Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:47:20 (4119)

2003-02-26 23:47:20# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Andsvörin eru svo stutt að maður kemur litlu að. En hv. þm. vék að innihaldi mótmælaskjals mótmælenda á Austurvelli þar sem því er haldið fram að stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi muni hafa skaðvænleg efnahagsleg áhrif. Þar eru þær á sama máli konurnar, því að flestar eru þetta konur, og skríbentar Viðskiptablaðsins í dag sem segja undir flennifyrirsögn að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmda á næstu árum muni halda útflutningsgreinum í spennitreyju. Þeirra málflutningur rímar við það sem hér segir. Ég mun koma nánar að því á eftir.

Hitt þarf hv. þm. ekki að undrast að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð skuli hafa risið upp til varnar náttúrunni. Við erum að andmæla þeim óafturkræfu spjöllum sem ríkisstjórnin er með stuðningi Samfylkingarinnar að vinna á náttúru Íslands. Þetta er réttlætt með jákvæðum efnahagslegum áhrifum. (Forseti hringir.) Við höfum sýnt fram á það í ítarlegum málflutningi að þau eru engin. Ég mun koma nánar inn á það í ræðu minni á eftir.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á tímamörkin. Það eru 15 mínútur til andsvara og ef menn virða ekki tímamörkin þá komast ekki allir að sem vilja veita andsvar.)