Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 13:59:59 (4173)

2003-02-27 13:59:59# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurðist fyrir um það og reyndar hv. þm. Össur Skarphéðinsson jafnframt hvað hefði verið gert til þess að fylgja eftir ályktun Alþingis í sambandi við Palestínu. Það hefur verið gert með margvíslegum hætti en þó fyrst og fremst með því að skömmu eftir að Alþingi samþykkti þessa ályktun fór ég í opinbera heimsókn til Ísraels, til Palestínu jafnframt og enn fremur til Jórdaníu þar sem ég átti ágætan fund með Abdullah konungi og þar voru þessi mál að sjálfsögðu efst á baugi. Eins og kunnugt er átti ég fundi með forseta Ísraels, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, aðilum frá ísraelska þinginu og ýmsum fleiri, ýmsum ráðherrum og einnig með Arafat og ýmsum forustumönnum Palestínumanna. Á þessum fundum var þessari ályktun m.a. komið á framfæri, sérstaklega gagnvart ísraelska þinginu, þannig að ég tel að henni hafi verið fylgt eftir. Eins og kunnugt er er ástand á þessu svæði afar slæmt og ekki miklar vonir um að þar verði mikil breyting á nema þá að það verði miklar breytingar í Miðausturlöndum almennt og má segja að þetta mál sé í algjörri sjálfheldu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurðist jafnframt fyrir um það hvort Íslendingar mundu standa að uppbyggingu í Palestínu. Það er ekki tímabært eins og nú standa sakir að tala um uppbyggingu á svæði þar sem átök eiga sér stað en það er náttúrlega alveg ljóst að þegar þeim linnir þarf alþjóðasamfélagið að koma að uppbyggingu þar á nýjan leik. Mér finnst sjálfsagt að Íslendingar taki þátt í því eins og þeir gerðu þegar friðarsamkomulagið komst á sem kennt er við Ósló.