Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:02:21 (4174)

2003-02-27 14:02:21# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með svar hæstv. utanrrh. varðandi ályktun utanrmn. og Alþingis varðandi Palestínu. Þetta er afar mikilvægt. Ég hef áður sagt og segi enn að Ísland nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Rödd okkar er ekki rödd smáþjóðar sem maður sópar til hliðar heldur er þvert á móti hlustað á það sem Ísland hefur að segja. Við sem störfum á alþjóðavettvangi urðum þess áskynja þegar Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu að til þess var tekið hvernig haldið var á málum og hve vel tókst til. Þess vegna eigum við í auknum mæli að taka þessa stöðu, að vera hin sterka rödd og friðarboði og þora að taka afstöðuna afdráttarlaust.

Varðandi uppbyggingu í Palestínu vil ég minna á að ég fylgdi gesti Samfylkingarinnar Barghouthi á fund utanrrh. á sínum tíma þegar hann var að tala um ástandið í Palestínu. Þá var lögð mjög mikil áhersla á að reyna að fá stuðning við færanlega heilsugæslustöð, heilsugæslustöð á hjólum. Í morgunútvarpinu í morgun þá mátti heyra sama mann lýsa ástandinu í Palestínu og því að fólk kæmist ekki á heilsugæslustöðvar, búið að eyðileggja þær og búið að eyðileggja vegina. Hann greindi frá því að fólk gæti ekki leitað læknis eða nokkurs af því tagi. Ég held að við Íslendingar ættum að beita okkur fyrir þessari úrlausn og því að uppbygging hefjist í Palestínu.

Að öðru leyti vona ég að hæstv. utanrrh. komi í svari sínu inn á friðargæslumálin, aukið samstarf Norðurlandanna og sérstakar hrað- og friðargæslusveitir Norðurlandanna.