ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:39:11 (4143)

2003-02-27 10:39:11# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Umfjöllun ESA er ekki lokið, segir hæstv. iðn.- og viðskrh. og vísar svo til upplýsingalaga sem rökstuðnings fyrir því að neita upplýsingum um þetta mál. Neita hverjum? Neita þingmönnum, neita Alþingi um upplýsingar um mál sem er til umfjöllunar á Alþingi. Við erum með í höndunum nákvæmlega þessa daga frv. til laga um m.a. skattalegar ívilnanir til fyrirtækisins, þ.e. hluta af ríkisstuðningnum sem ESA er væntanlega að skoða, hversu umfangsmikil meðgjöfin er sem þetta gælufyrirtæki, Alcoa, á að fá. Það er greinilegt að ríkisstuðningurinn, meðgjöfin til Alcoa, er svo umfangsmikill að ESA þarf gögn og aftur gögn og enn þá meiri gögn til þess að meta hvort þetta standist. Er þá hægt að bjóða Alþingi og þingmönnum upp á það að ljúka afgreiðslu um frv. sem varðar málið beint og að leynt sé á sama tíma fyrir þinginu upplýsingum um málið? Því það er hluti af málinu sem hér er til umfjöllunar sem á að leyna. Auðvitað er það fjarri öllu að hér geti verið á ferðinni hagsmunamál af því tagi að það þurfi að fara leynt gagnvart Alþingi. Það er algjörlega út í hött að halda því fram. Það er áhugavert líka út frá sjónarhóli hagsmuna íslenskra skattborgara að þessi staða skuli vera uppi í málinu, að ríkisstyrkirnir, meðgjöfin, niðurgreiðslurnar til Alcoa skuli vera svo umfangsmiklar að það er greinilega á mörkunum að rúmast innan ramma evrópskra samkeppnisreglna og það þarf að prútta við ESA um að reyna að ná því þangað inn. Það er líka ákaflega áhugavert en í raun og veru dapurlegt mál frá sjónarhóli þingræðis og lýðræðis í landinu að ríkisstjórnin skuli halda svona á málum.