Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:04:32 (4175)

2003-02-27 14:04:32# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er vel kunnugt um að heilsugæslustöðvar hafa verið eyðilagðar í Palestínu, a.m.k. verið skemmdar. Ég varð vitni að því, sá stöð sem hafði farið mjög illa.

Varðandi samvinnu Norðurlandanna á sviði friðargæslu þá hefur samvinnan verið viðamikil í gegnum tíðina. Að vísu höfum við Íslendingar ekki tekið ríkan þátt í henni. Þó höfum við hafið slík störf á undanförnum árum og má í því sambandi t.d. nefna Sri Lanka og fleira. Við höfum jafnframt unnið með Norðmönnum í Bosníu og svo mætti lengi telja.

Að því er varðar sameiginlegt hraðlið verður að hafa það í huga að Evrópusambandið hefur ákveðið að koma upp slíku liði. Þrjú Norðurlandanna eru innan Evrópusambandsins. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að Norðurlöndin hafa ekki talið rétt, á meðan verið er að byggja það upp, að koma á svipaðri skipan innan sinna vébanda. Þrjú Norðurlandanna taka þátt í þessu og Noregur og Ísland taka jafnframt þátt í viðleitni Evrópusambandsins í þessu sambandi, t.d. er það sem við erum að gera í Kosovo núna liður í því samstarfi. Þannig að Ísland og Noregur eiga í virku samstarfi við Evrópusambandið á þessu sviði.

Þess ber að geta að Ísland tók fyrir nokkru síðan í fyrsta skipti þátt í hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins. Það var ekki gert áður þannig að við komum í ríkari mæli að þessum málum. Það er líka rétt að geta þess að það hefur verið ákveðið að sameiginlegur fundur varnarmálaráðherra Norðurlandanna verði á Íslandi á þessu ári. Það hefur ekki gerst áður. Við tökum núna virkari þátt í samstarfi varnarmálaráðherra Norðurlandanna en áður.