Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:07:44 (4205)

2003-02-27 16:07:44# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki ímyndað mér Ísland án þess að menn geri hér ráðstafanir til að tryggja öryggi sitt. Hvernig það er gert á hverjum tíma verður að taka mið af þeirri hættu sem við teljum að okkur steðja. Við töldum um aldir að fjarlægðin tryggði öryggi okkar og en sannfærðumst um það endanlega í síðari heimstyrjöldinni að svo væri ekki og að við þyrftum að gera aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi okkar en að treysta á fjarlægðina frá öðrum ríkjum. Þetta verðum við að hafa í huga og grípa til þeirra ráðstafana á hverjum tíma sem við teljum skynsamlegastar til að tryggja öryggi okkar.

Þess vegna segi ég að í upphafi nýrrar aldar, með hliðsjón af reynslu okkar á undanförnum 60 árum og hvernig við höfum staðið að varnarmálum á undanförnum 60 árum: Er ekki skynsamlegt að við reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það nú hvernig öryggi okkar er best tryggt án þess að missa sjónar á gildi þess að eiga gott samstarf við Bandaríkin? Ég tel að núverandi ástand hafi leitt í ljós að tvíhliða samningur eins og við eigum við Bandaríkin sé betri en flest annað sem við búum við til að tryggja öryggi okkar nú á tímum.

Varðandi spurninguna um Ísrael þá snýst þetta mál ekki um það hvort Ísraelar beiti valdi gagnvart Palestínumönnum. Þegar ég var að tala um valdbeitingu þá átti ég við heimildir í ályktunum Sameinuðu þjóðanna fyrir ríki til að beita Ísraela valdi. Um það snýst umræðan um Íraka og stöðu þjóða gagnvart Írökum: Hvaða umboð hafa Sameinuðu þjóðirnar veitt þjóðum til þess að beita Íraka valdi? Um það er deilan. Það eru engin slík ákvæði í neinum samþykktum Sameinuðu þjóðanna um Ísrael.