Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:24:40 (4207)

2003-02-27 16:24:40# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristjáni Pálssyni að því er varðar þróunarríki. Að sjálfsögðu er mjög nauðsynlegt að taka meira tillit til þeirra í alþjóðlegum viðskiptum. Það er alveg ljóst að það mun hafa áhrif til frjálsræðisáttar á ýmsum sviðum, m.a. á sviði landbúnaðar. Það þýðir að Íslendingar, þ.e. íslenskur landbúnaður verður að búa sig undir meira frjálsræði á þessu sviði. Þróunarríkin hafa verið með þær kröfur á undanförnum árum, sem er eðlilegt, að þau hafi eðlilegan aðgang að vestrænum mörkuðum. En það sem er kannski verra í þessum málum öllum er að þróunarríkin hafa oft og tíðum ekki það skipulag sem gerir þeim kleift að komast með góðum hætti inn á þessa markaði jafnvel þótt tollar séu ekki fyrir hendi. Þau hafa ekki þá reynslu og þann mannafla sem þarf til að vinna markaðsstarf á þessum mörkuðum.

Við Íslendingar höfum jafnframt talið það mjög nauðsynlegt og mikilvægt fyrir þróunarríkin að setja reglur um ríkisstyrki í sjávarútvegi. Við teljum að það ríkisstyrkjakerfi sem er víða í heiminum verði til þess að þróunarríkin nýti ekki auðlindir sínar sjálf eins og þau gætu gert, heldur reki rík iðnríki sjávarútveg í landhelgi þróunarríkjanna vegna þess að iðnríkin styrkja þessa atvinnugrein með þeim afleiðingum að þróunarríkin verða fyrir verulegum skaða, enda hefur tillaga okkar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fengið mikinn stuðning þróunarríkjanna.