ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:35:06 (4141)

2003-02-27 10:35:06# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þetta mál snýst um það að vegna þess að við erum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði þurfum við að tilkynna um opinberan stuðning við starfrækslu fyrirtækja til ESA. Í þessu tilfelli er um fyrirtækið Alcoa að ræða. Hv. þm. gerir mikið úr því að það megi líkja þessu ferli við samningaviðræður. Aðalatriðið er að við höfum ekki lokið umfjöllun málsins og ESA hefur ekki lokið umfjöllun þess og ekki kveðið upp úrskurð. Meðan svo er getum við það ekki á grundvelli upplýsingalaga --- það er gert ráð fyrir því í upplýsingalögum að í tilfellum sem þessum þegar um fjölþjóðastofnun er að ræða séu ekki veittar upplýsingar. Það er niðurstaða ráðuneytisins að í þessu tilfelli sé ekki ástæða til að veita þessar upplýsingar. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem bað um upplýsingarnar á grundvelli upplýsingalaga getur að sjálfsögðu kært þessa meðferð málsins af okkar hálfu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þar getur hún fengið niðurstöðu um hvort við erum að gera rétt í þessu máli en við teljum svo vera. Við teljum rétt að hafna því að gefa upplýsingarnar vegna þess að málið er í ákveðnu ferli og því er ekki lokið.

Þarna eru miklir hagsmunir í húfi og þegar umfjöllun er lokið af hálfu ESA og allt liggur fyrir er þetta að sjálfsögðu allt uppi á borðinu. Ég tek undir það sem embættismenn sögðu við hv. þingmenn í nefndinni í morgun, og ég tel rétt að það megi líkja þessu við samningaviðræður. Þetta er ígildi samningaviðræðna í raun á meðan ekki hefur fengist niðurstaða og þess vegna er fjallað um málið á þennan hátt. Þetta er okkar niðurstaða.