Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:09:17 (4177)

2003-02-27 14:09:17# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Áður en ég sný mér að því sem ég hef valið að gera að meginmáli mínu við þessa umræðu vildi ég gjarnan vísa í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og áhyggjur hans af lýðræðishalla í Evrópu. Vil ég þá einkum vísa til skýrslu um starf Íslandsdeildar Evrópuráðsins á sl. starfsári en umræða um hana er á dagskrá í dag og fer vonandi fram. Ég mun flytja hana og vonandi ná að ræða þau mál ítarlegar.

Ég vil ítreka að í ræðu minni í Evrópuráðinu í júní sl. fjallaði ég um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum og lagði til grundvallar umræðuna um lýðræðishallann innan Evrópusambandsins sem svo mikið hefur borið á á undangengnum árum. Í ræðunni taldi ég miður að svo virtist sem flestar hinna samevrópsku stofnana einkenndust af lýðræðishallanum svonefnda. Því væri afar mikilvægt að það væri í verkahring þjóðkjörinna fulltrúa, t.d. þeirra sem ættu sæti í Evrópuráðsþinginu, að koma að ákvarðanatökuferlinu. Ég benti á að alþjóðastofnanir fjölluðu í sífellt meira mæli um málefni er snertu hagsmuni borgaranna og eðli málsins samkvæmt yrðu þjóðkjörnir þingmenn að koma þar nærri. Evrópuráðið er í sérflokki því á því þingi eru samankomnir þjóðkjörnir þingmenn sem hafa alla möguleika á skilvirku eftirliti með ákvörðunum og framkvæmdum ráðherraráðsins.

Þá vil ég snúa mér að meginmáli mínu en blikur eru á lofti í alþjóðamálum um þessar mundir. Þótt ætla mætti af orðum sumra að þessar blikur stafi af hernaðarmætti og árásargirni bandamanna okkar á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum er öllum ljóst sem vilja vita að þær eru afleiðingar Saddams Husseins og ógnarstjórnar hans í Írak. Að sama skapi ríkir nokkur tvískinnungur í alþjóðasamskiptum um þessar mundir. Svo virðist sem menn hafi skipulega reynt að snúa hlutum á hvolf, gera stefnu Bandaríkjastjórnar tortryggilega og tengja hana þrengstu efnahagsmálum í stað þess að ræða málin málefnalega og viðurkenna það sem við blasir, þ.e. að alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir miklum vanda þegar hryðjuverkaógnin, útlagaríki og útbreiðsla gereyðingarvopna er annars vegar.

Það er ekki ofsögum sagt að alþjóðasamskipti hafa tekið stakkaskiptum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin. Hefðbundnar skilgreiningar á öryggishugtakinu og vörnum viku sviplega fyrir nýjum raunveruleika. Bandaríkjamenn og helstu bandamenn þeirra brugðust skjótt við og eitt farsælasta varnarbandalag sögunnar, Atlantshafsbandalagið, tók fordæmislaus skref í stuðningi sínum. Nú, einu og hálfu ári eftir árásirnar afdrifaríku, virðist hin órofa samstaða tætt, því miður.

En hvers vegna? Öryggisstofnanir hafa síðan 11. sept. 2001 keppst við að endurskipulegga sig með hliðsjón af hinum nýju váboðum sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Þó er það svo að sumar þjóðir, rótgróin lýðræðisríki sem sum hver hafa sjálf þurft að kljást við hryðjuverkaógnina, virðast ekki hafa vaknað af þyrnirósarsvefni sínum og áttað sig á hinni breyttu heimsmynd. Ógnin af hryðjuverkastarfsemi og útbreiðsla gereyðingarvopna eru þær tvær ógnir sem hvað mest eru aðkallandi í dag. Hvað hina síðari varðar þá skapa Íraksstjórn og stjórnin í Norður-Kóreu mestu ógnina, ógn sem er óásættanleg.

Þeir kostir sem eru á borðinu til að takast á við ógnina eru allir slæmir, um það deilir enginn. En sú stefna sem Bandaríkin og Bretland hafa tekið er líklega sú illskásta. Það er illt til þess að vita og engum blöðum um það að fletta að það er borin von að mál leysist friðsamlega nema sverð Damoklesar hangi yfir Bagdad.

Stjórn Saddams Husseins virðist ekki skilja neitt nema nakið valdið. Hussein hefur gert eldflaugaárásir á fimm grannríki. Íraksstjórn hefur ráðist inn í tvö nærliggjandi ríki. Stjórnvöld í Bagdad hafa það á samvisku sinni að hafa beitt efnavopnum gegn eigin þjóð. Þarf frekari sannana við? Að sama skapi er eina vonin til að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna haldi trúverðugleika sínum sú að fulltrúar þess fylki sér um nýja ályktun sem gefi nýju bandalagi færi á að beita hernaðaraðgerðum ef öll ráð þrýtur.

Samkvæmt ummælum forsætisráðherra Bretlands í gær má ganga að því sem vísu að Íraksforseta hafi verið settur alger lokafrestur til að gera hreint fyrir sínum dyrum áður en ný ályktun verður lögð fyrir öryggisráðið. Frekari undanlátsemi er óþörf og boltinn er í Bagdad.

Öryggisráðið hefur í á annan tug ára samþykkt yfir 20 ályktanir sem varða skýlaus brot Íraka. Þær ber allar að sama brunni. Íraksstjórn beri að afvopnast strax og að öllu leyti án skilyrða og takmarkana. Í ályktun 1441 sem samþykkt var í nóvember er Íraksstjórn hótað alvarlegum afleiðingum verði hún ekki við kröfum öryggisráðsins. Í dag erum við í sömu sporum og í nóvember að tvennu undanskildu. Annars vegar eru vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, UNMOVIC eins og kallað er, og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar á jörðu niðri. Þeir aðilar hafa skilað áfangaskýrslum sínum sem gefa litla von um að árangur þess starfs verði öllu meiri hér eftir en hingað til. Ástæða þess hve illa það starf hefur gengið er m.a. lipurleiki Íraksstjórnar við að koma vígbúnaði sínum undan eftirliti.

[14:15]

Hins vegar, og þetta atriði er öllu alvarlegra, er samstaðan innan öryggisráðsins sundraðri nú en fyrir þremur mánuðum. Orðræðu þeirri og deilum sem átt hafa sér stað innan öryggisráðsins hefur jafnvel verið beint með fordæmalausum hætti inn á brautir Atlantshafsbandalagsins, vettvangs þar sem orðheldni og órofa samstaða hefur einkennt störf. Þær deilur hafa verið leystar í bili en eftir stendur að helg vé hafa verið rofin og nokkur tími kann að líða áður en gróir um heilt á þeim vettvangi.

Allt þetta er sem vatn á myllu Saddams Husseins og stjórnar hans. Úrtöluraddir á meginlandi Evrópu eru því marki brenndar að Saddam Hussein getur gert sér mat úr þeim jafnvel þótt stefnumið ríkja eins og Þýskalands og Frakklands séu að sjálfsögðu ekki sett fram með því markmiði. En eftir stendur að sá alvarlegi ágreiningur sem uppi er kann að valda því að óbreytt ástand viðhaldist til skemmri tíma eða þá að Bandaríkin og bandalag viljugra ríkja taki þá ákvörðun að efna til einhliða aðgerða án fulltingis Sameinuðu þjóðanna. Báðir þessir kostir eru mjög slæmir og hvað sem öðru líður hefur Bandaríkjastjórn sýnt fram að þessu fullan vilja til þess að starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna hvað þetta varðar.

Sú stefna viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna sem viðhaldið hefur verið um árabil í Írak og hlotið hefur mikla gagnrýni hefur beðið skipbrot. Um það deila fáir. Írakskir borgarar hafa verið undir mikilli áþján og soltið heilu hungri í valdatíð Saddams Husseins og nú er svo komið að talið er að eitt af hverjum fimm börnum í landinu þjáist af viðvarandi næringarskorti. Heilbrigðisþjónusta er afar bágborin sem er í hróplegu ósamræmi við það sem fyrr var er samfélagsþjónusta í Írak var með miklum ágætum. Þá er aðgangur að hreinu vatni takmarkaður víða um land og fæðuöflun erfiðleikum háð sem bitnar helst á börnum og gamalmennum.

Án tillits til stjórnmálaástands í landinu er ljóst að mörg ár munu líða áður en írakska þjóðin getur sigrast á vanda þessum. Mun hún bera ör þessa ástands um langan tíma. Hægt er að taka undir margt af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið en vissulega er það fullljóst öllum sem stærsta þáttinn eiga í því hörmulega hlutskipti sem Írakar búa við í dag að þann þátt á Íraksforseti sjálfur.

Rík þörf er á því að beina sjónum heildrænt að getu eða getuleysi alþjóðakerfisins til að hamla útbreiðslu gereyðingarvopna. Miðað við þau dæmi sem eru efst í umræðunni nú um stundir, Írak og Norður-Kóreu, sem eru jafnframt sömu dæmi og voru uppi fyrir um áratug síðan, er örðugt að komast að annarri niðurstöðu en að alþjóðasamfélagið standi að mörgu leyti ráðþrota gagnvart ríkjum sem hafa einsett sér að smíða slík vopn og ógna öðrum með þeim. Við búum í heimi þar sem hugtök líkt og gagnvirk fæling duga lítils gegn útlagaríkjum. Við búum einnig í heimi þar sem einbeittir og staðfastir einræðisherrar geta með tiltölulega auðveldum hætti vikið sér undan alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit. Eftir Flóabardaga 1991 áttaði heimsbyggðin sig á því að Íraksstjórn hafði verið hársbreidd frá því að ljúka við smíði kjarnavopna. Á sama tíma voru uppi grunsemdir um að Norður-Kóreustjórn væri að vinna baki brotnu að smíði sams konar vopna. Í fyrra tilfellinu var skilvirku eftirlitskerfi komið á fót samkvæmt ályktunum öryggisráðsins og var því nokkuð vel ágengt í að uppræta vígvélar stjórnvalda í Bagdad. Í síðara tilfellinu var stjórnvöldum í Pyongyang sýnd eftirlátssemi. Niðurstaðan hefur reynst hin sama í báðum tilfellum og að mörgu leyti voru gerð afdrifarík mistök hvað Norður-Kóreu varðar.

Stundum heyrist að tvískinnungs gæti í stefnu Bandaríkjanna og Bretlands gagnvart Írak og Norður-Kóreu, öðru ríkinu er hótað hernaðaraðgerðum en hinu ekki. Þau rök mega sín lítils því að menn hljóta að vilja forðast það með öllu hugsanlegu móti að Íraksstjórn komist í sömu stöðu og Norður-Kórea.

Ég hef áður rætt um það sem í Morgunblaðinu um helgina var nefnt ,,hinn tvíhöfða þurs hryðjuverka og gereyðingarvopna``, sem væri ein mesta ógn sem alþjóðasamfélaginu stafaði af nú um stundir. Þótt menn beggja vegna Atlantsála greini ekki mikið á í orði um ógnina þá virðast verkin standa á sér, hvort sem það er vegna stjórn- og kerfislægrar tregðu við stefnu Bandaríkjastjórnar eða þá að utanríkisstefna ráðist af skoðanakönnunum þá liggur það ljóslega fyrir að raunveruleikinn er sá að við stöndum á miklum tímamótum í alþjóðasamskiptum. Þegar svo er ástatt um, þegar eldri aðferðir duga ekki lengur, er rík nauðsyn á dirfsku og hugsjónum. Af þessu má ljóst vera að úrkostir alþjóðasamfélagsins með Sameinuðu þjóðirnar í öndvegi eru æðiflóknir nú um stundir. Hvorki við Íslendingar né aðrir erum óhultir fyrir aðsteðjandi ógnum.

Sjónarmið friðsamlegra lausna hefur verið haft að leiðarljósi í friðarsamningum sem ég hef átt virkan þátt í í Tsjetsjeníu á vegum Evrópuráðsins undanfarin þrjú ár. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa, e.t.v. vegna samstarfs sömu aðila og Saddam Hussein hefur á stundum verið talinn bendlaður við.

Það er vissulega mikill ábyrgðarhluti að hóta eða beita valdi. Slíkt er ekki gert nema ef öll ráð þrjóta, og við skulum vona að þau þrjóti ekki á næstunni. En að sama skapi er jafnmikil ábyrgð fólgin í því að sitja hjá með hendur í skauti.

Ég vonast eftir því að við Íslendingar berum gæfu til að leggja jákvætt til málanna í þessum efnum og að virkni okkar innan alþjóðasamfélagsins muni áfram verða sú að hlustað verði á okkur eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi áðan, og að við getum látið rödd okkar heyrast í þessum efnum, ekki síst á líðandi stundu.