Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:06:44 (4163)

2003-02-27 12:06:44# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:06]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum með aðild að Atlantshafsbandalaginu frá stofnun þess 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin sinnt þeirri skyldu okkar að tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar. Við lok kalda stríðsins urðu miklar breytingar í Evrópu. Margar Austur-Evrópuþjóðir, sem höfðu verið undir járnhæl kommúnismans, öðluðust frelsi og sjálfstæði. Við Íslendingar höfum stutt dyggilega við þessa þróun til aukins lýðræðis í álfunni. Atlantshafsbandalagið hóf stækkun sína til austurs fyrir þremur árum þegar Pólland, Tékkland og Ungverjaland fengu aðild.

Á leiðtogafundinum í Prag í nóvember sl. var ákveðið að sjö nýjum ríkjum yrði boðið að slást í hóp þeirra 19 sem fyrir eru. Stækkunin hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir lýðræði og frið í Evrópu og staðfestir endanlega lok kalda stríðsins. Náið samstarf hefur einnig tekist milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, sem allt hnígur í þá átt að styrkja enn frekar þessa þróun. Stefnt er að því að aðildarviðræðum fulltrúa bandalagsins og ríkjanna sjö ljúki nú á fyrri hluta þessa árs og Alþingi fjalli um stækkunina til fullgildingar á haustþingi 2003, eða á vorþingi 2004.

Íslendingar eru vopnlaus þjóð og hafa jafnan lagt áherslu á að leysa beri úr deilumálum á alþjóðlegum vettvangi á friðsamlegan hátt. Við höfum tekið virkan þátt í starfsemi Sameinuðu þjóðanna næstum frá upphafi. Nú er hafinn undirbúningur að framboði Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2009--2010. Sýnir það glöggt vilja okkar til að taka enn virkari þátt í starfsemi þeirra og leggja okkar af mörkum á þeim vettvangi sem er ákaflega mikilvægt, einkanlega nú á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum.

Stríð og átök milli landa hafa margvísleg áhrif á milliríkjaviðskipti og koma í veg fyrir að þau geti þróast með eðlilegum hætti. Það þarf frið og stöðugleika til að viðskipti milli landa og heimsálfa blómstri. Hryðjuverkaárásirnar 11. sept. 2001 knúðu okkur til að horfast í augu við hvílík ógn stafar af skipulagðri hryðjuverkastarfsemi fyrir allar þjóðir heims, þar á meðal okkur Íslendinga, enda urðum við strax vör við neikvæð áhrif hryðjuverkanna í Bandaríkjunum á íslenskt atvinnulíf, samdrátt í ýmsum greinum, einkum þeim sem snúa að ferðaþjónustu og flugsamgöngum.

Djúpstæðustu áhrifin hljóta þó að liggja í því að enginn er óhultur. Enginn veit hvar þessir glæpamenn bera niður næst. Slíkt elur af sér ótta og öryggisleysi almennings um allan heim til viðbótar við efnahagslegt tjón. Einskis má láta ófreistað til að uppræta alla starfsemi af þessu tagi hvar sem hana er að finna. Þá reynir á styrk alþjóðasamfélagsins í baráttunni til að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi og viðbrögð við henni verið í brenni\-depli. Innan NATO er lögð áhersla á meiri framlög til varnarmála. Íslensk stjórnvöld vinna stöðugt að því að tryggja stöðu Íslands við þessar nýju aðstæður. Ákvörðun Evrópusambandsins um að móta sameiginlega öryggis- og varnarstefnu markaði viss þáttaskil og hefur þegar haft áhrif á stöðu og starfsemi Atlantshafsbandalagsins. Ísland hefur ætíð lagt áherslu á að gæta verði þess að mótun og framkvæmd sameiginlegrar öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins verði ekki til að veikja Atlantshafsbandalagið og Atlantshafsbandalagstengslin.

Vopnleysi okkar veldur því að Ísland treystir öðrum fremur á sameiginlegar varnarskuldbindingar Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin. Allar vísbendingar um atburðarás sem leitt gætu til þverrandi styrks þessara meginstoða eru okkur þess vegna áhyggjuefni. Þær væringar og klofningur sem orðið hefur innan NATO að undanförnu vegna Íraksmálsins eru mikið alvörumál.

Herra forseti. Mikilvægi utanríkismála fer vaxandi, um leið og viðskipti milli landa aukast og veröldin skreppur saman með betri samgöngum og fjarskiptatækni. Ég tel að sjá megi ákveðnar hliðstæður í víkingatímanum og þeim tímum sem við lifum nú. Víkingatíminn var blómaskeið á Norðurlöndum og einkenndist af því að norrænar þjóðir sköruðu fram úr öðrum í krafti þekkingar og tækni. Norðurlandabúar réðu yfir mikilli þekkingu og færni í skipasmíði og siglingum. Þeir áttu mikil viðskipti og blómleg við aðra íbúa álfunnar, uppgötvuðu ný lönd og heila álfu og fluttu heim með sér hvers kyns þekkingu og reynslu. Þetta var forsenda aukinnar þekkingar og framfara og veitti þeim yfirburðastöðu í Evrópu þess tíma. Allt gat það í sjálfu sér ógnað þeim gildum sem þeir byggðu á heima fyrir en reynslan staðfestir að sú þekking var nýtt til að auðga og bæta þá tilveru sem fyrir var. Þetta er vert að hafa í huga þegar við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar og samskiptatækni upplýsinga- og þekkingarsamfélagsins þeytir okkur á fljúgandi ferð inn í óræða framtíð. Blasir ekki áþekk mynd við í nútímanum í smækkandi heimi? Hún birtist í síharðnandi samkeppni milli þjóðanna við að tileinka sér þá fjölmörgu möguleika sem felast í tækninýjungum, vísindalegri þekkingu og uppgötvunum?

Ég get ekki stillt mig um að nefna Halldór Laxness til sögunnar. Hann var íslenskari en allt sem íslenskt er. Fáir landa okkar hafa gefið heiminum stærri verðmæti en hann. Um það vitnar sú viðurkenning sem hann hefur hlotið fyrir skáldverk sín og útbreiðsla bóka hans. Halldór dvaldi langdvölum erlendis. Hann ferðaðist mikið um heiminn. Fáir hafa verið trúrri uppruna sínum en hann. Ég nefni þetta til að undirstrika þá staðreynd að það sem á við í lífi einstaklings á einnig við um líf þjóðar. Íslendingar hafa borið gæfu til að standa trúan vörð um þann menningararf sem fortíðin hefur skilað. Okkur hefur lánast að byggja á honum, ávaxta hann og endurskapa. Það er e.t.v. ein meginástæða þeirrar velmegunar og traustu og góðu stöðu sem við búum við í nútíðinni.

Sagan sýnir glöggt að þjóðinni hefur jafnan vegnað best í sem mestum og bestum samskiptum við aðrar þjóðir um leið og hún hefur ætíð gengið götuna á íslenskum skóm og verið býsna stolt af. Ég tel afar dýrmætt að svo sé og tel það meginástæðuna fyrir velgengni okkar á ótalmörgum sviðum.

Herra forseti. Íraksdeilan hefur verið mikið til umfjöllunar síðustu mánuði. Það er áhyggjuefni hversu erfiðlega gengur að koma Saddam Hussein í skilning um alvöru málsins og knýja hann til samstarfs við vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 1441 frá 18. nóv. sl., er sönnunarbyrðin hjá Írökum. Einnig kemur fram í ályktuninni að það hafi alvarlegar afleiðingar ef Írak haldi áfram að brjóta gegn skyldum sínum. Sameinuðu þjóðirnar verða að hafa burði og staðfestu til að leiða þetta mál til lykta á viðunandi hátt samkvæmt eigin ákvörðunum. Að öðrum kosti er trúverðugleiki þeirra í hættu. Afstaða Íslands í þessu máli er skýr. Við styðjum aðgerðir Sameinuðu þjóðanna í einu og öllu.

[12:15]

Í síðustu viku var utanríkisráðherra Svía, Anna Lindh, í heimsókn hér á landi. Hún flutti fyrirlestur á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Einnig átti hún fundi með hæstv. forsrh., utanrrh. og umhvrh., sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlanda. Á blaðamannafundi að loknum fundi hennar og hæstv. utanrrh. kom fram að Svíar teldu að leita bæri allra leiða til að leysa Íraksdeiluna með friðsamlegum hætti og innan Sameinuðu þjóðanna. Svíar hefðu þó ekki útilokað stuðning við hugsanlegar hernaðaraðgerðir ef aðrar leiðir reyndust árangurslausar.

Í viðtali við Morgunblaðið sem birtist 21. febrúar sl. kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

Blaðamaður Morgunblaðsins: ,,Íraksdeilan virðist hafa skipt Evrópuríkjunum í fylkingar hvað stuðning við Bandaríkin varðar.``

Og Anna Lindh svarar: ,,Óháð því hvort við styðjum Bandaríkin í þessu máli eða ekki er mikilvægt að við byggjum upp eigin mátt. Í þessu máli er hins vegar mikilvægast hvernig hægt er að afvopna Íraka. Ég vona að hægt verði að gera það án valdbeitingar í gegnum eftirlitsmennina. Ef beita verður hervaldi er hins vegar mikilvægt að það verði gert í umboði Sameinuðu þjóðanna.``

Síðan spyr blaðamaður: ,,Hversu lengi er hægt að bíða?``

Og ráðherrann svarar: ,,Eins lengi og vopnaeftirlitsmennirnir telja að starf þeirra skili árangri. Ef þeir meta stöðuna sem svo að þeir komist ekkert áfram verður hins vegar að kalla þá heim. Það er þó líka ljóst að Írakar munu ekki sýna samstarfsvilja ef ekki er til staðar hótun um beitingu hervalds.``

Þetta eru athyglisverð ummæli utanríkisráðherra Svía, en Svíar standa utan hernaðararbandalaga eins og allir vita. Það kemur glöggt fram í viðtalinu að ráðherrann útilokar ekki beitingu hervalds gagnvart Írökum og sýnir þetta vel hversu alvarleg staðan er í þessu erfiða máli.

Ég vík nú að stækkun Evrópusambandsins sem leiðir af sér stækkun Evrópska efnahagssvæðisins þar sem nýjum aðildarríkjum verður skylt að sækja um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Samningaviðræður eru þegar hafnar eins og kunnugt er. Óhóflegar og óraunsæjar kröfur í upphafi viðræðnanna settu þær í nokkuð stífan gír. Það reynir svo sannarlega á samningamenn Íslendinga að verjast í þessu máli og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Kröfur framkvæmdastjórnarinnar um framlög til uppbyggingarsjóða Evrópusambandsins eiga sér enga stoð í EES-samningnum. Í upphafi var stefnt að því að ljúka samningaviðræðum um miðjan apríl en nú er mjög óljóst hvenær þeim getur lokið.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í ræðu sinni áðan afstöðu Sjálfstfl. til aðildar að Evrópusambandinu. Stefna Sjálfstfl. er afar skýr. Við teljum það ekki þjóna hagsmunum þjóðarinnar að ganga þar inn. Og það er engin von til þess að kúvending verði af hálfu flokksins í þessu máli eins og þingmaðurinn gaf í skyn áðan.

Herra forseti. Efling Íslensku friðargæslunnar er liður í aukinni þátttöku okkar á alþjóðavettvangi. Ísland leggur áherslu á að vera virkur þátttakandi, bæði hvað snertir kostnað og mannafla. Eitt stærsta verkefnið sem Íslenska friðargæslan hefur komið að er stjórn flugvallarins í Pristina í Kosovo þar sem íslenskir flugumferðarstjórar starfa undir hatti NATO en í náinni samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Verkefnið er fyrst og fremst fólgið í því að koma flugvellinum undir borgaralega stjórn, þjálfa heimamenn og fela þeim að lokum stjórn flugvallarins. Þetta verkefni hefur vakið athygli erlendis og mælst mjög vel fyrir, og er skýrt dæmi um það hvernig við Íslendingar getum starfað á alþjóðlegum vettvangi. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig til tekst.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæta skýrslu sem varpar skýru ljósi á ýmsa þætti sem hæst ber á málefnasviði hans um þessar mundir.