Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:39:31 (4196)

2003-02-27 15:39:31# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er alls ekki svo að ég hafi nokkurn minnsta áhuga á því að hræra eitthvað upp í stöðu þessara mála í Samfylkingunni eða gera hana óskýrari en hún er. Þvert á móti er hugur minn allur sá að reyna að hjálpa til og skýra málið. Ég er þess vegna að vitna hér til beinna ummæla og spyrjast fyrir um hluti. Ég hlustaði á Össur Skarphéðinsson eða las öllu heldur uppskrift að samtali sem hann hafði átt við hv. þm. Björn Bjarnason á sjónvarpsstöð, ég hygg að það hafi verið Stöð 2 í morgunsjónvarpi. Þau ummæli ýmis sem þar féllu vöktu verulega athygli mína. Og það er erfitt að túlka það öðruvísi en þannig að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, væri að mjaka þessu máli aðeins til hliðar á senunni og hann hafði um það einhver slík orð að þetta yrði kannski ekki aðalkosningamálið og annað í þeim dúr.

Nú er það þannig að ég hef oft heyrt hv. þm. Össur Skarphéðinsson segja það býsna berum orðum að hann telji að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég hygg að hann orði það gjarnan þannig að hann sé kominn að þeirri niðurstöðu að kostirnir séu fleiri en gallarnir og eitthvað í þeim dúr. Það má fletta upp á þessu öllu saman. Auðvitað getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem þingmaður og persóna í stjórnmálum haft að einhverju leyti persónulega skoðun í þessum efnum en hann er enn formaður Samfylkingarinnar það ég best veit. Þó að kominn sé annar talsmaður er formaður Samfylkingarinnar að tala. Og þegar hann lætur ummæli falla af því tagi sem hann gerði í samtalinu eða viðræðunum við hv. þm. Björn Bjarnason tekur maður eftir slíku.

Ég er sem sagt bara að reyna að átta mig á því hvaða stöðu þessi mál hafa í augnablikinu hjá þessum tveimur flokkum sem hafa stundum reynt að selja þjóðinni þá mynd að það væri miklu meira eiginlega með þá að gera í þessum efnum en aðra af því að þeir vildu ræða málin, eins og aðrir væru feimnir við það eða hefðu einhvern tíma hafnað því að ræða þessi mál. Það er líka misskilningur. Ég er ævinlega til í að ræða þetta eins og heyra má hér því ég er sennilega sá maður sem í þessari umræðu hef rætt einna mest um Evrópumál.