Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:06:00 (4204)

2003-02-27 16:06:00# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Ísrael, um vald og valdbeitingu. Samþykktir Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins gagnvart Ísrael snúast um vald og valdbeitingu, valdbeitingu Ísraelsmanna og Ísraelshers gegn Palestínumönnum og þann ásetning Ísraelsmanna að halda í land sem þeim ekki ber. Þeir hafa ekki farið að vilja Sameinuðu þjóðanna um að láta af þessari valdbeitingu.

Ég heyrði ekki betur en hv. þm. tengdi nauðsyn þess að losna við Saddam Hussein 11. september og hryðjuverkastarfsemi. Sannast sagna fannst mér hann ekki svara spurningu minni um þetta efni.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Björns Bjarnasonar, sem er fróður um sögu og stjórnmálaþróun á síðustu öld og þekkir gjörla til sem blaðamaður í langan tíma: Telur hann ekki nein tengsl á milli þeirra gríðarlegu auðæfa sem er að finna í jörðu í Írak og hernaðarhagsmuna Bandaríkjanna í þessum heimshluta og þess ásetnings Bush-stjórnarinnar að beita Íraka valdi? Telur hann engin tengsl vera þarna á milli? Það væri gaman að heyra rökstuðning um það efni.

Hitt er svo annað mál að ég átti ekki von á öðru en að fá hina dapurlegu framtíðarsýn hv. þm. Björns Bjarnasonar varðandi friðinn og herinn. Hann getur ekki ímyndað sér Ísland án hers.