Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 22:43:11 (4115)

2003-02-26 22:43:11# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[22:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ósköp einfalt að Landsvirkjun hefur hátt lánshæfismat vegna þess hvernig eignarhaldi og umhverfi fyrirtækisins er háttað. En efnahagur fyrirtækisins verður í sjálfu sér ekki merkilegur þegar hann verður settur í rétt samhengi ef ráðist verður í allar þessar gríðarlegu fjárfestingar eins og ég fór yfir áðan. Eigið fé sem hlutfall að efnahagsreikningi verður kannski komið ofan í 10--15% því fyrirtækið verður svoleiðis drekkhlaðið af skuldum á nýjan leik. Og þá vitum við að ekki má mikið út af bera. En með ríkissjóð á bak við sig getur það auðvitað haldið áfram að taka lán.

Varðandi fjármögnunina og umhverfisreglurnar er ég ekki viss um að hæstv. fjmrh. sé á réttri braut í þessum efnum. Ég er nefnilega alls ekki viss um það. Tímarnir eru að breytast í þessu. Mönnum er ekki lengur sama um hvaða sóðaskap sem er í umhverfismálum. Það er alveg gjörbreytt. Það er meira að segja svo komið að Alþjóðabankinn er aðeins kominn með meðvitund um umhverfismál. Er þá mikið sagt. Og það er langt síðan t.d. Norræni fjárfestingarbankinn fór að taka sjálfan sig mjög alvarlega í þessum efnum og hefur sett sér strangar reglur í þeim efnum. Það hygg ég að Evrópski fjárfestingarbankinn hafi líka gert. Og ég veit að mjög margir stórir einkabankar leggja núna metnað sinn í að verja sig fyrir öllum óhróðri eða allri gagnrýni um að þeir fjármagni verkefni og uppbyggingu sem sé óverjandi í umhverfislegu tilliti.

Ég hef um það upplýsingar innan úr hinum evrópska bankaheimi, meira að segja frá Póllandi, að þetta sé komið til umtals þar, hvort þetta verkefni uppi á Íslandi sé nú ekki dálítið hæpið af umhverfisástæðum.

Varðandi skattamálin er það auðvitað bara þannig að þetta er forréttindafyrirtæki með bullandi meðgjöf í skattalegu tilliti. Það eru klæðskerasaumuð ákvæði utan um óskir þess í enn ríkari mæli en oftast áður hefur verið gert, en það er reyndar látið heita svo að það heyri undir íslensk skattalög. Þetta er öfugsönnun. Fyrst er sagt að fyrirtækið heyri undir íslensk skattalög. Svo fær það undanþágur frá nánast hverri einustu grein þeirra.