Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:50:28 (4169)

2003-02-27 12:50:28# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:50]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þeir sem rætt hafa á undan mér um skýrslu hæstv. utanrrh. hafa lokið lofsorði á hversu yfirgripsmikil hún væri. Ég er ekki í þeim hópi. Ég get ekki tekið undir það. Mér finnst vera fátt nýtt þar að finna og í raun og veru á stundum sérkennilegur lopi teygður.

Það vekur hins vegar athygli mína ýmislegt sem þarna er ekki að finna og má ég þá nefna Schengen, þetta fyrirbrigði sem kostað hefur íslenska þjóð milljarða og hefur líklega ekki orðið til neins nema verða henni heldur fjötur um fót og opnað leiðir fyrir glæpalýð inn í landið. Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. utanrrh. skyldi ekki gera sérstaka grein fyrir þeim samningi sem ríkisstjórnin gerði við hernaðaryfirvöld í Prag um það að leggja fram sérstakt framlag ef stríð brytist út með því að flytja hergögn og vopn, vopn og herlið. Meira að segja kom það fram í skýrum fréttum aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins að það væri þegar búið að semja við íslensk flugfélög um þessa flutninga. Síðan var með öllum hætti reynt að hlaupa fyrir horn í þessu máli en þetta er samt staðreynd og þótt ég hafi í mörgu verið sammála utanríkisstefnu Íslands í heild sinni er þó þarna atriði sem ég mun gagnrýna af fullkominni alvöru.

Hann hefði mátt láta þess getið, hæstv. utanrrh., og lýsa dálítið fyrir okkur þessum glæsibyggingum sem verið er að taka í notkun fyrir sendiherra okkar, bæði í Japan og Berlín. Í Berlín mun húsnæðið kosta um milljarð en það var tekið fram í fréttinni að lóðin væri ansi góð. Í Japan var sett upp sendiráð með milljarðs króna kostnaði þar sem viðskiptajöfrar okkar, sölusamtökin í sjávarútvegi, sem eiga þar aðallega hlut að máli höfðu séð um þetta sjálfir með ágætum. En það er þetta yfirlæti og eyðsla sem ég gagnrýni.

Þótt það sé kannski ekki beinlínis utanríkismál hefði verið fróðlegt að heyra frá máli sem heyrir beint undir utanrrh. og það er Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og þeir framsóknarviðskiptahættir sem þar eru viðhafðir. Kannski gefst tækifæri til þess síðar að fjalla sérstaklega um það mál.

Hæstv. utanrrh. hóf ræðu sína á því að í heiminum væru á ferðinni nýjar ógnanir. Og rétt er það. Má ég skjóta því inn í til gamans að hæstv. ráðherra notar orðið ögurstund sem einhvers konar úrslitastund eða örlagastund. Þetta er rangt. Ögurstund þýðir það ekki neitt. Ögurstund er sú hugsaða stund sem er á liggjandanum, hvort heldur er milli fjöru eða flóðs. Þetta snertir nú meira sérstakt áhugamál mitt um íslenska tungu. Það er talað um síversnandi ástand fyrir botni Miðjarðarhafs, og hefur það ekki borið fyrir að menn reki ógnarástandið sem upp hefur risið, t.d. árásina á New York, til Miðjarðarhafslanda, til þeirra átaka sem þar eiga sér stað milli Ísraels og Palestínu? Um það hefur maður lesið í blöðum. Þegar það er haft í huga að það er eitt voldugt ríki sem hefði getað verið búið að skipa þar til verka og setja á frið, Bandaríki Norður-Ameríku, spyr maður: Hvernig má það vera að ekkert hefur verið aðhafst í tíð þessa Bush bardagamanns? Það var á tíð Clintons sem hann gerði ítrekaðar tilraunir til þess en Bush hefur farið þveröfuga leið, hefur spanað upp Sharon þennan sem mest má verða. Og meðan menn kynda slíkt bál er ekki von á góðu um frið í heiminum eða að spornað verði við hermdarverkum. Svo hastarlegt er það að hermdarverkin ógnarlegu í New York eru af ýmsum rakin til þeirra átaka þar sem múslimar í Palestínu eru leiknir með þeim hætti sem raun ber vitni.

Hér sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: ,,Að sjálfsögðu erum við öll sammála um að markmið alþjóðasamfélagsins hljóti að vera að koma í veg fyrir stríð. Ég legg því áherslu á að leitað verði friðsamlegrar lausnar á málinu. Hernaðarátök eru neyðarúrræði.``

Hver eru þessi öll? Það eru væntanlega Íslendingar, og það eru ýmsar Evrópuþjóðir eins og Þjóðverjar og Frakkar en undir þessu þar sem talað er um alla, og þar er vitnað til alþjóðasamfélagsins, getur a.m.k. ekki verið átt við Bandaríkjamenn, eina stórveldi heims, eins og það fer sínu fram í þessum málum.

Hér segir svo hæstv. ráðherra síðar í ræðunni, með leyfi forseta: ,,Sameinuðu þjóðirnar verða að halda á málum með þeim hætti að enginn efist um vald þeirra og getu til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Sameinuðu þjóðirnar hafa grundvallarhlutverki að gegna og kemur engin stofnun í þeirra stað.``

Hvað segir USA um þetta? Hvað segja Bandaríkjamenn um þetta sem marglýsa því yfir að þeir muni fara sínu fram hvað sem líði ályktunum Sameinuðu þjóðanna? Það hefur að vísu verið gerð tilraun til þess að leysa málið á grundvelli Sameinuðu þjóðanna en ef það skyldi dragast ætla þeir að fara sínu fram. Hverjir eru það þá sem setja Sameinuðu þjóðirnar niður með svo hastarlegum hætti sem það virðist vera?

Ég er ekki ósammála þeirri niðurstöðu sem íslensk stjórnvöld komast að í sambandi við þetta hættuástand en þau virðast eins og fleiri gleyma því að ekki veldur einn þá tveir deila. Ég hygg að Saddam Hussein verði ekki beygður nema menn hafi í bakhöndinni hótun um valdbeitingu og auðvitað ættu Bandaríkjamenn allra manna best að vita hvernig innréttingin er í Saddam Hussein, þessum fyrrv. bandamanni sínum sem þeir studdu af miklu kappi og alúð í stríðinu við Íran á sínum tíma. Við skulum ekki efast um þekkingu þeirra á ,,gamla vininum``.

Ég bið og segi að vopnahlésnefndinni verði gefinn rýmri tími, og raunar þyrfti að gefa henni allan þann tíma sem hún telur nauðsynlegan sjálf. Það verður að ráða bót á þessum ógnunum og ein aðalaðferðin til að ráða bót á þeim þar austur frá er að setja niður deilur Ísraela og Palestínumanna sem Bush þvert á móti eflir.

[13:00]

Hér er kafli um ESB. Ég gef mér ekki tíma til að lesa hann en vitna til þess sem hér segir, með leyfi forseta: ,,Nauðsynlegt samráð Bandaríkjanna og Evrópu færi þá jafnvel fram í ríkara mæli utan veggja bandalagsins, jafnvel beint milli Bandaríkjanna og ESB, þegar taka á afdrifaríkar ákvarðanir á sviði öryggis- og varnarmála. Ágreiningur ESB-ríkja undanfarnar vikur vegna Íraksdeilunnar bendir þó til þess að enn skorti nokkuð á að unnt sé að tala um sameiginlega utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Að því er hins vegar stefnt að samstarf ESB-ríkja í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum verði æ umfangsmeira og nánara.``

Hvaða klofningur er í sambandi við stefnu Evrópuþjóða og Bandaríkjanna í Íraksmálinu? Er það klofningur þótt Þjóðverjar og Frakkar vilji fara aðra leið að settu marki um lausn þessarar háskalegu deilu? Hér er greinilega verið að víkja að því að ESB-ríkin taki utanríkis-, öryggis- og varnarmál æ fastari tökum, og samvinna okkar, eins og segir hér, við Evrópusambandið gæti af þeim sökum orðið margþættari og snert önnur grundvallaratriði en þau er snúa að innri markaðnum og EES. Hér er verið að tína til enn ein rökin fyrir því að við eigum að ganga í ESB. Orðrétt segir, með leyfi forseta: ,,Með stækkun Evrópusambandsins verða þessar spurningar jafnvel enn áleitnari.``

Ég verð nú að segja að þessi kafli ræðunnar er nokkurs konar fimbulfamb sem ég kann ekkert að meta og þarfnaðist miklu rækilegri yfirvegunar en hér gefst kostur á. Hér segir enn, með leyfi forseta:

,,Heimsbyggðin þarfnast samstillts átaks Evrópu og Bandaríkjanna. Gæta verður þess að þær raddir verði ekki of háværar eða reynist sannar sem telja þá gjá illbrúanlega sem menn þykjast sjá vera að myndast milli álfanna tveggja.``

Hver hefur verið aðalgjámyndarinn? Kannast hæstv. utanrrh. nokkuð við mann sem heitir Rumsfeld? Er það ekki hann sem hefur aðallega myndað og mótað þessa gjá? Um það fer ekkert á milli mála. Hann lætur svo við Þjóðverja og Frakka að þeir lifi í gömlum tíma. Hann talar lítilsvirðandi til þeirra, talar niður til þeirra með ósvífnu orðalagi. Það er hann sem er að móta þessa gjá fyrst og fremst.

Hér segir enn, með leyfi forseta: ,,Sum ríki Evrópusambandsins virðast ætla sér það hlutverk að vera þar mótvægi og í því ljósi ber að skoða þann skoðanaágreining sem upp kom innan Atlantshafsbandalagsins.``

Þegar Evrópuríki leyfa sér að hafa sjálfstæðar skoðanir og aðrar en Bandaríkin í einstökum málum er verið að tala um að þau ætli að mynda einhvers konar mótvægi gegn Bandaríkjunum. Þetta eru spekúlasjónir sem ekki er gerandi mikið með. Hér er enn vikið að því, herra forseti, að við Íslendingar höfum haft einarða afstöðu til varnarbandalagsins, Atlantshafsbandalagsins, og raunar Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. ,,Ísland hefur alla tíð stutt þá þróun verði þess vandlega gætt að staðinn verði vörður um Atlantshafstengslin þannig að ekki þurfi að koma til þess að ríki neyddust til að velja á milli ríkja Norður-Ameríku og Evrópu í því mikilvæga samstarfi.``

Hvers vegna í ósköpunum er fitjað upp á þessu hér? Hvers vegna eru þær aðstæður orðnar nú að við t.d. neyddumst til þess að taka afstöðu og velja á milli Norður-Ameríku og Evrópu í þessu samstarfi enda þótt smáágreiningur sé uppi um aðferðir við lausn Íraksdeilunnar? Þetta eru allt saman hugarórar og tilbúningur. Enn segir hér að aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins fjölgi í 26, og með leyfi forseta: ,,Ísland hefur ætíð stutt stækkunaráform bandalagsins. Ekki síst hafa stjórnvöld lagt áherslu á mikilvægi aðildar Eystrasaltsríkjanna sem eru í hópi hinna nýju aðildarríkja nú. Í þeirri umræðu, sem áður var rakin um tengslin yfir Atlantshafið, er áhugavert að hin nýju aðildarríki virðast leggja jafnríka áherslu og Ísland á tengslin yfir Atlantshafið og mun það án efa styrkja bandalagið.``

Ég leyfi mér að fullyrða að enda þótt þessir úfar hafi risið meðal Atlantshafsbandalagsþjóðanna sé engin ástæða til þess að mikla það fyrir sér að hér sé heimurinn eða þessi lýðræðisríki að klofna í tvennt. Við vitum vel að eina stórveldið í heiminum er Bandaríkin og til þeirra þurfum við að snúa okkur um það að gæta til allra átta um að fara ekki fram með slíkum ofsa sem til að mynda Rumsfeld og Cheney, varaforseti í Bandaríkjunum, gera og raunar Bush einnig.

Svo koma hér enn furðulegar vangaveltur, með leyfi forseta: ,,Frekari stækkun bandalagsins [þ.e. Atlantshafsbandalagsins] til austurs mun eigi að síður geta leitt til þess að Ísland færist utar á jaðar þess, en sú þróun hófst reyndar þegar að kalda stríðinu loknu.`` --- Utar á jarði Atlantshafsbandalagsins. Erum við ekki mitt á milli sterkasta aðila að Atlantshafsbandalaginu og Evrópuþjóða þótt það færist eitthvað austur líka, Atlantshafsbandalagið? Hvers slags umræða er þetta og til hvers er upp á henni fitjað? Það er nokkuð sem ég fæ ekki skilið. Það er verið að gera því á fæturna hér aftur og aftur að Atlantshafsbandalagið sjálft sé í einhverri hættu, að Evrópusambandið segi þá skilið við það og myndi sín eigin varnarsamtök o.s.frv.

Hæstv. utanrrh. víkur sérstaklega að Norðvestur-Evrópu og tekur það fram sem rétt er og mikilvægt að við höfum sem nánast samstarf við nánustu vini okkar, eins og í Færeyjum og Grænlandi og víðar. Hæstv. ráðherra gæti orðið sér úti um upplýsingar, t.d. um það hvernig þeir í Færeyjum framkvæma fiskveiðistjórn sína. Það gæti orðið okkur gagnlegra en allt annað að við tækjum upp þá stefnu í framkvæmd sem þeir hafa í fiskveiðistjórnarmálum. Á það hefur ekki mátt minnast en þeir gætu kennt okkur það sem okkur kæmi best, Íslendingum, enda hefur sú stefna reynst með þeim hætti að þar hafa fiskstofnar styrkst og þar hefur sjávarútvegurinn eflst á meðan hér stefnir í allt aðra átt, t.d. um fiskverndarsjónarmiðin.

Hér hafa hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sérstaklega, og hæstv. utanrrh. einnig velt mjög vöngum yfir Evrópusambandinu. Um það snerist öll ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og kom á óvart eftir það að svo virtist vera sem þessir forustumenn Samfylkingar og Framsfl. hefðu afgreitt þetta mál út af borðinu eins og sakir standa. Það má minna á það, það er kannski ekki frágengið en það er búið að tilnefna menn í sérstaka nefnd sem mun ræða þetta mál og rannsaka sérstaklega fyrir forgöngu hæstv. forsrh. Það kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að með öllu er útilokað að við getum gengið til þess leiks að ganga í Evrópusambandið á meðan fiskveiðilögsögumálin, fiskveiðimálin, eru með þeim hætti eins og staðreyndir bera með sér innan Evrópusambandsins. Og allt tal hans um það að við gætum notið þar einhverrar sérstakrar undanþágu er á engum rökum reist.