar framkvæmdar, og í raun og veru þó að mestallar framkvæmdir Íslandssögunnar fram að þessu væru saman lagðar er fátt þar sambærilegt nema kannski helst skógarhögg, búfjárbeit og kolagerð landsmanna frá landnámsöld hvað varðar gróðurfar landsins. Það hafa aldrei nokkurn tímann áður verið á teikniborðum t.d. hugmyndir um jafnstórfellda röskun á vatnafari í landinu og hér á að verða. Það hefur aldrei áður verið á teikniborðinu að fara með mannvirkjagerð inn á jafnstórt og ósnortið eða lítt snortið svæði og breyta því með óafturkræfum hætti um aldur og ævi, að sökkva gríðarlegum flæmum gróins lands og margs konar náttúrugersema undir leir sem aldrei verður mokaður í burtu. Að búa til gríðarlega víðáttumikla setsléttu inni á miðhálendi landsins, 40--60 ferkílómetra marflata setsléttu þakta af fínu seti og leir. Hvar hafa menn slík fyrirbæri helst? Jú, kannski á uppþornuðum vatnsbotnum á eyðimerkursvæðum.

Mér kemur fljótlega t.d. í hug eitt kannski svolítið sambærilegt fyrirbæri, afar dapurlegs eðlis, það er hinn þurri vatnsbotn í kringum það sem nú er að verða aðeins leifarnar af Aralvatninu. Og það er víst ekki mjög geðslegt, ástandið þar, eða félegt. Þar vex varla stingandi strá. Og þar geisa sand- og leirstormar. Við þurfum auðvitað ekki til fjarlægra landa. Við þurfum að vísu til Asíu eða Norður-Ameríku til að finna einhverjar hliðstæður um vatnaflutningana. En hvað varðar sambúðina við leirstorma, setsléttur á hálendinu, þurfum við ekki til útlanda. Í næsta nágrenni við fyrirhugaða setsléttu sem kemur til með að vaxa fram í Hálslón eru upptök Jökulsár á Fjöllum norðan Dyngjujökuls. Ég geri ráð fyrir því að ef menn hafa ekki komið þangað, verið þar á hlýjum sumardegi í suðvestanvindi, hafi menn a.m.k. heyrt af því sem þar gerist eða séð myndir af því. En það liggur í hlutarins eðli að það er aðeins örlítið brot af því sem gæti orðið í vændum í framhaldi af setmynduninni innan við Hálslón. Jökla er þó á sínum stað og vökvar leirurnar og þar er aldrei á yfirborði nema eins árs set í senn sem skolast síðan gjarnan burtu.

Það er heldur dapurlegt, herra forseti, af hvílíkri léttúð menn hafa í raun og veru nálgast þennan þátt málsins og öll þessi gríðarlegu umhverfisáhrif. Satt best að segja er ótrúlegt á hvaða stigi þau mál öll eru. Og ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég hef farið aftur yfir þessa hluti að hluta til núna að undanförnu til að rifja upp lesningar frá fyrri árum um þessi mál --- var að skoða þessar mótvægisaðgerðir aftur sem látið er heita svo að eigi að lappa eitthvað upp á þetta af hálfu umhvrh. --- dauðbrá mér því það var farið að fyrnast yfir það hversu fáránlegt þetta er og eiginlega hvers konar skrípaleikur, liggur mér við að segja, átti sér stað í kringum þau mál. Hugmyndir um að rykbinda botninn á hverju ári sem landgræðslustjóri vísaði frá eins og hverri annarri fásinnu. Landsvirkjun segir núna: Já, nei, við erum hættir við það. Það vill svo til að ræðumaður hefur unnið við rykbindingu. Vita menn hver eru helstu rykbindiefnin? Það eru sölt. Átti nú að reyna að salta setið þarna á hverju vori eins og menn reyna að rykbinda veg? Hugmyndir um vökvun, skurði, garða og annað í þeim dúr sem ég fullyrði að er meira og minna skrípaleikur og til þess eins að reyna að slá á gagnrýnina sem eðlilega kemur fram þegar menn sjá framan í hvað þarna gæti orðið á ferðinni.

Þessar framkvæmdir og áhættan sem þeim er samfara, herra forseti, eru náttúrlega gríðarlegar. Ég held að alvarlegust sé áhættan hvað varðar hinn efnahagslega þátt, einfaldlega gagnvart fyrirtækinu Landsvirkjun. Það á að þunglesta þetta fyrirtæki á nýjan leik með skuldum. Og ég sakna þess pínulítið að sjá áætlanir yfir þróun efnahags Landsvirkjunar. Eru þær til? Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er til spá um þróun efnahagsreiknings Landsvirkjunar ef hún ræðst í allar þessar framkvæmdir með þeim hætti sem núna stendur til, þ.e. byggingu Kárahnjúkavirkjunar og stækkun fyrir álverið á Grundartanga? Og hvernig ætlar hún að gera það? Jú, hún ætlar að gera það með því að taka lán. Mér er ekki kunnugt um að hæstv. fjmrh. ætli að auka hlutafé í Landsvirkjun, eða Reykjavíkurborg eða Akureyrarkaupstaður. Er það rétt til getið að það eigi ekki að leggja inn í þetta fyrirtæki eina einustu krónu af nýju fé? Hvað þýðir það? Hún tekur svo til allan framkvæmdakostnaðinn að láni, hún getur ekkert annað. Því Landsvirkjun fjármagnar ekki af takmörkuðum tekjum sínum sem að sjálfsögðu fara að langmestu leyti bara lóðbeint í að reyna að borga af núverandi skuldum. Hún fjármagnar ekki stóra hluti. Og hvað þýðir það? Jú, það þýðir að eigið fé Landsvirkjunar sem hlutfall af efnahagsreikningnum snarlækkar. Ég hygg að það fari úr þessum bókfærðu 30% sem það er um þessar mundir niður í a.m.k. 15% bara vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar til viðbótar er fyrirtækið í bullandi fjárfestingum annars staðar þannig að þetta fyrirtæki verður nú ekkert mikið meira en bara svona rétt ,,solvent`` á pappírnum.

Það skal enginn maður reyna að koma hér og halda því fram að það sé ekki áhætta tekin fyrir þetta fyrirtæki. Og þetta er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki. Það vill svo til, því miður auðvitað, að inni í því er raforkuframleiðslan fyrir almennan notendamarkað, ljósin okkar hér í Alþingi og inni á heimilunum okkar og allan almennan iðnað í landinu, illu heilli auðvitað. Það er að mínu mati erfðasyndin í þessum málum, að það skyldi ekki frá byrjun vera virkjað í sjálfstæðu fyrirtæki fyrir stórnotendurna. Það er auðvitað alveg yfirgengilegt þegar maður hugsar málið til baka og enn á að höggva í sama knérunn, og það ekkert smáræði. Það á að drífa milljarðatugaskuldir inn á fyrirtækið til að ráðast í þessar framkvæmdir, hundrað milljarða fjárfesting eða þar um bil í þessari einu framkvæmd sem hleður langt til jafnmiklum skuldum á fyrirtækið því hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde ætlar ekki að koma með nýtt hlutafé til að taka á móti að einhverju leyti þessari fjárfestingu. Þykir þetta góð latína í viðskiptalífinu? Er ekki venjan að ef fyrirtæki ætlar að ráðast í gríðarfjárfestingar af þessu tagi sé talið heppilegt að hlutföll eigin fjár af veltu haldist a.m.k. eitthvað í horfinu en fari ekki bara niður undir ekki neitt? Ég hefði haft gaman af því að heyra hæstv. fjmrh. fara aðeins yfir þessa þætti mála.

Áhættan þarna er náttúrlega gríðarleg, bara af þeim einu ástæðum að efnahagsreikningur fyrirtækisins veikist mjög mikið og eitthvert bókfært eigið fé er náttúrlega lítils virði ef tekjustreymið dugar ekki til að borga af lánunum, eins og gerðist á árunum eftir Búrfell og leiddi til þess að fyrirtækið varð að hækka aftur og aftur rafmagnið til almennra notenda. Vandinn verður sá núna að það mun bara ekkert duga vegna þess að svo lítill hluti raforkusölunnar kemur til með að fara á hinn almenna notendamarkað. Hann á að vísu að borga sex- til áttfalt verð fyrir þá litlu sneið af raforkukökunni sem hann fær, almenni notendamarkaðurinn. En það þýðir náttúrlega ekki að hækka upp í hið óendanlega þessi 20% eða hvað það nú verður sem fer til almennra notenda.

[21:45]

Það er opinbert ríkisleyndarmál skulum við segja, herra forseti, að raforkuverðið til Alcoa, til ameríska auðhringsins Alcoa, eigi að verða 17,4 mill á kílóvattsstund miðað við þær forsendur sem menn gefa sér í samningnum. Það hefur ekki ómerkari aðili en fréttastofa Ríkisútvarpsins, sjónvarps upplýst. Þetta gefur um 1,20 kr. á kwst. miðað við núverandi gengi, 1,20, 1,30, 1,40 kannski, ef gengið verður eitthvað nálægt venjulegu róli. Þetta gildir á sama tíma og almenningur á að borga 7,74 kr. fyrir kwst. sem hann fær, án virðisaukaskatts. Með virðisaukaskatti fer það í rétt tæpar 10 kr., algengasti taxtinn til almennra notenda. Og þetta verð, nota bene, borga mjög gjarnan minni fyrirtæki í landinu líka. Svo eru til enn hærri taxtar, t.d. til lýsingar og annarra slíkra hluta. Þar eru menn farnir að borga vel á annan tug króna fyrir kílóvattstundina. Það er yfirleitt ekki fyrr en menn eru orðnir talsvert stórir notendur hjá Rarik eða Landsvirkjun eða veitunum, komnir yfir 50 þús. kwst. eða svo, sem þeir fara að fá hagstæðara verð.

Ef mönnum skyldi nú detta það í hug, ef illa gengur og út af ber og fyrirtækið þunglestað af skuldum --- það verður eins og loðnubátur sem er að koma inn á nösunum, alveg hreint með sjóinn yfir dekkið. Fyrirtækið Landsvirkjun verður svo þungt í sjó með þessar skuldir sínar og þá vitum við að lítið má út af bera. En þá kemur til með að duga skammt að reyna að hækka raforkuverðið á almenna markaðnum og ég frábið mér nú klisjuna einu sinni enn um að það sé bannað, því það vita allir sem eitthvað vita að þar eru ótal möguleikar á að hagræða hlutunum þannig að það er engin leið að greina það í sundur.

Hvernig stóð á því að Orkubú Vestfjarða gat keyrt á talsvert lægra raforkuverði til sinna notenda en þeir aðilar sem skiptu við Landsvirkjun? Hvernig stóð á því? Þetta var tiltölulega ungt fyrirtæki sem hafði verið í mikilli og örri uppbyggingu en það var búið að ná þeim árangri í rekstri að það gat boðið upp á talsvert lægri orkutaxta. Gæti það hafa verið vegna þess að það var laust við að niðurgreiða rafmagn ofan í stóriðju? Það skyldi nú ekki vera. Og hvernig stendur á því að bændur geta reist litlar vatnsaflsvirkjanir sem ættu auðvitað að vera óhagkvæmari, ef maður hugsar til hagkvæmni stærðarinnar, en stærri vatnsaflsvirkjanir? Og ef þeir voru röskir við að borga fjárfestinguna niður með svipaðri verðlagningu á sjálfan sig og ef þeir hefðu keypt af Rarik þá voru þeir stundum tíu ár að afskrifa virkjunina og bjuggu við nokkurn veginn ókeypis rafmagn eftir það. Það þurfti að skipta um legur kannski á tíu ára fresti. Jú, það er náttúrlega vegna þess að varla er til hagkvæmara fyrirbæri en vel heppnuð vatnsaflsvirkjun í bergvatnsá til dæmis, ef menn fá að njóta afrakstursins af því að hafa borgað þá fjárfestingu niður, vegna þess að rekstrarkostnaðurinn er mjög lítill.

Af hverju njóta þá ekki Íslendingar þess í formi miklu, miklu lægra rafmagnsverðs en aðrar þjóðir? Hvernig stendur á því að algjörlega afskrifaðar Sogsvirkjanir, Laxárvirkjun og fleiri slíkar virkjanir, sem fara langt með að duga fyrir notendamarkaðinn, nægja þá ekki til að skaffa okkur hér um bil ókeypis rafmagn? Getur verið að það sé vegna þess að það er inni í þessari stóru hít, þessari miklu púllíu sem er jafnóðum hlaðin með skuldum í þágu erlendrar stóriðju um leið og menn fara að sjá til lands?

Útkoman er sú að þetta orkuríka land, Ísland, með þessa einstöku möguleika til að skaffa almenningi hagkvæma orku, býr við hærra orkuverð en flest nálæg lönd. Það þarf afbrigðilegt ástand og orkuskort í Skandinavíu t.d. til þess að verðið þar fari upp fyrir það sem er á Íslandi. Almennur iðnaður á Íslandi greiðir hærra verð, mun hærra verð fyrir rafmagn en léttur iðnaður í nágrannalöndunum. Það þurfti sérstaka nefnd og sérstakar aðgerðir til þess að reyna að leita leiða til þess að ná niður rafmagnskostnaði til íslenskrar garðyrkju þannig að hann yrði sambærilegur við samkeppnislöndin, með öðrum orðum það stendur á prenti í skýrslu hjá landbrh. að íslenska garðyrkjan borgi talsvert hærra rafmagnsverð, eins og málin standa í dag, en gert er í nágrannalöndunum.

Auðvitað er síðan öll áhættan önnur til staðar sem liggur í að framkvæmdakostnaður fari fram úr, að álverðið fari niður, að sveiflur í efnahagslífi okkar verði okkur óhagstæðar að þessu leyti og áhættan sem fólgin er í umhverfisáhrifunum. Gleymum svo ekki þeirri áhættu í þessu máli sem mér þætti kannski einna dapurlegust ef út úr kæmi, þ.e. að svo verði þetta ekki það bjargræði fyrir byggð og mannlíf á Austurlandi sem sumir menn halda og hafa tekið trú á að verði. Það yrði nú dapurleg útkoma af öllu saman ef menn fórnuðu náttúrunni, skuldsettu Landsvirkjun, tækju á sig alla þessa áhættu að öðru leyti og svo kæmi í ljós að þegar mesta gullöldin og gleðitíðin á framkvæmdatímanum yrði um garð gengin þá reyndist það ekki eins mikið úrræði í sambandi við veika stöðu landsbyggðarinnar og ekki einu sinni á þessu mesta áhrifasvæði virkjunarinnar á Miðausturlandi að reisa þar einn slíkan vinnustað, þó bústinn sé, ef engar aðrar grundvallarbreytingar verða á þróun atvinnulífs og mannlífs og byggðarforsendum eða undirstöðum þess á landsbyggðinni.

Herra forseti. Ég vil gera svo aðeins að umtalsefni einn hlut, og það ber vel í veiði að hæstv. fjmrh. er viðstaddur, þ.e. fjármögnun Landsvirkjunar á þessari fjárfestingu. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. sé þar vel upplýstur um gang mála. Það væri auðvitað gott ef hæstv. iðnrh. væri hér líka og formaður iðnn., en hann er ókyrr mjög undir umræðunni.

Ég hefði gaman af því að vita hvernig Landsvirkjun er að undirbúa fjármögnun á þessum allt að 100 milljarða pakka sínum sem fram undan er þá ef ráðast á í Kárahnjúkavirkjun. Ég hef um það vissar upplýsingar, að ég tel, m.a. erlendis frá, úr bankaheiminum úti í Evrópu, að þar sé nú talað um að Landsvirkjun sé að leita hófanna hjá kunnuglegum aðilum sem hún hefur áður leitað aðstoðar hjá um fjármögnun á þessum pakka. Það gætu verið bankar eins og í Hollandi, Japan, Sviss, Bandaríkjunum og Evrópski fjárfestingarbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn, sem ætlunin væri að banka upp á hjá. Það væri fróðlegt að vita hvort rétt er. Það skyldi t.d. ekki vera að þetta væru aðilar sem Landsvirkjun hefur áður verið leita til um stór fjárútboð, eins og Merill Lynch, eins og Ambro, eins og Sumitomo Mitsui Banking Corporation, eins og J.P. Morgan, Warburg og þessir snillingar allir og svo NIB og Evrópski fjárfestingarbankinn? Segjum nú að þetta sé ekki ólíkleg tilgáta, að það eigi að leita ekki síst kannski hófanna hjá NIB, sem oft hefur lánað til svipaðra verkefna hér, og Evrópska fjárfestingarbankans.

Þá vil ég spyrja: Er búið að fara yfir það að þessir bankar fáist til að lána út á svona verkefni vegna umhverfisáhrifanna? Hvernig er það með þessa banka? Hafa þeir ekki einhver viðmið og einhvern standard í þessum efnum? Jú. Það vill svo til a.m.k. að ég veit að Norræni fjárfestingarbankinn hefur það og stærir sig nú ekki lítið af því stundum hversu umhverfisvænn hann sé orðinn, og það er vel. Því er mjög haldið fram að Norræni fjárfestingarbankinn sé að fjármagna verkefni á sviði umhverfismála í t.d. Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi, og það er vel.

En Norræni fjárfestingabankinn er auðvitað líka að fjármagna ýmiss konar uppbyggingu og mannvirkjagerð og framkvæmdir. Og þá setur hann ákveðnar kröfur og hefur reglur um mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda og það er ekki veitt lán nema þar séu tilteknir hlutir uppfylltir og í lagi. Norræni fjárfestingarbankinn hefur sett sér strangar vinnureglur í þessum efnum, það eru sem sagt umhverfisreglur eða umhverfisvinnureglur, ,,miljörutiner`` heitir það á sænsku, hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Framkvæmdirnar eru flokkaðar eftir umhverfisáhrifum, hversu mikil þau verði, í A-, B- og C-flokk. Í A-flokknum eru þá þær framkvæmdir sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif eða framkvæmdir þeirrar tegundar sem ætla má að stærðar sinnar vegna eða eðlis hafi umtalsverð umhverfisáhrif. Flokkur A er þá sem sagt sá sem mest áhrifin hefur að þessu leyti, hefur ,,omfattande potentiella miljökonsekvenser``, ef ég má sletta því, með leyfi forseta, sem sagt umfangsmikil möguleg eða ,,potentiell`` umhverfisáhrif. Og hvers konar framkvæmdir eru það nú sem þar eru taldar upp efst á listanum? Jú, það eru orkuver sem byggja á kolum, olíu, torfi eða gasi, og það eru vatnsaflsvirkjanir ,,vattenkraftverk``. Reyndar eru líka stíflubyggingar, skurðir, stór jarðgöng, olíuhreinsunarstöðvar og ýmislegt fleira talið þarna upp. Það er sem sagt bara þannig að sjálfkrafa fara stór vatnsaflsorkuver í þennan fyrsta flokk hjá NIB. Og þá skal fara fram mat á umhverfisáhrifum. Gögnin eru tekin, þeim er safnað saman hjá bankanum sjálfum og þau eru lögð fyrir stjórn og þau eru hluti af grundvelli afgreiðslu lána.

Er alveg öruggt að Norræni fjárfestingarbankinn eða Evrópski fjárfestingarbankinn hafi áhuga á því að lána í framkvæmd sem féll í umhverfismati? Gleymum því ekki að hún féll í umhverfismati. Úrskurður Skipulagsstofnunar var sá að þessi framkvæmd hefði svo umfangsmikil neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér að ekki væri hægt að réttlæta hana. Ég er ekkert viss um að þessir bankar taki það endilega sem gilt að svo komi pólitískur svokallaður umhverfisráðherra og snúi því við með handafli, vegna þess að það er yfirleitt ekki þannig sem hlutirnir ganga fyrir sig í þessum löndum. Það er séríslenskt fyrirbæri að hægt sé að fara þannig með málin. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum mjög víða hefði úrskurður skipulagsstjóra verið endanlegur.

Ég leyfi mér að efast um að það verði almenn gleði t.d. í hópi sænskra, norskra og finnskra stjórnarmanna í Norræna fjárfestingarbankanum með að fjármagna þetta umdeilda verkefni. Það gæti gerst líka með evrópska bankann. Þeir kunna að hafa frétt af því t.d. að sænsk verktakafyrirtæki flúðu af hólmi vegna þess að þau höfðu ekki áhuga á því að láta draga sig inn í umhverfissóðaskap af því tagi sem hér um ræðir.

Komi sem sagt til þess að menn ætli að leita hófanna hjá þessum bönkum þá býst ég við því að þeir muni draga upp sína umhverfisstaðla, sínar vinnureglur í sambandi við umhverfisáhrif framkvæmda, og verða býsna tortryggnir á það að fara að veita fyrirgreiðslu til framkvæmdar af þessu tagi. Það væri fróðlegt að heyra hvar þessi mál eru á vegi stödd hjá hæstv. ríkisstjórn og hjá Landsvirkjun, hvort það sé nú öruggt að þetta renni allt saman í gegn eins og bráðið smér, því að ég veit að margir einkabankar hafa lagt metnað sinn í að setja sér mjög sambærilegar reglur og hafa dregið sig út úr t.d. fjármögnun framkvæmda þar sem þessir hlutir eru ekki í lagi, af því að mönnum er ekkert orðið sama um það lengur hvaða orð þeir fá á sig vegna framgöngu sinnar að þessu leyti.

Herra forseti. Eins er afar sérkennilegt að eiga að afgreiða þessi mál hér, og eiginlega alveg með ólíkindum að það skuli eiga að bjóða upp á það, þegar t.d. þeir hlutir eru á vegi staddir eins og raun ber vitni bæði gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hvað varðar mat á því hvort þetta fyrirkomulag allt saman og umfangsmikill ríkisstuðningur við þessa framkvæmd standist evrópskar samkeppnisreglur, eða þegar málin eru fyrir Hæstarétti eða öllu heldur eru fyrir dómstólum, vegna þess að búið er að kæra til dómstóla mat á umhverfisáhrifum og Hæstiréttur er búinn að úrskurða að dómstólarnir skuli fjalla efnislega um það mál. Það féll úrskurður um það núna fyrir nokkrum dögum. En það er auðvitað með þetta eins og allt annað að það verkar ekki á hæstv. ríkisstjórn frekar en vatn á gæs. Það er eins og að skvetta vatni á gæs að því er virðist. Og það er alveg sama hvaða rök eru færð fram, á þau er ekkert hlustað.

[22:00]

Herra forseti. Aðrir sem hér hafa talað á undan mér, bæði hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hafa gert efnahagsáhrif og ruðningsáhrif þessarar fjárfestingar að ítarlegu umtalsefni og ég skal tímans vegna ekki fjölyrða um það. Mér er kannski ekkert síður ofarlega í huga þær krossgötur sem ég tel að við séum að mörgu leyti stödd á í sambandi við þetta mál hvað varðar grundvallaráherslur og stefnumótun varðandi atvinnulíf okkar, uppbyggingu okkar, áherslur í þessum efnum. Það er nú þannig að flestar þjóðir sem hafa metnað til að bera í þessum efnum reyna að hafa einhverjar áherslur uppi við, einhverjar meginlínur sem þær telja skynsamlegar varðandi þróun atvinnuhátta sinna og efnahagslífs síns, þar á meðal vilja menn gjarnan leggja áherslu á framsæknar atvinnugreinar sem líklegar eru til þess að skila arði og skila ábatasömum viðskiptum og vel launuðum störfum inn í framtíðina. Það hefur lítil kortlagning farið fram á því hvort þetta er skynsamleg áhersla í þeim efnum, að ryðja hér inn í hagkerfið framkvæmdum sem verða svo umfangsmiklar að þær ýta meira og minna öllu öðru frá sér á meðan. Það er bara eins og einhver þungavigtarmaður, sumoglímukappi, komi inn á barnaheimili með olnbogana út í loftið og ryðji öllu öðru til hliðar. Þetta verður þannig, að taka þessa 200 milljarða króna innspýtingu inn í hagkerfi landsins á örfáum árum. Og hæstv. fjmrh. bliknar ekki. En það er ekki nóg. Það á að drífa allt í gang á Grundartanga líka, helst samtímis. Síðan eru menn með plön um stækkun suður í Straumsvík. Það eru Rússar fyrir norðan að tala bæði um álver og súrálver. Og eitthvað eru Kínverjar að reka hingað nefið. Hvernig hugsar hæstv. fjmrh. sér þetta? Eða hefur hann þá þægilegu afsökun að segja að efnahagsmál séu á könnu forsætisráðherra og þetta sé bara hjá iðnaðarráðherra? Það er nú kannski fullmikil einföldun.

Annað atriði ætla ég svo að taka hér til umfjöllunar sem varðar hæstv. fjmrh. beint svo ég klári þá hluti sem sérstaklega snúa að hæstv. ráðherra og það varðar skattareglurnar. Nú hafa aðrir farið yfir það og ég ætla ekki að endurtaka þá hluti sem ég tel að aðrir hafi gert tæmandi skil, en auðvitað vakti það mikla athygli þegar maður sá að skattaákvæði eru í raun klæðskerasaumuð utan um þetta fyrirtæki nánast að öllu leyti. Það hefði verið miklu einfaldara að telja upp hvaða ákvæði íslenskra skattalaga ættu við um fyrirtækið og vísa svo að öðru leyti bara til sérákvæðanna. Þetta er eins og argasti brandari. Að byrja á því að taka það fram í frumvarpstexta að um fyrirtækið skuli gilda ákvæði íslenskra skattalaga, en undanþiggja svo það sama fyrirtæki íslenskum skattalögum nánast að öllu leyti, búa til sérákvæði um nánast hvern einasta skatt sem varðar yfir höfuð lögaðila í landinu. En þannig er það. Það er sannarlega þannig, eða hvað, hæstv. fjmrh.? Ég vil bara að ráðherrann nefni mér einhvern einn einasta skatt sem fyrirtækið hefur ekki að einhverju leyti einhverja sérstöðu gagnvart. A.m.k. er vari fyrir því að ákvæðin kynnu að breytast í framtíðinni. Það sem sagt neglir niður skattaívilnanir sínar eiginlega að öllu leyti langt inn í framtíðina. Það er t.d. þannig, svo við aðeins hlaupum yfir það, að sett er þak á tekjuskattsprósentuna. Hún fer aldrei upp fyrir þessi 18% sem hún er í dag, mun fylgja öðrum fyrirtækjum niður en ekki fara upp ef þetta yrði einhvern tímann hærra, við skulum segja vegna grundvallarbreytinga í skattamálum sem við vildum gera, sem kannski fælu í sér að létt yrði einhverjum sköttum af atvinnulífinu, við skulum segja launatengdum kostnaði atvinnulífsins, vegna þess að menn vildu örva atvinnusköpun, en í staðinn greiddu fyrirtæki sem högnuðust hærri tekjuskatt. Þá væri það ekki hægt gagnvart Alcoa, þeir eru með ákvæði fyrir því.

Rekstrartöp. Sama gildir þar. Lágmark níu ár, en fyrirtækið er varið fyrir breytingum. Það eru sérákvæði um fyrningar. Það er undanþegið eignarskatti. Það er undanþegið iðnaðarmálagjaldi. Það er sérákvæði um fasteignaskatt, 1% af tiltekinni upphæð. Það er undanþegið gatnagerðargjaldi. Það er sérákvæði um byggingarleyfisgjald og slíka hluti. Sér\-ákvæði um stimpilgjöld. Það er undanþegið ákvæðum laga um öryggi raforkumannvirkja. Sérákvæði eru um skattlagningu arðs. Sérákvæði um skattlagningu arðgreiðslna út úr landinu, afdráttarskattinn svokallaða hygg ég að það sé kallað. Það er sérákvæði um heimild til samninga um vörugjöld. Og eins og hér hefur verið ítarlega rætt er sérákvæði um álagningu mengunargjalda. Fjárfestingarvörur eru tollfrjálsar. Einnig það sem keypt er hér innan lands, það er líka tollfrjálst. Það fær þá endurreiknaðan tollinn af því. Og síðast en ekki síst, og það ætla ég að gera hér að umtalsefni sérstaklega, það er sérákvæði um frádrátt vaxtakostnaðar. Það vakti sérstaka athygli mína.

Hvers vegna í ósköpunum þarf fyrirtæki af þessu tagi sérákvæði um það sem hefur auðvitað lengi verið í lögum, að eitt af því sem fyrirtæki má draga frá tekjum áður en kemur til uppgjörs og síðan skattlagningar hagnaðar, er vaxtakostnaður, samanber lög um tekju- og eignarskatt. Ég spurði sjálfan mig og velti þessu fyrir mér: Bíddu, til hvers? Hvers vegna þarf fyrirtækið einnig að vera varið að þessu leyti? Þarf þetta gælufyrirtæki að vera með belti og axlabönd í öllum tilvikum? Ef einhvern tímann kæmi til þess að gerðar yrðu einhverjar breytingar á reglum um frádráttarbærni vaxtakostnaðar frá tekjum áður en til skattlagningar kemur, áður en að því kæmi að fyrirtækið gerði endanlega upp reikninga sína og færi þá að borga þessi rausnarlegu mögulegu 18% í tekjuskatt? Jú, það skyldi nú ekki vera að þar væri fiskur undir steini? Hefur hæstv. fjmrh. látið fara vandlega yfir það? Hvernig skyldu samningarnir halda að þessu leyti? Og það sem mestu máli skiptir hér: Hvernig ætlar Alcoa að fjármagna fyrirtækið, hina íslensku einingu sem rekur álverið, hinn íslenska skattaðila sem verður að vísu í 100% eigu þess? Hvernig verður hann fjármagnaður? Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari því og fari yfir það, vegna þess að ástæða er til að hafa hér varann á.

Athygli mín hefur verið vakin á því af aðila sem ég reikna með að þekki þessa hluti vel, því að þær upplýsingar sem ég fékk þaðan benda til þess að þar séu á ferðinni menn sem kunna á þessa hluti. Þarna gæti glitt í alkunna aðferð auðhringa þegar þeir eru að búa sér út sem hagstæðust skilyrði til þess að flytja arð og gróða milli landa. Hvernig gæti það gerst? Til þess að losna við að borga að sem mestu leyti skatta hér og koma þeim á flot innan samsteypu sem er með starfsemi, útibú og bankareikninga og hvað það nú er vítt og breitt um heiminn og hefur kannski mikla möguleika til þess innan sinnar keðju með verðlagningu aðfanga og söluafurða að möndla með þetta hvort sem er, en svo eru til aðferðir sem eru alþekktar til að ástunda skattsniðgöngu.

Það er sem sagt það að íslenska fyrirtækið, álfyrirtækið, --- á það ekki að heita Fjarðaál? --- í 100% eigu Alcoa, verði mjög lítið fjármagnað með eigin fé. Menn munu ekkert skipta sér af því þar sem risafyrirtæki á í hlut, sem ræður því í sjálfu sér sjálft og er ekkert upp á aðra komið í sambandi við það hvernig það stendur að málum, hefur lánstraust og enginn efast um það sjálfsagt að það geti fengið lán til að fjármagna þetta fyrirtæki, en það gerir það nánast 100% með lánsfé. Þetta verður það sem kallað er ,,fin capitalization`` á ensku. Hefur fjármálaráðherra heyrt getið um þetta? Hvaða afleiðingar hefur það? Jú, fjármagnskostnaður fyrirtækisins verður gríðarlegur vegna þess að það er nánast alfarið fjármagnað með lánsfé. Og vaxtagreiðslurnar af þessum lánum verða mjög háar, hagnaðurinn enginn. Þá gæti verið gott að vera varinn fyrir því að það verði nokkurn tímann hróflað við ákvæðunum um að draga megi allan vaxtakostnað án tillits til nokkurra fjármögnunarreglna frá áður en til skattgreiðslna kemur. Og það fær fyrirtækið þarna að sjálfsögðu eins og öll önnur sérréttindi og sérákvæði sem það hefur beðið um.

Þetta, herra forseti, er alþekkt aðferð til skattsniðgöngu að fyrirtæki byrjar með gríðarlegan skuldabagga, gjaldfærir vextina í sínum rekstri og þeir eru síðan greiddir úr landi og það er enginn afdráttarskattur á vaxtagreiðslurnar sem fara út og þannig gæti fyrirtækið skilað litlum eða engum tekjuskatti um langt árabil í ríkissjóðinn hjá fjármálaráðherra sem þá verður að vísu örugglega orðinn einhver annar en núverandi hæstv. ráðherra, Geir Hilmar Haarde.

Ég held, herra forseti, að gaman væri að fá aðeins upplýst hversu rækilega hefur t.d. verið farið yfir þetta. Kannski finnst mönnum þetta allt í lagi og það aukaatriði að vera að tala um að þessi aðili borgi einhverja skatta, því að gróðinn af þessu verði svo gríðarlegur hvort sem er að menn eigi ekki að vera að hafa af þessu áhyggjur, en það mundi kannski stinga dálítið í augu ef það kæmi á daginn eftir allt saman að til viðbótar því að þurfa að niðurgreiða ofan í þetta fyrirtæki raforkuna, þá kæmi það ár sinni þannig fyrir borð að það skildi sáralitla skatta eftir í landinu af sínum umfangsmikla rekstri, 5% aðeins af afdráttarskatt af arðgreiðslunum og kæmist að mestu leyti hjá því að borga tekjuskatt með skattsniðgönguaðferðum af þessu tagi.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram af ýmsum að bygging álvera á Íslandi --- það má stundum skilja hæstv. umhvrh. þannig, svo maður tali nú ekki um iðn.- og viðskrh. --- sé einstakt framlag til umhverfismála í heiminum af því að hér sé notuð hrein endurnýjanleg orka og þá er dæminu væntanlega stillt upp þannig að álframleiðsla hér komi alltaf í staðinn fyrir framleiðslu með kolum eða olíu eða einhverjum slíkum mengandi jarðefnaeldsneytisorkugjöfum erlendis. Og að sjálfsögðu höfum við fengið að heyra þennan söng um Alcoa. En hvað er á spýtunni þar? Jú, það er upplýst að Alcoa sé ekki fyrst og fremst að auka álframleiðslu sína með álverinu hér, jafnvel ekki neitt. Það sé að loka gömlum álverum í Bandaríkjunum og flytja framleiðsluna hingað. Og það sem meira er, að álverin sem verið er að loka í Bandaríkjunum fá raforku, tvö af þremur, frá vatnsaflsvirkjunum og það er engin breyting að því leyti. Munurinn er bara sá að hér fær Alcoa rafmagnið á niður undir einum þriðja af því sem það borgar í Bandaríkjunum, alla vega á ekki meira en helming af því verði sem það þyrfti að borga í Bandaríkjunum ef það endursemdi um orku til álframleiðslu þar og kannski ekki nema einn þriðja af því sem leifarnar af álframleiðslu í Evrópu borga. Þá skilur maður betur að þeir skuli koma hingað. Og auðvitað. Hver fer ekki á útsölu ef honum býðst þar góð vara á helmings eða þriðjungs verði?

Þá er hins vegar orðið lítið um hin jákvæðu hnattrænu umhverfisáhrif af málinu, ef álverum er bara lokað vestan hafs sem hvort sem er fengu rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum, eitt að vísu kannski frá kola- eða brúnkolaorkuveri. Og gleymum þá ekki því að orkan úr Kárahnjúkavirkjun verður ekkert óskaplega umhverfisvæn. Verður hún það? Nei. Hún verður hvorki sjálfbær í þeim skilningi að virkjunin geti haldið áfram um aldur og ævi á grundvelli endurnýjanlegrar orku og hún verður sko víðs fjarri að vera umhverfisvæn af því að hún veldur gríðarlegum neikvæðum óafturkræfum umhverfisáhrifum. Og það stendur hvergi í þessum litteratúr að slíkt sé umhverfisvænt, þvert á móti. Það er það sem menn eiga ekki að gera.

[22:15]

Í raun er hvorki um endurnýjanlega orku að ræða þegar litið er til lengri tíma, sem hér verður að sjálfsögðu að hafa til viðmiðunar, og þaðan af síður er hún umhverfisvæn í grunninn. Eins og ágætlega kom fram í hinni mögnuðu mynd Ómars Ragnarssonar er Kárahnjúkavirkjun og Hálslón sem þar á að mynda að þessu leyti eins og náma sem tæmist, bara með öfugum formerkjum. Í þessu tilviki fyllist náman. Lónið fyllist í staðinn fyrir að venjulegar námur tæmast, eru þar með búnar og verða ekki notaðar meir. En hér fyllist náman og verður ónothæf á svona um 250--400 árum. Það er auðvitað ljóst að nokkru áður en lónið verður endanlega fullt er virkjunin ónýt. Þá er miðlunargetan svo til að engu orðin. Ár frá ári munu fara vaxandi vandamál sem fylgja setburði inn í göngin o.s.frv., þegar lónið verður orðið lítið og minni tími fyrir gruggið til að falla út.

Herra forseti. Ef betur er farið yfir þetta þá hrynja þessar röksemdir einnig. Ég held að stór hluti íslensku þjóðarinnar upplifi það ekki svo í dag að þetta sé sérstaklega umhverfisvæn virkjun.

Ég hef áður reynt að nefna í þessari umræðu, herra forseti, að ég er ekki viss um að Íslendingar hafi allir áttað sig á hversu einstakt fyrirbæri það er í heiminum að reyna að beisla kolmórauðar jökulár. Það er nánast hvergi gert nema á Íslandi. Þar sem sambærilegar aðstæður er að finna í heiminum er mér ekki kunnugt um að menn séu mikið að reyna að reisa orkuver. Hvar er það? Jú, það er á Svalbarða að einhverju leyti. Það er að litlu leyti á Grænlandi. Og í miklu minni mæli annars staðar þar sem jökla er að finna eins og í Noregi, í Ölpunum, í nýsjálensku Ölpunum, Suður-Ameríku o.s.frv.

En Ísland er að þessu leyti nánast algerlega einstakt. Hér er stærsti jökull utan heimskautasvæðanna. Ef við teljum Grænland með þeim eru bara tveir staðir á hnettinum þar sem eru stærri jöklar, þ.e. Suðurheimskautið, Antarktíka, og Norðurheimskautið og Grænland. Ísland og Vatnajökull eru algerlega í sérflokki. Það sem gerir hann mjög sérstakan er að hann er algjör þíðjökull. Hitastigið við botninn er núll, ísinn er ekki frosinn við botninn. Þar verður gríðarlegt rof eða efnisvinnsla og árnar sem undan jökulsporðunum koma bera fram með sér óhemju af seti. Eins og þetta væri nú ekki nóg, herra forseti, er Vatnajökull líka einstakur nánast í sinni röð í heiminum vegna þess að undir honum, undir miðju Íslandi, er annar stærsti möttulstrókur hnattarins þar sem gríðarlegt uppstreymi varma úr iðrum jarðar og bráðinnar kviku skilar upp undir yfirborð jarðarinnar óhemju orku sem verður til langt niðri í djúpi hnattarins við niðurbrot á geislavirkum efnum.

Herra forseti. Þetta er að verða nokkuð einstök blanda enda er það hverju orði sannara að Vatnajökull er einstakt fyrirbæri í heiminum. Vatnajökull og svæðið umhverfis hann er sennilega einstakasta og merkilegasta fyrirbæri sem Ísland hefur upp á að bjóða. Það eina sem er svo algerlega sérstakt fyrir Ísland að hvergi nokkurs staðar annars staðar á hnettinum er neitt sambærilegt að finna.

Á Hawaii er gríðarlega öflugur möttulstrókur sem skilar líka miklum varma upp á yfirborð hnattarins, en þar er enginn jökull. Það er hvergi annars staðar í heiminum þetta magnaða samspil elds og ísa sem Vatnajökull hefur upp á að bjóða. Svæðið umhverfis hann ber auðvitað keim af þessu og þar á meðal og ekki síst þetta magnaða svæði norðan og norðaustan jökulsins sem hér á í hlut og á að verða vettvangur þessara miklu framkvæmda.

Þetta hafa menn umgengist, herra forseti, af talsverðri léttúð. Stundum er ekki á mönnum að heyra að þetta sé eitthvað sem sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af eða velta mikið fyrir sér, að menn kunni að hafa í höndunum þessi einstöku fyrirbæri sem raun ber vitni.

Herra forseti. Það sem ég ætla aðallega að gera að umtalsefni að lokum er hin sérstaka staða sem uppi er í þessu máli og leitað hefur á hugann á síðustu vikum þegar þessi mál eru að komast hér á endastöð umfjöllunar sinnar á Alþingi, í bili a.m.k. hvað sem verður. Það er ákvörðunin sem menn standa frammi fyrir. Það er gjörningurinn sem slíkur og eðli hans. Það er í bígerð að taka ákvörðun og ráðast í framkvæmd sem er einstök í Íslandssögunni og hefur þetta sérstaka eðli að valda gríðarlegum óafturkræfum breytingum á náttúru landsins Íslands sem aldrei verða aftur teknar, sem aldrei verða aftur bættar. Enginn mannlegur máttur mun nokkurn tímann, hvorki peningar, hugvit né orka mannsins, mun nokkurn tímann ná að bæta þær gjörðir. Það er borðleggjandi. Verði þessum gersemum sökkt verða þær aldrei endurheimtar undan milljónum og aftur milljónum og þúsundum milljóna tonna af sandi og leir sem ofan á þær hlaðast.

Þá fer maður að velta fyrir sér, herra forseti, eigi á annað borð á að ráðast í svona framkvæmd eða taka svona ákvörðun: Hvernig á að gera það? Er þetta rétt eins og að ákveða hvernig húsgögn verða sett inn í eina opinbera byggingu? Eða er þetta rétt eins og að ákveða eitthvað af þeim toga, taka einhverja léttvæga dægurákvörðun, jafnvel þó að hún væri nokkuð stór? Er þetta sambærilegt við að byggja eitt stykki tónlistarhús eða ráðast í einhverja slíka framkvæmd? Nei, því er alltaf hægt að breyta. Það er alltaf hægt að rífa það eða gera á slíkum framkvæmdum allar þær breytingar sem menn vilja. Þær eru afturkræfar. En þetta er sem sagt ekki afturkræft.

Herra forseti. Þegar svona stórar framkvæmdir eiga í hlut, að gera gríðarlegar óafturkræfar breytingar á sjálfri náttúru landsins, spyr maður: Hver er siðferðileg staða einnar kynslóðar í landinu til að ákveða slíkt? Og ekki einu sinni heillar kynslóðar því að það er kannski hálf þjóðin sem er sátt við þessa ákvörðun. Það liggur nokkurn veginn fyrir að þjóðin er þverklofin í málinu. Í raun eru það ekki það margir sem í skoðanakönnunum gefa sig upp hlynnta þessari ákvörðun sem stjórnvöld eru búin að keyra áfram með afli sínu og offorsi í krafti framkvæmdarvaldsins í landinu, í krafti peninga ríkisins, í krafti opinbers fyrirtækis eins og Landsvirkjunar og ráðuneyta. Margir Íslendingar telja vitanlega í kjölfar þess að þeir eigi að styðja það. En það eru örfáir menn, herra forseti, en ekki hálf eða heil kynslóð í landinu sem er að taka þessa ákvörðun. Það eru örfáir menn. Hver er siðferðilegur réttur þeirra til þess að taka svo gríðarlega stóra ákvörðun um óafturkræfa hluti sem breyta jafnmiklu á landi okkar, hluti sem aldrei verða aftur teknir?

Ég fullyrði a.m.k., herra forseti, að menn eiga ekki að gera það eins og að þessu hefur verið unnið af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Það á t.d. ekki að vera einn pólitískur umhverfisráðherra sem tekur þessa ákvörðun með pólitísku handafli, með því að snúa við faglegum úrskurði um að framkvæmdin gangi ekki upp af umhverfisástæðum. Finnst einhverjum manni heil brú í því ef svo ætti að vera? Ég tel að vísu ekki, að það sé hæstv. umhvrh. Sif Friðleifsdóttir sem eigi að fara á spjöld sögunnar sem eini einstaklingurinn sem ber ábyrgð á þessu máli, sem réð því með sínum pólitíska viðsnúningi á úrskurði Skipulagsstofnunar. Er heil brú í því? Nei, auðvitað ekki.

Hæstv. umhvrh. mundi sjálfsagt reyna að vísa til samábyrgðar ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í málinu. Það má svo sem setja dæmið þannig upp. En þó það væru t.d. formenn stjórnarflokkanna með hæstv. umhvrh. --- ég hef svo sem enga sérstaka sannfæringu fyrir því að sumir aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni séu heitir stuðningsmenn þessa máls, þó þeir verði auðvitað að láta svo í orði kveðnu --- eða þó það væri bara hæstv. utanrrh. einn sem bæri þessa ákvörðun, þá kemur allt í sama stað niður: Hver er siðferðilegur réttur örfárra einstaklinga, þó að í valdastólum séu í augnablikinu, til að taka svo gríðarlega ákvörðun sem aldrei verður aftur tekin? Ég held að hann sé mjög hæpinn. Ef eitthvað af þessu tagi á að gerast tel ég það svo stórt og afdrifaríkt og skipta svo miklu máli að þjóðin hafi sæmilega tilfinningu fyrir því hvernig að málinu var staðið, að allur undirbúningurinn, allt ferlið og síðan ákvarðanatakan, verði að vera nánast óaðfinnanleg, í þeim skilningi að það hefi verið algerlega rétt og faglega að öllu staðið.

Í raun held ég að engin aðferð sé til, að lokum, til að taka svona ákvörðun sem breytir landi okkar, breytir gangi Íslandssögunnar í veigamiklum mæli, önnur en að láta þjóðina sjálfa bera þá ábyrgð á henni. Eftir vandaðan, lýtalausan undirbúning, kynningu og reifun á málinu yrði þjóðin sjálf að ráða því: Vill hún gera það eða ekki? Nógu erfitt er það hlutskipti samt fyrir þá kynslóð, kannski rétt rúmlega helming einnar lifandi kynslóðar í landinu sem bæri ábyrgð á niðurstöðunni. Hún verður vegin og dæmd í framtíðinni af þeim sem þá koma til með að skoða þennan atburð Íslandssögunnar og velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum stóð á því að þetta var gert eða þá ekki gert.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þetta sé ekki sambærilegt við að örfáir menn ætluðu allt í einu á einu kjörtímabili, kannski bara menntamálaráðherra, að taka grundvallarákvörðun sem gæti haft varanleg áhrif á stöðu íslensku tungunnar, áhrif á íslenska tungu í framtíðinni. Það hefur nú stundum verið sagt: Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein eða eitthvað svoleiðis. Þá hafa menn landið, tunguna og þjóðina hlið við hlið sem þrjár örlagabreytur Íslandssögunnar. Þarna á landið í hlut.

Segjum nú að einhverjum menntamálaráðherra dyttu þau ósköp í hug að ákveða að hætt yrði að kenna á íslensku í framhaldsskólum og háskólum af því það væri svoddan vesen, það væri svo hagkvæmt að gera það ekki. Það er að vísu talsvert farið að kenna á erlendum tungum í æðri skólum landsins. En segjum að einhverjum dytti í hug að gera svona og þetta væri knúið í gegn að lítt athuguðu máli, þjóðin ekki spurð álits, að menn sætu uppi með einhverja slíka ákvörðun. Af einhverjum ástæðum kynni að reynast erfitt að snúa henni við. Í þessu tilviki væri svona ákvörðun þó væntanlega afturkræf en hugsum okkur að þær aðstæður væru að þessu væri ekki hægt að breyta til baka og þetta leiddi það af sér innan tíðar að menn misstu tökin á stöðunni og hættu að geta varið tunguna. Ég er ansi hræddur um að ýmsum þætti þá að menn hefðu tekið sér ansi mikið vald til að fara út í slíkar ákvarðanir. Það er oft talað um sjálfstæði eða fullveldi þjóðarinnar í sömu andrá. Engum manni dettur í hug að teknar séu afdrifaríkar ákvarðanir gagnvart því nema þannig að þjóðin ákveði það sjálf. Ég geri ekki ráð fyrir því að nokkrum einasta manni detti í hug að við tækjum ákvarðanir sem gætu haft varanleg áhrif á stöðu íslenskrar tungu í samfélagi okkar nema þjóðin réði slíku sjálf. Þetta er sambærilegt.

[22:30]

Það er algerlega jafnfráleitt að mínu mati að ætla að knýja ákvörðun um svona afdrifaríkan örlagahlut sem varðar í raun og veru framtíð landsins, ímynd landsins, ráðstöfun hálendisins, mestu náttúrugersema Íslands, nema að menn nálgist málið með sambærilegum hætti og grundvallarákvarðanir af þessari stærðargráðu. Kosningalög þurfa fyrir þjóðina og aðrar slíkar breytingar á stjórnarskránni og eru þær þó yfirleitt afturkræfar. Við gætum alveg ákveðið það hér á næsta kjörtímabili að fara aftur í gömlu kjördæmaskipanina. Við gætum lagt það til. Það væri að vísu borið undir þjóðina en í þeim skilningi er kjördæmabreytingin afturkræf, en ekki þetta. Þessu stöndum við frammi fyrir núna og ef í þetta verður farið verður það aldrei aftur tekið. (Gripið fram í: Meðan land byggist.) Meðan land byggist sitjum við uppi með áhrifin af þessum gjörningi, verði hann.

Og ég segi það, herra forseti, að mér finnst siðferðilegur réttur manna til þess að standa svona að málum í raun og veru enginn. Þetta er ekki hægt. Þetta er ekki boðlegt. Það allra minnsta er að leggja þá málið í dóm þjóðarinnar. Það vill svo til reyndar, herra forseti, að það er handhægt að gera í tengslum við alþingiskosningarnar 10. maí nk. Það eru ekki nema eitthvað 70 dagar, rúmir kannski, í það. Það vill svo til að við sum erum farin að telja dagana því þetta er mikilvægur atburður sem fram undan er. Og því þá ekki að nota tækifærið? Það mundi ekki tefja þessar framkvæmdir ef þeir sem um þær er annt hafa af því áhyggjur nema í raun og veru um vikur. Það á að heita svo að enn séu einungis óskuldbindandi undirbúningsframkvæmdir í gangi. Og það á ekki að skrifa undir endanlega samninga fyrr en í mars eða apríl. Það mætti þá gera þannig að þeir samningar væru allir þannig úr garði gerðir að þeir væru með fyrirvara og biðu úrslita í almennri atkvæðagreiðslu 10. maí nk.

Og ég velti því fyrir mér: Hefur það ekkert hvarflað að þeim sem eru að reyna að knýja þetta mál áfram að þeir væru sjálfir betur staddir með málið þannig? Það yrði léttara fyrir alla, ekki bara fyrir alla þá sem binda vonir við það að þjóðin sjálf hefði vit fyrir ráðamönnum sínum í þessum efnum og stöðvaði málið. En þótt það færi á hinn veginn yrðu menn líka betur staddir, þ.e. þeir sem bæru þá ekki einir ábyrgð á þessum verknaði. Kannski eru menn þannig á vegi staddir í þessu að þeir vilji það ekki, þeir vilji drekka þennan kaleik einir, og/eða hitt að þeir séu hræddir við að hleypa málinu í þá umfjöllun, þá opinberu umfjöllun sem í því væri fólgin að taka það inn í kosningar samhliða alþingiskosningunum þannig að menn fengju tvo atkvæðaseðla og gætu kosið um málið sjálfstætt.

Mér vitanlega eru engar skuldbindingar þannig á vegi staddar í augnablikinu, og verða ekki á allra næstu vikum, að þær séu skuldbindandi eða gætu leitt skaðabætur eða neitt slíkt yfir einn eða neinn. Og sé svo hafa menn haft rangt við því það er auðvitað ekki heimilt að ganga þannig frá hlutum fyrr en öll lagaskilyrði eru til staðar. Og ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. geti staðfest að svo sé.

Þjóðaratkvæðagreiðslu er enn hægt að koma við og það er enn hægt að sjá að sér í þessu máli. Það er enn hægt að hætta við þetta. Það væru eins og hverjir aðrir smámunir að afskrifa þann rannsóknar- og undirbúningskostnað sem kominn er í málið þó að hann sé mældur í milljörðum króna. Það væru eins og hverjir aðrir smámunir borið saman við hitt, það óbætanlega og óverjanlega tjón sem að okkar mati á að gera á náttúru landsins, og að losna undan þeirri áhættu sem því er samfara að ráðast í þessa framkvæmd af ýmsum öðrum ástæðum einnig. Þannig að lokum, herra forseti, er það okkar baráttumál og tillaga ætli menn áfram með þetta mál og verði engu tauti við þá komið, bíti menn engin rök í málinu, þá sem trúa álinu, trúa hinum erlendu auðhringum og hafa sannfært sjálfa sig um þá hroðalegu nauðhyggju að þetta sé vænleg aðferð til þess að skapa störf og efla atvinnu og hagvöxt í landinu, að selja sig amerískum auðhringum á svona suður-/mið-ameríska vísu. Kannski gæti þjóðaratkvæðagreiðsla haft einhver áhrif á þá.

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. gæti a.m.k. hér síðar í umræðunni eða með einhverjum hætti komið aðeins inn á þau mál sem ég beindi til hans sérstaklega um skattaleg atriði og eins um fjármögnun verkefnisins, fjárhag Landsvirkjunar og annað í þeim dúr, en ég met það að sjálfsögðu mikils að hæstv. fjmrh. skuli þó heiðra þessa umræðu með nærveru sinni og það er meira en sagt verður um suma aðra.