ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:47:31 (4147)

2003-02-27 10:47:31# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegur forseti. Þetta mál sem hér um ræðir var rætt allítarlega í morgun við ráðuneytið í efh.- og viðskn. Það sem þetta mál snýst um er einfaldlega það að iðnrn. telur eðlilegt út frá hagsmunum Íslands, íslenskum hagsmunum, (ÖJ: Ríkisstjórnarinnar.) að standa þannig að því að það sé trúnaðarmál á meðan á málsmeðferð stendur. (Gripið fram í.) En eins og hæstv. iðnrh. vakti réttilega athygli á eru gögnin orðin opinber þegar þessari málsmeðferð lýkur, þá er enginn trúnaður á málinu lengur, þá liggur fyrir að menn geta rætt þetta með þeim hætti sem þeir kjósa. Um það snýst þetta mál í raun og veru.

Ég gekk sérstaklega eftir því í morgun í nefndinni hvort áhugi væri á að fá þessi gögn til nefndarinnar með þeim hætti að þetta væru trúnaðargögn sem nefndin gæti rætt sín í milli og áttað sig aðeins á. Enginn óskaði eftir að það yrði gert. Það var ekki ósk um það að málið kæmi til nefndarinnar sem trúnaðarmál og væri rætt sem slíkt. (ÖJ: En við yrðum að þegja yfir því gagnvart þjóðinni.) Virðulegur forseti. Ég var að útskýra og hv. þm. staðfesti það með frammíkalli sínu. Það liggur fyrir að það kom ekki fram ósk um það nema síður væri að málið yrði rætt í nefndinni sem trúnaðarmál og gögnin væru sem trúnaðarmál. Þannig standa þessi mál. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig að þetta mál snýst um það sem ég rakti hér áðan. Hæstv. iðnrh. metur það svo, iðnrn. og stjórnvöld, að það sé til bóta fyrir íslenska hagsmuni að málið sé rætt með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það var hins vegar farið yfir það í nefndinni og er ekkert trúnaðarmál að þau gögn sem liggja þarna til grundvallar eru að sjálfsögðu opinber gögn í meginatriðum vegna þess einfaldlega að auðvitað eru svörin með þeim hætti að þau hljóta að byggjast á þeim upplýsingum sem liggja til grundvallar því þingmáli sem við erum að ræða um. Það blasir auðvitað við að svörin hljóta að byggja á þeim efnislegu gögnum sem við höfum og þingið hefur haft aðgang að og menn hafa verið að ræða hér daginn út og daginn inn eðlilega í fjölmiðlum. (ÖJ: Menn vildu fá upplýsingar um þetta mál. Þú meinaðir þeim það.)