Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:47:59 (4168)

2003-02-27 12:47:59# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta dálítið mótsagnakennt. Annars vegar er haldin hér lofræða um NATO. Það er mjög í tísku að tala um NATO sem nánast heilagt fyrirbæri, árangursríkustu friðarsamtök allra tíma. En hins vegar eru settar á ræður um það hversu miklar viðsjár séu í heiminum, og ræða hæstv. utanrrh. byrjaði á því. Hefur þetta verið sérstaklega friðvænlegt? Hvað eru styrjaldirnar margar sem einstök NATO-ríki hafa tengst á undanförnum árum? Kerfið hefur þá ekki skilað betri árangri en þetta. Allur vígbúnaðurinn. Þetta fyrirkomulag að ætla að reyna að gæta friðarins gráir fyrir járnum úti um allan heim. Skyldi ekki vera eitthvað bogið við þetta í grunninn? E.t.v. væri vænlegri aðferð til að tryggja frið, öryggi og stöðugleika í heiminum að beita alveg í grundvallaratriðum öðrum aðferðum, þeim sem sagt að uppræta fátækt og hungur og reyna að aðstoða menn við að koma á lýðræðislegu stjórnarfari, bæta lífskjör og annað í þeim dúr, beita fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að ætla að fara um og slökkva eldana með hervaldi þegar þeir eru kviknaðir.

Það væri ákaflega fróðlegt við betra tækifæri að fara rækilegar ofan í þessa hluti eins og þeir snúa líka að Íslandi. Lágmarksvarnir að mati íslenskra stjórnvalda, segir hæstv. ráðherra. Eru það fjórar F-15 orrustuþotur? Eru það lágmarksvarnir og u.þ.b. sá mannafli sem er í Keflavík í dag? Þær voru 16 fyrir nokkrum árum. Hver er óvinurinn sem ógnar Íslandi? Það er talað um hryðjuverk en ætla menn að uppræta þau með orrustuþotum, líka gagnvart Íslandi? Á að byggja upp varnir Íslands gegn slíku með því að vera í NATO og hafa hér orrustuþotur? Gæti ekki verið skynsamlegra að Ísland tæki sér allt aðra stöðu í þessu samhengi í heiminum og tryggði öryggi sitt einkum og ekki síst með því að allir vissu að við værum þeim ekki ógn? Við gætum haldið hér uppi lágmarksöryggisgæslu á flugvöllum og annars staðar til þess að einstakir bandíttar gætu ekki valdið hér usla. Það væri nær þeirri skilgreiningu á lágmarksöryggisgæslu sem ég mundi viðhafa.