Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:58:33 (4129)

2003-02-26 23:58:33# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér um byggingu álvers á Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka sem við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og reyndar nokkrir fleiri þingmenn --- þar á meðal tveir, ef ég man rétt, þingmenn Samfylkingarinnar --- erum andvíg.

Hv. þm. Kristján Möller eyddi þó nokkrum tíma ræðu sinnar ekki í að reifa rök og gagnrök ólíkra sjónarmiða í þessu máli. Nei, hv. þm. eyddi uppistöðu ræðutíma síns í að ræða mína persónu. Það duldist fáum að tilgangurinn var að (Gripið fram í.) reyna að gera þann sem hér stendur ótrúverðugan sem stjórnmálamann. Það var m.a. talað í mikilli hógværð um leiðtoga smáflokks. Ja, miklir menn erum við, Hrólfur minn.

Ég ætla ekki að gefa málflutningi hv. þm. einkunn. Það geta aðrir gert. En það ætla ég að segja að orðin ,,víðsýni`` og ,,umburðarlyndi`` fyrir ólíkum skoðunum voru ekki þau orð sem mér komu í hug til að lýsa honum.