Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 22:45:31 (4116)

2003-02-26 22:45:31# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[22:45]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir 2. umr. um frv. til laga um heimild til samnings um álverksmiðju í Reyðarfirði sem hér hefur verið lagt fram af hæstv. iðnrh. Ég var því miður ekki á landinu þegar frumvarpið var flutt hér í byrjun þings og gat þá ekki tekið þátt í umræðunni. Ég hef ákveðið að blanda mér í umræðuna nú þegar það kemur fyrir þingið aftur. Fyrir það fyrsta vil ég strax lýsa yfir miklum stuðningi mínum við frv. og verkefnið sem hér er verið að fara í. Ég tel að á komandi árum og áratugum verði það til mikilla hagsbóta fyrir íslenska þjóð, að maður tali ekki um austfirskt atvinnulíf. Ekki veitir af.

Herra forseti. Ég vil láta það koma skýrt fram í byrjun að ég lýsi fullum stuðningi mínum við þetta mál. Eins og reyndar á öllum öðrum undirbúningsstigum þessa máls hvort það var frv. um Kárahnjúkavirkjun eða varðandi Eyjabakkavirkjun. Ég hef stutt þetta mál alla tíð.

Ég hef að sjálfsögðu átt þess kost að fylgjast með umræðu eins og allir aðrir. Þetta hefur ekki farið fram hjá nokkrum einasta manni hvorki úti í þjóðfélaginu né á hinu háa Alþingi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast ætíð þegar ég hlusta á málflutning þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hvernig þeir djöflast gegn þessu frv. fram og aftur og finna þessu verkefni allt til foráttu. Þeir sjá ekki nokkurn einasta ljósan punkt í því. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það kemur mér verulega á óvart.

Ég vil þó taka skýrt fram að ég tel mig ekki umhverfissóða eða andstæðing fallegrar náttúru. Hins vegar er það einu sinni þannig að stundum þurfa menn að velja og hafna og stundum kosta ýmis framfaramál jarðrask og annað sem getur verið óbætanlegt eins og gengur og gerist. Menn verða alltaf að vega það og meta. Ég tel hins vegar, herra forseti, eins og ég sagði áðan að þetta muni gagnast vel íslenskri þjóð á komandi árum og áratugum og verða til heilla fyrir land og þjóð. Ég tel að þetta muni, þegar fram líða stundir, líkt og álverksmiðjan í Straumsvík skapa mikil og góð atvinnutækifæri fyrir fólk og skapa mikið af öðrum störfum á því svæði. Það sama má auðvitað segja um Norðurál og uppbygginguna þar. Það vita allir sem vilja vita að þetta eru stór og mikil fyrirtæki en það hefur sannarlega ekki verið þrautalaust að koma þessum málum í gegnum hið háa Alþingi, hvort sem er í umræðu um Ísal eða Norðurál.

Ég tel, herra forseti, allt í lagi að rifja aðeins upp, fara aftur í tímann til ársins 1967. Mig langar að rifja upp nokkur atriði sem þá voru umræðuefni í þjóðfélaginu, nefnilega deilur um væntanlega byggingu álvers. Ríkisstjórnin sem það verk vann var harðlega gagnrýnd af þáverandi stjórnarandstöðu, Alþb. hinu gamla og Framsfl. sem þá var í stjórnarandstöðu og hafði ýmislegt á hornum sér varðandi undirbúning þess verks. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að grípa aðeins niður í kafla úr bókinni Ísland í aldanna rás. Ég held að það sé ágætt að rifja þetta upp og setja í samhengi við umræðuna í þjóðfélaginu í dag, hvort sem það er í heitum pottum, stórmörkuðum eða annars staðar eins og segir í skeyti frá ágætum umhverfisverndarsinnum í dag. Ég gríp hér niður í bókinni þar sem verið er að ræða um ástandið í þjóðfélaginu árið 1967 og kemur í framhaldi af fyrirsögninni: ,,Enn heldur viðreisn velli``. Með fylgja teikningar af þeim miklu stjórnmálaskörungum sem þá voru í forsvari, þeim Bjarna heitnum Benediktssyni, Gylfa Þ. Gíslasyni og fleiri ágætismönnum sem í þeirri ríkisstjórn. Með leyfi forseta ætla ég að grípa aðeins inn í þetta. Það er sem sagt verið að ræða um ástandið í þjóðfélaginu en þá steðjuðu miklir erfiðleikar að íslenskri þjóð, m.a. vegna aflaskorts. Hér segir, með leyfi forseta:

,,En stjórnin vitnaði einnig til þess að hún væri í óðaönn að renna nýjum stoðum undir íslenskt efnahagslíf, einkum með álverksmiðjunni, sem fundinn hafði verið staður í Straumsvík við Hafnarfjörð, og virkjunarframkvæmdum í tengslum við hana. Hélt stjórnin því fram að stjórnarandstöðuflokkarnir máluðu skrattann á vegginn þegar þeir fjölyrtu um erfiðleika í vændum.

Þegar haustaði kom á daginn að ástandið var verra en ætlað hafði verið. Fiskaflinn minnkaði, einkum síldarafli sem verið hafði hornsteinn þenslunnar undanfarin ár. Gjaldeyrisstaðan versnaði stórum og í október var hún orðin neikvæð í fyrsta sinn í langan tíma. Ytri aðstæður versnuðu enn og sýnt að verðstöðvunin dugði ekki lengur og hafði raunar aukið á vandann þegar til lengri tíma var litið. Gengislækkun virtist yfirvofandi en bæði Bjarni Benediktsson og Gylfi Þ. Gíslason lýstu því yfir að hún kæmi ekki til greina.``

Síðar í þessari ágætu bók er fjallað um það þegar álverið í Staumsvík tók til starfa. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Um miðbik aldarinnar var sjávarútvegur aðalútflutningsatvinnuvegur Íslendinga og hvíldi efnahagur þjóðarinnar á því að atvinnugreinin gæti tryggt sjálfri sér og afkastaminni framleiðslugreinum viðunandi afkomu með aukinni framleiðslu og framleiðni. Ýmsir drógu í efa að sjávarútvegurinn gæti gegnt þessu hlutverki til langframa og töldu nauðsynlegt að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Talsverð viðleitni í þessa átt kom fram á 6. áratugnum og eru Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðjan sýnilegustu ávextir hennar. En á árunum 1961--1963 hóf viðreisnarstjórnin gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlana til langs tíma og kom þá þörfin fyrir nýja útflutningsframleiðslu glögglega í ljós. Iðnaðarráðherra skipaði vorið 1961 sérstaka nefnd sem kanna skyldi hvort hagstætt væri að koma á fót álvinnslu eða öðrum orkufrekum iðnaði á Íslandi og sumarið 1961 hóf nefndin viðræður við Swiss Aluminium Ltd. Í fyrstu var um könnunarviðræður að ræða en þær þróuðust smám saman í samningaviðræður sem lauk með samningi um byggingu álverksmiðju í Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar.

Samningurinn var lagður fyrir Alþingi til staðfestingar og olli þar hörkudeilum. Stjórnarandstaðan, einkum þingmenn Alþýðubandalagsins, taldi að með samningnum væri verið að veita erlendum auðhring möguleika á að hreiðra um sig á Íslandi, hagnaður Íslendinga af framkvæmdinni væri of lítill og hún gæti spillt gróðri í nágrenninu. Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir, Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur, gagnrýndu jafnframt það ákvæði samningsins sem kvað á um að gerðardómur skyldi skera úr ef ágreiningur risi milli ríkisstjórnarinnar og Swiss Aluminium um ákvæði samningsins. Þingmenn Alþýðubandalagsins kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn og fóru þess á leit við Ásgeir Ásgeirsson forseta að hann staðfesti ekki lögin. Forsetinn hafnaði þeim tilmælunm og svo fór að lögin voru samþykkt á Alþingi vorið 1966 með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna gegn atkvæðum þingmanna stjórnarandstöðunnar.`` --- Það er Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. --- ,,Tveir þingmenn Framsóknarflokksins sátu raunar hjá við atkvæðagreiðsluna.

Samningur ríkisstjórnarinnar og Swiss Aluminium tók gildi 20. september 1966. Sama dag tók gildi samningur Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins (Ísal), dótturfyrirtækis Swiss Aluminium, um kaup og sölu raforku til álversins. Í samningnum var kveðið á um að Landsvirkjun reisti í Þjórsá við Búrfell 210 megavatta orkuver sem sæi álverinu fyrir raforku og að Ísal reisti álver við Straumsvík sem framleiddi árlega um 60.000 tonn af áli. Framkvæmdir hófust sumarið 1966. Alþjóðabankinn veitti Landsvirkjun 18 millj. dollara lán til Búrfellsvirkjunar og 6 millj. dollara lán að auki var fengið með útboði á verðbréfamarkaði í New York en að öðru leyti var virkjunin fjármögnuð með láni úr ríkissjóði og framlögum eigenda Landsvirkjunar. Fyrri áfanginn, 105 megavatta virkjun og 30.000 tonna álver, tók til starfa í september 1969 en Búrfellsvirkjun var síðan stækkuð í 210 megavött á árunum 1971--1972.``

Það er ákaflega gaman að rifja þetta upp og sjá hvernig sagan í raun og veru endurtekur sig. Miklar deilur voru um þessa byggingu þarna. Menn kröfðust þjóðaratkvæðis og stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði gegn málinu en tveir framsóknarþingmenn sátu hjá. (Gripið fram í: Steingrímur Hermannsson.) Nú, var það sjálfur Steingrímur Hermannsson? Ekki kann ég að segja hver hinn var en þó að sagan endurtaki sig þá er ekki alfarið svo núna. Alla vega vona ég að allir framsóknarmenn greiði þessu atkvæði. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður. Ég er í raun ákaflega stoltur af þingflokki mínum með atkvæðagreiðslur í þessu máli og hvernig því hefur verið landað. (Gripið fram í: En borgarfulltrúarnir?)

Herra forseti. Ég vil í örstuttu máli fara yfir þau atriði sem hér eru lögð til grundvallar. Það hefur verið kristaltært í mínum huga þau ár sem ég hef setið á Alþingi að styðja þessa framkvæmd. Ég trúi því og treysti að vel hafi verið haldið á spilunum hvað ríkisstjórnina og samningamenn Íslendinga við þetta erlenda fyrirtæki varðar. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að það er vafalaust oft erfitt að sjá um þau mál. Þessir erlendu aðilar hafa því miður tromp í erminni, ef svo má að orði komast. Þeir vita að við byggjum þetta ekki ein. Við höfum þurft að leita til erlendra stórfyrirtækja til að koma af stað svo stórum og viðamiklum rekstri eins og verið að tala um. Það kostar okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, ýmiss konar eftirgjöf á gjöldum og sköttum eins og hér hefur verið rætt um. Auðvitað er slæmt þegar það þarf að mismuna fyrirtækjum, auðvitað er það slæmt. Þess gerist hins vegar þörf og kemur náttúrlega til út af hnattstöðu Íslands. Það þarf að leggja töluvert á móti umfram ýmis önnur lönd til að fá fyrirtæki í slíkan rekstur sem hér er rætt um líkt og er um annan rekstur sem við vitum að samkeppnishæfni skerðist töluvert hjá miðað við rekstur í löndum sem eru nær mörkuðum. Við gerum okkur vonandi grein fyrir því að það kostar mikið að flytja súrál frá Ástralíu, en þaðan held ég að það komi, til Íslands. Það dregur úr arðsemi viðkomandi fyrirtækja sem vinna úr þessu og gerir að verkum að við þurfum e.t.v. að gefa eftir.

Ég styð þetta verk sérstaklega vegna þess að ég tel það þjóðhagslega arðbært til langs tíma og muni renna styrkari stoðum undir þjóðarhag okkar. Ég segi það hiklaust vegna þess að ég sé fyrir mér að hlutur sjávarútvegs í útflutningi muni minnka á komandi árum. Í öðru lagi er þessi álverksmiðja og virkjun staðsett á landsbyggðinni, austur á landi sem ég er auðvitað sérstaklega ánægður með. Þetta stórt fyrirtæki og hinar miklu framkvæmdir eru afar heppilegar fyrir þetta landsvæði og þá orkumöguleika sem þar eru og Reyðarfjörður er ákaflega heppilegur fyrir byggingu álvers.

[23:00]

Ég ætla, herra forseti, aðeins að fara í gegnum þróun íbúafjölda á þessu svæði sem fram kom í svari hæstv. félmrh. við fyrirspurn frá mér sem ég lagði fyrir hann á þessu þingi og er á þskj. 267. Þar er farið í gegnum íbúafjölda í öllum kjördæmum og öllum sveitarfélögum landsins og borið saman frá 1. des. 1991 til 1. des. 2001.

Ef ég lít hér á hið nýja Norðausturkjördæmi og tek dæmi af Fjarðabyggð þá bjuggu í Fjarðabyggð 1. des. árið 1991 3.551 íbúi. 1. des. 2001 voru þeir komnir niður í 3.062, hafði fækkað um 489 manns eða 13,8%.

Ef við höldum áfram og tökum sveitarfélög í næsta nágrenni við þessar miklu framkvæmdir og förum t.d. yfir í Austur-Hérað þá voru íbúar þar árið 1991 1.993 talsins, en árið 2001 2.031, hafði sem sagt fjölgað um 38 eða 1,9%.

Í Norður-Héraði voru íbúar 355 árið 1991 en árið 2001 312, hafði fækkað um 43 eða 12,1%.

Í Búðarhreppi bjuggu árið 1991 757 íbúar. Árið 2001 voru þeir komnir niður í 569, hafði fækkað um 188 eða tæp 25%.

Í Fáskrúðsfjarðarhreppi hafði íbúum fækkað úr 92 í 63 eða um 31,5%.

Ef farið er yfir í Stöðvarhrepp þá hafði íbúum þar fækkað úr 340 í 257 eða um tæp 25%.

Ef við förum í syðsta hlutann, sem við getum kallað miðað við þá skilgreiningu sem kemur fram í frv., Miðausturland, og förum í Breiðdalshrepp þá hafði íbúum fækkað þar um 79 eða 22,6%.

Með öðrum orðum, herra forseti, fyrir utan Austur-Hérað var fækkun í þessum sveitarfélögum á bilinu 14--31% á þessum tíma. Árið 1991 bjuggu 7.088 íbúar í þessum sveitarfélögum, en árið 2001 6.294, hafði fækkað um 794 íbúa eða 12,6%.

Herra forseti. Ég vek athygli á þessari tölu um fækkun. Það er svipuð tala og talið er að álverið muni skapa í störfum og í tengdri starfsemi við það. Þetta eru, herra forseti, staðreyndir sem vert er að hafa í huga. Og með fullri virðingu fyrir umhverfissinnum og náttúruverndarsinnum vil ég kasta fram þeirri spurningu hvort slík fækkun íbúa í sveitarfélögum á þessu landsvæði, ásamt fækkun íbúa hvar sem er á landsbyggðinni, heyri ekki nánast undir náttúruspjöll eða umhverfisslys ef íbúum heldur áfram að fækka svo eins og gerst hefur hlutfallslega undanfarin tíu, fimmtán ár. Hvað er það annað en umhverfisslys?

Hér er verið að tala um framkvæmd sem er stór í sniðum sem mun snúa þeirri þróun við og það er hið besta mál. Og það verður að segjast alveg eins og er, herra forseti, að mér blöskrar það stundum þegar andstæðingar þessa verkefnis, sem koma nú flestir úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þingmenn hér á hinu háa Alþingi, djöflast svo gegn þessu verki og hafa ekki, þrátt fyrir margar spurningar, getað svarað því hvað á að koma í staðinn ef álverið kemur ekki. Tek ég nú eftir að hv. þm. Ögmundur Jónasson biður um andsvar og ég þykist vita að þá hefjist talningin hér á eftir þegar ég verð búinn og upp verði talin þau störf sem skapa má ef ekki yrði af þessu. Vil ég þá spyrja jafnframt eftir hvort þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafi þekkst það boð sem bæjarstjórinn á Ísafirði bauð þeim, að koma vestur til að aðstoða þá við að finna svo mörg störf á norðanverðum Vestfjörðum, vegna þess að þeir fá ekki álver. Og bíð ég spenntur eftir upptalningunni á eftir, herra forseti. Það verður fróðlegur lestur.

Herra forseti. Margt hefur verið rætt um þessa framkvæmd í þjóðfélaginu, eins og ég sagði áðan, og kem ég síðar að bréfi sem þingmönnum barst í dag. En ég ætla aðeins að fara yfir nokkrar umsagnir sem hafa komið um þetta mál og byrja ég þá sérstaklega og fyrst að sjálfsögðu og af virðingu fyrir Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, vegna þess að þar hefur verið vel á málum haldið, hart barist og málum fylgt eftir af mikilli staðfestu til að vinna þessu máli framgang. Í umsögn þeirra kemur að sjálfsögðu fram að orku- og stóriðjunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hafi tekið þetta fyrir 7. febrúar og vitnað þar í samþykkt sem gerð var á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á Seyðisfirði árið 2002 þar sem þessu máli er fagnað og því lýst yfir að ef þetta kæmist í höfn væri það allt hið besta mál og hvatt til samþykktar.

Þetta þarf að sjálfsögðu ekki að koma á óvart. En ég vil segja, herra forseti, að mér finnst sveitarstjórnarmenn á Austurlandi, Miðausturlandi sérstaklega, og þeir sem hafa borið hitann af málflutningi þeirra og eftirfylgni, eigi heiður skilið fyrir baráttu sína og hygg ég að ég halli ekki á neinn þegar ég nefni menn eins og Smára Geirsson, formann Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, Þorvald Jóhannsson, sem er framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og jafnframt formaður orku- og stóriðjunefndar, og Guðmund Bjarnason, bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ég hygg að ég halli ekki á neinn, herra forseti, þegar ég nefni þessa menn sérstaklega. Ég segi alveg eins og er sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í byggðarlagi á landsbyggðinni þar sem maður hefur mátt horfa á það sama og ég lýsti áðan hvað varðar íbúaþróun og fækkun íbúa, að ég er ákaflega stoltur af þeim mönnum sem hafa fylgt þessu máli eftir, barist fyrir því og haldið sjónarmiðum Austfirðinga fram af þvílíkum eldmóði og krafti sem þeir hafa gert. Þeir eiga heiður skilið, herra forseti, fyrir það sem þeir hafa gert.

Byggðarannsóknastofnun Íslands, staðsett á Akureyri, veitir umsögn um þetta mál og þar kemur fram m.a., með leyfi forseta:

,,Það er álit Byggðarannsóknastofnunar að almennt séð megi taka undir það að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi muni hafa veruleg áhrif og að þau birtist ekki síst í fjölgun atvinnutækifæra og eflingu byggðar á Miðausturlandi.``

Það er meira í áliti þeirra hjá Byggðarannsóknastofnun sem væri ákaflega gaman að fara í gegnum og ræða um vegna þess að farið er mjög faglega í gegnum þetta mál, en ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara í gegnum það. Hins vegar er rétt að ítreka það sem segir í lok þessa álits, með leyfi forseta:

,,Byggðarannsóknastofnun áréttar það álit sitt að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi muni hafa veruleg samfélagsáhrif og að þau birtist ekki síst í fjölgun atvinnutækifæra og eflingu byggðar á svæðinu. Rétt er þó að lokum að benda á að spár og mat á þróun mála eru nokkurri óvissu háð og er þar ekki síst um að kenna skorti á gögnum.``

Næst ætla ég að vitna til þróunarsviðs Byggðastofnunar sem sendir álit sitt, en í 3. mgr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Álveri í Reyðarfirði fylga fjölmörg störf og samkvæmt mati á umhverfisáhrifum er talið að við byggingu þess þurfi um 2.300 ársverk. Þá er reiknað með um 455 ársverkum í álverinu þegar það tekur til starfa. Að auki koma til margfeldisáhrif bæði á Austurlandi og annars staðar á landinu. Stofnunin telur mikilvægt að fylgst sé vel með áhrifum þessarar starfsemi á byggðaþróun og bendir í því sambandi á tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi (511. mál).`` --- Sem Svanfríður Jónasdóttir er 1. flm. að ásamt þeim hv. þm. Hjálmari Árnasyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni og Einari Má Sigurðarsyni.

Ég held, herra forseti, að ástæða sé til að lesa þessa tillögu sem hér er vitnað í og Byggðastofnun hvetur til og minnir á, vegna þess að ég held að stjórnarsinnar ættu að ljá því máls að tillagan fari í gegnum þingið og verði samþykkt. Af því að ég sé að hæstv. iðnrh. er hér í hliðarsal vil ég ítreka það sem ég sagði: Ég tel að stjórnarsinnar, ríkisstjórnarflokkarnir, eigi að stuðla að því að sú tillaga sem ég ætla að vitna til sem flutt er af að mér sýnist þingmönnum úr öllum flokkum nema Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þeir hafa náttúrlega verið á móti þessu eins og ýmsu öðru, þá hvet ég stjórnarsinna til þess að ljá því máls að þessi tillaga eða tillaga sem yrði samin upp úr henni hljóti náð fyrir augum stjórnarsinna og verði samþykkt áður en þing fer heim. Ég tel það ákaflega mikilvægt vegna þess að hér er merkilega tillaga. Í henni segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi samþykkir að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands, að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi gætir mest. Verkefninu verði ætlað fé í fjárlögum í sex ár frá og með árinu 2004. Byggðarannsóknastofnun skili formlegum skýrslum til ráðherra byggðamála í lok árs 2005 og 2007 og síðan í lok verkefnisins. Þá verði stofnunin stjórnvöldum til ráðuneytis á tímabilinu verði þess óskað.``

Í upphafi að greinargerð með þáltill. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð sem af ýmsum hafa verið kallaðar stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar, svo og starfræksla álversins munu hafa mikil áhrif á samfélags-, byggða- og atvinnuþróun á áhrifasvæði framkvæmdanna. Hversu mikil eða víðtæk þau áhrif verða er ekki vitað. Verkefnið mun hafa einhver áhrif um allt land, nokkur þjóðhagsleg áhrif en annars konar og meiri á helstu áhrifasvæðum og mest verða áhrifin væntanlega á Miðausturlandi. Þessum framkvæmdum er líka ætlað að hafa áhrif í þá veru að efla og styrkja byggð á Austurlandi og jafnvel víðar. Menn eru hins vegar ekki á einu máli um hver eða hversu víðtæk hin samfélagslegu áhrif verða. Allir eru þó sammála um að þessar framkvæmdir munu hafa mikil áhrif.``

Síðan er ítarlegri greinargerð, herra forseti, með þessari tillögu, þeirri ágætu tillögu sem ég er að vitna hér í þar sem 1. flm. er hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sem hefur lagt vinnu í að setja saman þessa greinargerð. Mér finnst og ítreka að jafnvel sé nauðsynlegt að samþykkja svona tillögu núna áður en þing fer heim og ég held að það yrði gott veganesti inn í þessa stóru og miklu framkvæmd að vera búið að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands að fylgjast með þessu máli og skrifa greinargerðir og annað slíkt um það meðan það er að eiga sér stað.

[23:15]

Herra forseti. Umsagnir aðila á borð við Alþýðusamband Íslands, þau fjöldasamtök, eru ákaflega merkilegar. Hér segir að miðstjórn ASÍ hafi ályktað sérstaklega um virkjana- og stóriðjumál á fundi sínum á Egilsstöðum þann 7. nóv. 2001. Í þessari ályktun sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur að forsendur aukins hagvaxtar og bættra lífskjara á næstu árum sé stöðug og viðvarandi aukning útflutningstekna. Til þess að svo megi vera telur miðstjórn ASÍ mikilvægt að nýta allar auðlindir til lands og sjávar með skynsamlegum hætti. Í samræmi við þessa grundvallarskoðun er mikilvægt að nýta þá orku sem landsmenn búa að til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi.

Miðstjórn ASÍ lýsir því stuðningi sínum við áform um byggingu álvers við Reyðarfjörð og virkjunarframkvæmdir á Austurlandi. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að þessi framkvæmd er afar mikilvæg fyrir uppbyggingu atvinnu og lífskjara launafólks bæði á Austurlandi og um land allt.``

Svo segir m.a., herra forseti, í áliti Alþýðusambands Íslands. Alþýðusamband Íslands eru nú ekki nein smáræðissamtök. Þetta eru stór samtök. Ég veit ekki nákvæmlega hve margir sitja í miðstjórn en það eru menn úr öllum flokkum og alls staðar að af landinu. Þess vegna segi ég, herra forseti, að þetta er ákaflega mikilvæg og merkileg ályktun og sýnir þá framsýni sem Alþýðusambandið og forusta þess hefur í þessum málum og horfir þar til framtíðar, til nokkurra ára og nokkurra áratuga og er þar auðvitað að huga að atvinnulífinu, atvinnusköpun og gangi þjóðarhags.

Sama má segja um Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Þau samtök segja að það sé fagnaðarefni að bygging álvers í Reyðarfirði og stórvirkjun á Austurlandi eru að verða að veruleika. Þau segja að framkvæmdin muni verða lyftistöng fyrir atvinnulíf á landinu öllu og muni stuðla að bættum hag landsmanna og fjölbreyttari samsetningu atvinnulífs. Þetta er mikil samþykkt og sýnir að aðilar vinnumarkaðarins, bæði Samtök atvinnulífsins og iðnaðarins og Alþýðusamband Íslands, samtök verkafólks, mæla með þessari framkvæmd. Ég leiði ekki hugann að því eitt augnablik, herra forseti, að þessi samtök væru að mæla með þessu nema vegna þess að þetta er hagkvæmt verk, gott verk fyrir Ísland og Íslendinga litið fram í tímann.

Herra forseti. Margt hefur verið rætt um þessa uppbyggingu á Austurlandi og margir, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, efast um að hægt sé að setja upp svo stóran vinnustað í svo litlu byggðarlagi sem Fjarðabyggð er. En svæðið allt sem þarna er í nágrenni er nægjanlega stórt að mati þeirra sem um þetta fjalla til að hægt sé að gera þetta. Byggð mun eflast á komandi árum á þessu svæði, að maður tali ekki um allar þær hliðaratvinnugreinar sem munu koma í framhaldi af þessu.

Herra forseti. Í fskj. IX með frv. er mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers Alcoa í Reyðarfirði, gert í nóvember 2002 af Nýsi hf., ráðgjafarþjónustu. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara í gegnum þetta. Ég hef átt þess kost að vera á fundum fyrir austan þar sem þetta ágæta fyrirtæki hefur farið í gegnum þau atriði sem hér koma fram. Það var mjög faglega unnið og mikið af upplýsingum sem hér liggja frammi eru málinu til mikils stuðnings. Þegar menn fara í gegnum þetta og við segjum það og höfum trú á því að verið sé að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf á Austurlandi og í raun styrkari stoðum undir þjóðarhag, útflutning og þjóðarhag, og skapa fleiri störf með öllum þeim hliðarstörfum sem eiga að fylgja með þá er kannski vert að minnast þess að það liggur t.d. fyrir að hið ágæta fyrirtæki BYKO er að setja upp starfsemi á Austurlandi einmitt í framhaldi af þessari ákvörðun og hér hafa í dag verið nefnd ýmis önnur fyrirtæki eins og Flugfélag Íslands o.fl. Við erum því í raun að tala um velferðarmál til framtíðar í mjög víðum skilningi.

Þessi vinnustaður, álverið í Reyðarfirði, mun skapa, eins og hér hefur komið fram, um 750 störf og greiða há laun. Þetta eru góð störf. Þetta eru störf í hátækni. Stundum er mönnum náttúrlega villt sýn þegar sýnd eru m.a. í fjölmiðlum á Íslandi eldgömul álver þar sem umhverfið er kannski ekki eins gott og gerist í nútímaálverum í dag. Ég held með öðrum orðum, herra forseti, að álver sé mjög háþróaður og góður vinnustaður sem greiðir há laun, er með mikla og góða sýn fyrir starfsmenn og sé bara hið besta mál. Þegar menn tala um þessi störf og bera þau saman við eitthvað annað þá er stundum eins og talað sé um störf í álveri með hálfgerðri lítilsvirðingu. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það er mjög í takt við ýmislegt annað.

Í tengslum við þetta stóra verkefni, og þegar horft er til þeirra byggðarlaga sem ég gerði að umtalsefni áðan og ræddi um, þá hefur jafnframt verið ákveðið að ráðast í ýmiss konar samgöngubætur á Austurlandi. Ýmislegt annað mun byggjast upp. En ég get sérstaklega um samgöngubætur á Austurlandi og hið ánægjulega útboðsverkefni sem Vegagerðin var að opna ekki alls fyrir löngu, þ.e. útboð í jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Vonandi er að það verk hefjist sem allra fyrst og stækki þar með, ef svo má segja, upptökusvæði álversins, stækki það atvinnusvæði vegna þess að vegalengdir styttast með þessum jarðgöngum og styttra verður fyrir næstu nágranna þar að sækja vinnu og taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem á að eiga sér stað og við erum nú að ræða.

Herra forseti. Á næstu árum eða áratugum munu vonandi verða gerðar meiri samgöngubætur þarna og í næsta nágrenni til þess að tengja fleiri staði, stytta vegalengdir frá stöðum eins og t.d. Vopnafirði til Miðausturlands og þá segi ég alveg hiklaust með jarðgöngum undir Hellisheiði. Þetta er verkefni sem m.a. sveitarstjórnarmenn á Vopnafirði ræddu við okkur í samgn. ekki alls fyrir löngu. Þó svo að jarðgöng þarna séu ekki væntanleg alveg á næstu árum þá er þetta hugmynd sem vert er að ræða og rétt er að minna á að Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa ályktað um að þessi jarðgöng skuli vera næst, að maður tali ekki um ný jarðgöng í staðinn fyrir jarðgöngin um Oddsskarð, en mér finnst stundum að það hafi verið eins og hálfgerð tilraunastarfsemi að fara með jarðgöngin svo hátt sem raun ber vitni. Auðvitað liggur í augum uppi að á komandi árum mun þurfa að ráðast í samgöngubætur þar líka.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég teldi mig ekki vera umhverfissóða eða að ég vildi ganga illa um náttúru landsins eða væri alveg sama hverju væri fórnað fyrir hvað. Ég tel mig ekki vera það. Ég ber að vissu leyti töluverða virðingu fyrir umhverfissinnum þegar þeir halda sínum málum fram í ýmsum verkum. En ég vil hafa það á hreinu að umhverfissinnar geta líka gengið allt of langt og mjög margir hafa í þeirri heitu umræðu sem hefur orðið um þetta verk, Kárahnjúkavirkjun og þetta, að mínu mati oft og tíðum farið langt út fyrir öll velsæmismörk. Ég ítreka það og segi að starf umhverfisverndarsinna er mjög mikilvægt til þess að sýna viðkomandi stjórnvöldum aðhald til að lágmarka þá náttúruröskun sem þarf að eiga sér stað við þær framkvæmdir sem ráðist er í hvort sem það eru þessar framkvæmdir eða lagning vega úti um land eða í Reykjavík. Nú á síðari árum hefur þetta fengið miklu meira vægi í þjóðfélaginu og það er gott þegar skynsamlega er haldið á málum. En það er ákaflega auðvelt að fara langt út fyrir öll velsæmismörk og í mörgum tilfellum í þeirri heitu umræðu sem hefur átt sér stað um þetta hefur það gerst. Það er því miður mörgum umhverfisverndarsinnum til skammar hvernig þeir hafa bæði hagað sér og talað og hvað þeir hafa sagt.

Eitt af því sem ég vil nefna hér er bréf sem ég geri ráð fyrir að allir alþingismenn hafi fengið í dag frá svokölluðum Austurvallarhóp sem mótmælir Kárahnjúkavirkjun. Það er sent til Alþingis Íslendinga. Austurvallarhópurinn hefur staðið fyrir mótmælum hér úti á Austurvelli og alla vega í dag, herra forseti, þegar ég gekk fram hjá rétt um kl. 12 voru þar fjórir saman komnir. Og um leið og ég gekk fram hjá var ég spurður af einum þeirra hvort ég væri ekki til í að standa með þeim þarna næstu tíu mínútur og halda á einu spjaldi. Það vantaði sem sagt fleiri í hópinn. Nú er ég svo sem ekkert að gera neitt lítið úr því þó að þeir hafi verið fjórir. En við höfum auðvitað séð það hægt og sígandi hvernig þessi mótmæli úti á Austurvelli eru að fjara út. Ég tel það reyndar ákaflega mikilvægt að í þjóðfélaginu fari að skapast sátt um þetta. Það hafa verið miklar deilur. Menn hafa komið fram sjónarmiðum sínum. Alþingi er að taka hér lokaákvörðun um þetta verkefni, sem við höfum, og þess vegna ættu menn að slíðra sverðin og snúa sér að öðrum atriðum og láta af þeim mótmælum sem hér hafa verið. Ég hygg að það megi segja að umhverfisverndarsinnar hafi komið ýmsu góðu til leiðar á margan hátt. Umhvrh. tók tillit til atriða sem mér fannst mjög skynsamlegt, þ.e. þegar hún talaði um að yfirfallið færi aftur ofan í gljúfrin en ekki yfir í Desjarárdalinn svo ég nefni dæmi. En ég ítreka það og segi að mér finnst stundum dapurlegt að jafnskynsamt fólk og stundum er í forsvari fyrir þessu gengur of langt og fer langt út fyrir öll velsæmismörk.

Skal ég nú grípa aðeins niður í þetta umrædda skeyti sem kom hér og er undirritað af tveimur konum, Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og Birgittu Jónsdóttur. Þar segir m.a., með leyfi forseta, í 7. kafla:

,,Framkvæmdin snýst ekki bara um steypumagn eða atvinnu 300 manna.``

Þarna er náttúrlega verið að rangtúlka, að tala um 300 störf. Það eru engin 300 störf að skapast þarna. Það eru 750 störf að skapast. Hvers vegna í ósköpunum er þessi tala þá sett inn og talað um að þarna verði atvinna fyrir 300 manns þegar það er vitað mál að störfin verða 750? Til hvers er þetta gert? Er það gert til þess að villa fólki sýn eða er þetta ekki bara hreinlega viljandi sett fram?

Svo er það hér í næsta kafla. Ég vil grípa aðeins niður í hann, með leyfi forseta:

,,Ástæðan fyrir því að verið er að hleypa stóriðju inn í landið í stórum stíl er að hefðbundnar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður eru að hrynja. Sjávarútvegur vegna rányrkju og kvótakerfisins og landbúnaður vegna þess að hann er í fjötrum byggðastefnu og annars óskipulags.``

Það má svo sem margt segja um þennan kafla, ,,sjávarútvegur vegna rányrkju``. Má þá draga þá ályktun af því sem þarna er sagt að við séum að veiða of mikið í dag? Erum við sem sagt að veiða of mikið? Erum við að taka of mikið út úr höfuðstólnum til þess að halda uppi útflutningstekjum til þess að halda uppi venjulegum gangi á þjóðfélaginu, skulum við segja? Ef það er mat þessara aðila sem að Austurvallarhópnum standa að við séum að ganga of langt þá má spyrja: Hvar á að skera niður, miðað við þær töpuðu útflutningstekjur, ef við erum að stunda rányrkju svo mikla og hvað þarf að skera kvótann mikið niður í dag?

Ég er ekkert viss um það, herra forseti, að þeir sem skrifa undir þetta bréf og hafa staðið úti á Austurvelli með mótmælaspjöld hugsi mikið út í það sem við erum að taka úr sjónum og þau útflutningsverðmæti sem þar skapast og þá miklu vinnu sem skapast í kringum veiðar og vinnslu sjávarfangs. Gera menn sér t.d. grein fyrir því að yfirstandandi loðnuvertíð er mjög óhefðbundin? Það getur jafnvel farið svo að við náum ekki þeim kvóta sem við ætluðum að veiða vegna þess að ástandið er annarlegt. Loðnan hagar sér allt öðruvísi en hún hefur gert áður. Hvað ætli miklar útflutningstekjur tapist ef við náum ekki 100, 200 eða 300 þúsund tonnum, eða guð má vita hvað? Ég bara spyr. Í hvaða hugarheimi er fólk sem setur þetta fram og hvernig lítur það á sköpun þjóðartekna, atvinnu og annað slíkt? Svo er talað um neikvæð félagsleg áhrif, að með tilkomu álvers og þessara framkvæmda sé verið að stofna til karlmannasamfélags, svokallaðs gullgrafaraþorps sem raski öllu jafvægi. Heyr á endemi!

[23:30]

Og í staðinn fyrir að byggja álver ætti að skoða það að reisa jarðvísindaháskóla í tengslum við þjóðgarð og jafnframt ættu kvótamál fyrir austan að verða skoðuð, þá væntanlega með tilliti til þess að auka kvótann, eða hvað? Þá segja þau að margir Austfirðingar hafi lýst áhyggjum sínum yfir að framkvæmdir muni eyðileggja möguleika á ferðaþjónustu. Þessi framkvæmd getur líka leitt til þess að ferðaþjónustan aukist. Hvað stendur hún annars í langan tíma á ári, ég tala nú ekki um á landsbyggðinni? Tvo mánuði. Ég verð a.m.k. ekki var við það sem landsbyggðarmaður að mikill fjöldi útlendinga eða ferðamanna sé á ferð um byggðir landsins á vetrarmánuðum. Við erum að tala um tvo, þrjá mánuði sem þetta stendur yfir og hvað gerist á öðrum tímum? Sáralítið. Hvernig í ósköpunum á að skjóta rótum undir þessa ferðaþjónustu og hvernig á hún að standa undir því að taka við ungu fólki í vinnu eða skapa þjóðinni útflutningstekjur? Hvernig í ósköpunum á það að gerast? Þetta er vafalaust gott með en að halda að það geti komið í staðinn er fásinna.

Svo kemur hér á einum staðnum, með leyfi forseta:

,,Umræðan um Kárahnjúkavirkjun er mikil í þjóðfélaginu og þótt hún vegi kannski ekki þungt á borðum Alþingis getum við fullvissað háttvirtan þingmann um það að alls staðar í þjóðfélaginu er verið að tala um þessi mál, í stórmörkuðum, á sundstöðum og vinnustöðum.``

Það er alveg hárrétt. Þetta er rætt víða. Ég ræði þetta mjög víða og þetta er mjög víða rætt við mig. Það eru ekki andstæðingar, það eru fylgjendur. Það er fólk sem gerir sér grein fyrir því að við eigum að njóta og nýta náttúruna, ganga vel um að sjálfsögðu og nota þau tækifæri sem gefast til að nýta auðlindirnar í landinu.

Svo er fjallað um sjálfsmynd okkar sem á að vera eitthvað villt og óhamið. ,,Sjálfsmyndina má ekki brjóta.`` Ætli það geti verið, herra forseti, að sjálfsmynd ýmissa íbúa á landsbyggðinni hafi verið brotin með aðgerðaleysi í byggðamálum undanfarin ár og þeirri miklu fólksfækkun sem hafði verið á mörgum stöðum úti á landi og vitnað er m.a. til á þessu svæði sem við erum hér að tala um að setja inn þessar framkvæmdir og þetta álver? Ætli sjálfsmyndin hafi ekki verið dálítið brotin? Ég þekki sjálfur úr mínu byggðarlagi hvernig farið hefur.

Herra forseti. Það mætti eyða löngum tíma í þetta mál og fjalla um það. Ég vildi aðeins í lokin minnast á þetta bréf sem þarna kom og það sem maður hefur ekki varið varhluta af. Maður hefur heyrt í þessu fólki sem hefur barist hvað harðast fyrir þessu og sagt hefur verið um það stundum: Flestir eiga uppruna sinn í 101 Reykjavík og gera sér e.t.v. ekki mikla grein, því miður, fyrir lífinu á landsbyggðinni, að maður tali ekki um sem maður hefur stundum heyrt að mörgum sé bara skítsama um það, svo að ég noti bara það orð. Það er langt síðan, herra forseti, að ég gerði mér grein fyrir því að landsbyggðin á sér ekkert mjög marga vini á höfuðborgarsvæðinu, langt síðan ég gerði mér grein fyrir því.

Herra forseti. Ég hef hlustað með athygli á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafa djöflast gegn þessu verki og þessari framkvæmd allt kjörtímabilið, sama hvað við vorum að tala um, og gera enn. Það er í raun og veru ekkert hægt að segja um það. Þetta er að sjálfsögðu skoðun manna sem eru á móti þessu bara, hafa reyndar fengið það orð á sig að vera á móti öllu. Ég hef stundum vitnað í það að þessi ágæti flokkur sá ástæðu til þess að gera samþykkt um það á landsfundi að hann vildi vara við því að settir yrðu upp margir ljósastaurar í byggðarlögum, varaði sem sagt við götuljósum og gerði sérstaka samþykkt um það. Þau sögðu að það gæti skemmt stjörnusýn og að mig minnir, herra forseti, hefur einhvern tíma átt sér stað orðræða í þessum ræðustól og í þessum þingsal um þetta mál. Ég horfi út um gluggann nú þegar klukkan er að verða hálftólf, það er að skyggja hér úti og ljóskastararnir vísa á þetta virðulega hús, og minnist þess að a.m.k. einn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var á móti þessari lýsingu að Alþingishúsinu og taldi hana allt of mikla. Finnst mér nú eðlilegt að hv. þingflokksformaður Vinstri grænna hlæi að þessu máli vegna þess að ég gerði það líka á sínum tíma.

Ég átti ekki kost á því áðan að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, út í eitt mál. Ég hef stundum spurt þann hv. þm. út í afstöðu hans í dag samanborið við afstöðu á þeim árum eða því ári --- það var vonandi bara ár sem hv. þm. var ráðherra í ríkisstjórn Íslands, landbrh. og samgrh. ef ég man rétt, kringum 1990--1991 --- til ýmissa mála. Við höfum t.d. stundum rifist um þegar verið er að veita heimild til að selja einhverjar orkuveitur úti á landi eða breyta þeim í hlutafélag og ég bar það saman við afstöðu hv. þingmanns við það þegar við Siglfirðingar neyddumst til að selja rafveitu og hitaveitu okkar. Þá töldum við að það væri nauð að selja þær en við þurftum að fá pening til að greiða skuldir. Ég lít hins vegar ekki á að það sé í dag. Það hafa engin vandkvæði komið upp með það.

En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon aðstoðaði okkur við þá sölu og veitti því máli brautargengi með að skapa heimild í lánsfjárlögum fyrir því að Rarik fengi að kaupa rafveitu og hitaveitu en hefur svo á síðari árum sem formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á Alþingi barist gegn sambærilegum aðgerðum hjá öðrum orkuveitum, annaðhvort við sölu, m.a. til Rariks, eða breytingu á rekstrarformi yfir í hlutafélag. Ég hef svo sem ekkert fengið út úr því nema hálfgert skítkast og skítt með það, ekki mikið um svör við því hvað hefur valdið þessari afstöðubreytingu. Mönnum er að sjálfsögðu í sjálfvald sett að skipta um skoðun. En það er nefnilega svo líka að þegar ég hlustaði á hv. þingmann ræða um álver á Reyðarfirði eða Kárahnjúkavirkjun rifjaðist upp fyrir mér að hv. Steingrímur J. Sigfússon sat í ríkisstjórn Íslands sem landbrh., sem þingmaður Alþýðubandalagsins sem þá var og hét, sem studdi í þeirri ríkisstjórn byggingu álvers á Íslandi, studdi væntanlega byggingu álvers á Íslandi á þessum árum sem þáverandi iðnrh. og samningamenn hins erlenda fyrirtækis sem og ég man ekki hvað heitir ákváðu að staðsetja á Keilisnesi. Ekki rétt? (ÞBack: Yes, yes, yes.) Yes, yes, segir hv. þm. Þuríður Backman, það staðfestir að ég er á réttri braut. (ÞBack: Ja, Keilisnes og ... ) Og þessi hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, var sem sagt stuðningsmaður byggingar álvers á þessum árum sem sitjandi ráðherra í þeirri ríkisstjórn en hafði að vísu með sér í farteskinu að þingflokkur Alþýðubandalagsins hafði ályktað um að það mætti ekki vera á Keilisnesi heldur hvar, herra forseti? Úti á landi. Á Reyðarfirði.

Hvað hefur breyst á þessum 10 árum? Hvað hefur gert það að verkum að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, kjörinn af landsbyggðarkjördæmi, berst nú svo hatrammlega gegn þessari framkvæmd, þessu álveri sem á að byggja á Reyðarfirði en ekki Keilisnesi? Hv. þm. og hans ágæti þingflokkur sem þarna starfaði vildu byggja þetta úti á landi til að koma í veg fyrir meiri byggðaröskun. (Iðnrh.: Hvaða flokkur var það?) Þetta var Alþýðubandalagið sáluga og ég er að ræða, hæstv. iðnrh., um landbrh. og samgrh. í þáverandi ríkisstjórn. Sá ráðherra heitir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. (ÖJ: Það er að hefjast mikil sögurýni hérna?) Já. (ÖJ: Við munum taka það upp á eftir.) Já. Það er eðlilegt og það verður væntanlega kominn nýr dagur þegar sú sögurýni fer í gegn og það er hið besta mál. Það er þannig, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að það er nauðsynlegt að fara í gegnum söguna og það er nauðsynlegt að kryfja mál til mergjar um það hvað veldur því að menn skipta svo gjörsamlega um skoðun eins og ég hef gert að umtalsefni. (ÖJ: Eigum við að ræða barnabótaniðurskurðinn?) Við verðum að fara í gegnum þetta og við verðum að ræða hvað veldur þessum sinnaskiptum, (Gripið fram í: Við skulum ræða það.) hvort það eru bara einhverjir prívathagsmunir lítils flokks, foringja lítils flokks sem stofnaður er af hv. þingmanni utan um hv. þingmann og býður fram til Alþingis og nær kjöri með nokkra ágætisþingmenn með sér. En það eru ekki liðin nema 10 ár síðan þetta var og nú ætla ég ekki eitt augnablik að spyrja um afstöðu annarra þingmanna í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vegna þess að enginn af þeim hv. þm. sem eru í þingflokknum í dag áttu sæti á Alþingi þegar þetta var. Þetta á eingöngu við um foringjann sem hefur verið fremstur í flokki. (ÖJ: Þið hugsið mikið um foringjann.) Já, þið hugsið mikið um foringjann, ég hef áttað mig á því og vissi það reyndar. (Gripið fram í: Leiðtoga.) Leiðtoga. (ÖJ: Forsætisráðherraefni.) Já, ykkar. En það kemur sjaldan í hlut smáflokka að tilefna forsrh. Það skyldi ekki vera vegna þess að ég vitnaði áðan í landsfundarsamþykktina um ljósastaurana, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er á móti ljósastaurum (Gripið fram í.) og móti lýsingu vegna þess að það skemmir stjörnusýn. Ja, ég get ekkert gert annað en ég las bara þessa samþykkt og hún var alveg klár. (ÖJ: Þetta er að verða mjög málefnalegt.) (Gripið fram í.) Já, ég hygg að þetta sé ekki minna málefnalegt en ýmsar aðrar orðræður sem hafa átt sér hér stað í dag en ég bið bara forláts á því ef ég hef komið við einhverjar slæmar taugar og ef ég er að rifja upp einhver mál, ýfa upp mál, sem menn vilja helst ekkert ræða. Í sjálfu sér skil ég það vel. Ég skil vel að hv. þingmenn vilji ekkert ræða þetta og því miður, eins og ég segi, er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki hér til að svara fyrir það. En ég geri ráð fyrir að hann muni ná að svara fyrir það einhvern tíma héðan úr ræðustól Alþingis þótt síðar verði og fjalla um þetta. Þegar ég fór að rýna aftur í tímann fór ég að hugsa aftur til þeirrar ríkisstjórnar sem þarna var sem gömlu flokksfélagar mínir voru í, eins og hv. þm. Jón Sigurðsson, Jón Baldvin Hannibalsson og fleiri góðir alþingismenn þess tíma. Þá sá ég vel að þarna var líka sá þingmaður sem ég hef gert að umtalsefni sem var stuðningsmaður álvers fyrir 10 árum, barðist gegn því vegna þess að það átti að byggja á höfuðborgarsvæðinu og ég hygg að væri ég í sömu sporum í dag mundi ég sennilega berjast gegn því, þ.e. byggingu þess á höfuðborgarsvæðinu. Ég mundi berjast fyrir því, eins og hv. þm. gerði fyrir 10 árum, að slíkt álver yrði byggt úti á landi, á Reyðarfirði, sem er með fína aðstöðu til að taka við þessu, og Miðausturlandið.

Herra forseti. Ég vil bara rétt í lokin ítreka enn einu sinni stuðning minn við þetta verkefni, við byggingu álvers á Reyðarfirði, og ég mun með glöðu geði greiða því atkvæði þegar það kemur til lokaatkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi að þessi framkvæmd fari í gang. Ég vona að framkvæmdir við þetta verk hefjist sem allra fyrst (Gripið fram í.) og er viss um að það verður Austfirðingum og Íslendingum til heilla þegar fram líða stundir.